26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4942 í B-deild Alþingistíðinda. (4344)

244. mál, lífeyrisréttindi húsmæðra

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 432 að flytja till. til þál. svohljóðandi: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta semja frv. til l. um lífeyrissjóð fyrir húsmæður sem ekki hafa þegar öðlast rétt til aðildar að lífeyrissjóði.“

Ég held að okkur megi vera það ljóst að eitt hið alvarlegasta misrétti í þessu þjóðfélagi er það hve eftirlaunaréttur manna er misjafn. Allflestir landsmenn hafa þó öðlast rétt til aðildar að lífeyrissjóðum, en kjör þeirra eru að sjálfsögðu mjög misjöfn, þar sem sumir þeirra eru verðtryggðir en aðrir ekki. Og það er í sjálfu sér mjög mikið misrétti. En þó eru þeir enn verr settir sem enga aðild eiga að lífeyrissjóði og ekki möguleika til þess að komast þar inn. Einn stærsti hópurinn sem enn stendur utan lífeyrissjóða og nýtur ekki annars lífeyris en ellilauna, sem að sjálfsögðu nægja engan veginn til framfærslu, eru húsmæður sem hafa unnið á heimilum sínum og fjölskyldna sinna en ekki þegið formleg laun úr hendi neins atvinnurekanda. Störf þessara húsmæðra hafa verið mjög mikilvæg og áreiðanlega ekki minna virði fyrir þjóðfélagið en önnur störf sem unnin hafa verið og laun þegin fyrir.

Það er alkunna að fjölskyldan er hornsteinn okkar þjóðfélagsskipunar og vinna við barnauppeldi og heimilisstörf er að sjálfsögðu mjög mikilvæg, ekki síður en önnur þau störf sem innt eru af hendi utan heimilis. Telja verður því réttmætt að allar húsfreyjur, sem þegar eru komnar á eftirlaunaaldur, fái lífeyrisrétt. Og það hygg ég að best verði gert með því að stofna slíkan sjóð. Það er óhjákvæmilegt að ríkið leggi stofn að þessum sjóði til þess að hann geti tekið strax til starfa og farið að sinna hlutverki sínu. Það er ekki óeðlilegt að ríki leggi þarna fram fjármuni þar sem þessar húsfreyjur hafa í afar mörgum tilfellum sparað ríki og sveitarfélögum mjög verulegar fjárhæðir með því að annast börn sín sjálfar. Þegar allt kemur til alls þá er það kannske mikilvægasta verkefnið sem mannfólkið tekur sér fyrir hendur og afdrifaríkasta að annast afkvæmi sín og sjá um að uppeldi þeirra og þroski takist sem best. Af öltum þeim störfum sem maður amstrar við í hinu daglega lífi hygg ég að þetta sé nú það sem mikilvægast er.

Að sjálfsögðu getur ríkið ekki staðið alfarið undir svona sjóði. Það verður að gera ráð fyrir því að heimavinnandi húsmæður greiði tillag til sjóðsins í framtíðinni og þær eldri fái einnig heimild til þess að kaupa sér aukinn rétt sem þær kynnu að óska og hafa hentugleika til.

Ég held að það hljóti að vera stefnumið okkar að setja á stofn einn sameiginlegan lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Því hefur margoft verið hreyft á Alþingi á undanförnum áratugum, en þó hefur ekki orðið úr framkvæmdum. Sjóður sem komið væri á fót með atbeina ríkisins, eins og ég er að leggja til að hér verði gert, gæti orðið stofn eða hvati að sameiginlegum lífeyrissjóði allra landsmanna og a. m. k. sjálfsagt að gera ráð fyrir því að hann yrði aðili að slíkum lífeyrissjóði.

Það sem tilraunir til að koma á þessum sameiginlega lífeyrissjóði, sem ég held að mikill meiri hluti manna sé sammála um að þurfi að koma hafa strandað á er með hverjum hætti unnt yrði að sameina hina ýmsu lífeyrissjóði sem bjóða upp á mjög misjöfn kjör. Sumir þessir lífeyrissjóðir hafa verið byggðir upp af mikill framsýni og sjá mjög vel fyrir sínum sjóðfélögum en aðrir miklu miður og eru lítils megandi. Þess vegna held ég að við þurfum að sjá fram í tímann og þetta verði ekki gert nema á löngum tíma, það þurfi nokkuð mikinn aðlögunartíma til þess að af slíkri sjóðstofnun geti orðið. Ég held að rétt væri að stefna að því að ákveða það með lögum nú á næstunni að allir lífeyrissjóðir skuli sameinaðir að einhverjum ákveðnum árafjölda liðnum, t. d. eftir tíu, kannske fimmtán ár. Undirbúningurinn gæti orðið þannig að frá ákveðnum degi greiddu allir landsmenn á starfsaldri tillag í lífeyrissjóð allra landsmanna. Þeir sem þess óskuðu gætu fært réttindi sín úr sérlífeyrissjóði til þessa sjóðs um einhverra ára skeið til baka, en eldri sjóðirnir störfuðu áfram, til þess að greiða lífeyri þeirra sem eiga þar réttindi, meðan þeim entust fjármunir og/eða þangað til samkomulag næðist um inngöngu sérsjóða í lífeyrissjóð allra landsmanna.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta miklu meira. Ég tel mjög mikilvægt að láta ekki lengur viðgangast það misrétti sem hér hefur verið við lýði. Ég heiti nú á hv. alþm. að sameinast um að lagfæra þetta ófremdarástand og samþykkja þessa tillögu mína eða eitthvað í þá veru. Ég er að sjálfsögðu tilbúinn að ljá máls á allra handa breytingum, að því áskildu að lífeyrisréttur hinna heimavinnandi húsmæðra yrði sæmilega tryggður. Ef menn koma með önnur ráð og sannfæra mig um að þau séu betri en það sem ég bendi hér á, þá er ég fús til að hlusta á það. En það sem mér finnst vera meginkjarni málsins er að þetta ófremdarástand megum við ekki láta viðgangast lengur.

Herra forseti. Ég óska eftir því að þegar þessari umr. verður frestað í dag verði þetta mál sent hv. allshn. til athugunar.