26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4945 í B-deild Alþingistíðinda. (4346)

244. mál, lífeyrisréttindi húsmæðra

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Þáltill. sú sem hér er til umr. hreyfir svo sannarlega við ákaflega þörfu og brýnu máli, réttindaleysi heimavinnandi fólks í lífeyrismálum. Í þessum málum ríkir ófremdarástand sem ekki verður lengur við unað, eins og flm. tók fram í framsöguræðu sinni áðan. En það er þó einn stór galli á gjöf Njarðar. Það er það sjónarmið sem fram kemur í grg. með till., þar sem stungið er upp á því að heimavinnandi húsmæður greiði sjálfar iðgjöld til sjóðsins. Mér er í rauninni spurn: Veit hv. flm. ekki að húsmæður þiggja engin laun í krónum talið fyrir störf sín? Og með hvaða krónum eiga þær þá að borga í lífeyrissjóð?

Flm. hlýtur hér að gera ráð fyrir því að eiginmenn og fyrirvinnur þessara húsmæðra greiði þessi gjöld. En ég spyr hv. flm.: Áttar hann sig á því hvað þá gerist? Sá útivinnandi, þ. e. væntanlega eiginmaðurinn í flestum tilfellum, till. hljóðar upp á húsmæður, og skv. orðanna hljóðan eru þær kvenkyns, en það þarf ekki endilega að skilja það svo, sá útivinnandi, hvort sem það er eiginmaður eða eiginkona, er þá kominn í sömu stöðu og atvinnurekandi sem greiðir launatengd gjöld, í þessu tilfelli lífeyrissjóðsiðgjöld annars ólaunaðs starfsmanns. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri einustu átt.

Það er með öllu óverjandi að stilla hjónum eða sambúðarfólki upp í þá stöðu sem hér um ræðir. Og það er að mínu mati einnig með öllu óverjandi að ætlast til þess yfirleitt að launalaust fólk greiði launatengd gjöld.

Ég er flm. till. fyllilega sammála í því að vinna við barnauppeldi og heimilisstörf er engu síður mikilvæg og merkileg en önnur störf sem unnin eru úti á vinnumarkaðnum. Og mér finnst það í rauninni standa upp á þjóðfélagið sem heild að viðurkenna þessi mikilvægu launalausu störf sem eru unnin í þágu þess alls og eru þjóðhagslega lífsnauðsynleg. Þess vegna væri það e. t. v. einfaldast og eðlilegast að allir landsmenn legðu nú nokkuð af mörkum til að tryggja heimavinnandi lífeyri og að lífeyrissjóður heimavinnandi væri að öllu leyti á höndum ríkisins.

Í raun og veru leggur hv. flm. sjálfur til rökin fyrir slíku fyrirkomulagi í grein sem hann skrifar í dagblaðið Tímann 6. apríl s. l., en þar segir hann, með leyfi forseta:

„Fjölskyldan er hornsteinn þjóðfélagsins og vinna við barnauppeldi, heimilisstörf og aðhlynningu sjúkra og lasburða á heimilum er mjög mikils virði og síst minna virði en þau störf sem eru innt af hendi gegn þóknun utan heimilis. Þess ber og að gæta að með heimavinnu spara húsfreyjur ríki og sveitarfélögum oft miklar fjárhæðir með því að gæta barna sinna sjálfar eða hjúkra gömlum og sjúkum.“

Með öðrum orðum heimavinnandi spara fyrir ríki og sveitarfélög og því er ekki nema sanngjarnt að þessir aðilar sjái heimavinnandi fyrir lífeyri að loknum starfsdegi.

Ef mönnum finnst þessi kostur ekki fýsilegur þá er um annan kost að ræða til að tryggja heimavinnandi lífeyri. Hann er að finna í þáltill. þm. Alþfl. um gagnkvæman makalífeyri, sem lögð var fram í upphafi þessa þings og er að finna á þskj. 5. sú till. felur í sér að áunnin stig hjóna eða sambúðarfólks verði lögð saman og skipt á sérreikninga þeirra fyrir þann tíma sem sambúð varir. Þannig er sjálfstæð aðild hvors aðila til lífeyrisréttinda tryggð og er það tvímælalaust kostur þessarar tillögu. Gallinn er hins vegar sá, að hún miðast að öllu leyti við vinnu unna úti á vinnumarkaðnum og metur því í rauninni ekki til fjár þau störf sem unnin eru inni á heimilunum. Till. tryggir m. ö. o. sjálfstæða makaaðild að lífeyrisréttindum svipað og gert er ráð fyrir með Lífeyrissjóð bænda og ég tel til bóta, þó að þar séu ekki heldur í rauninni metin til lífeyrisréttinda þau störf sem húsfreyjur vinna inni á heimilum, heldur er þar farið eftir innleggi í búvörureikning. En þessi till. sem ég er hér að ræða um núna, á þskj. 5, tryggir sjálfstæða makaaðild að lífeyrisréttindum og hún gerir ekki heldur ráð fyrir því að þeir sem engin laun hafa greiði eitt eða annað, eins og sú till. sem hér var flutt áðan. Ber fyrri till. tvímætalaust af þeirri síðari að þessu leyti.

Hins vegar er till. Alþfl. -manna ófullnægjandi vegna þess, eins og ég sagði, að hún metur í rauninni ekki heimavinnuna til fjár, hún dreifir aðeins réttindunum og gerir lítið annað. Það væri aftur móti hægt að gera hana aðgengilegri með því að kveða svo á að þegar og ef heimavinnandi fara út á vinnumarkaðinn eftir einhvern árafjölda við heimilisstörf, þá sé heimavinnutíminn metinn sem starfsreynsla og heimavinnandi gefinn kostur á að kaupa sér lífeyrisréttindi í samræmi við það og á sérstökum vildarkjörum eftir að út á vinnumarkaðinn er komið. Með slíku ákvæði til viðbótar tel ég till. Alþfl.-manna vel koma til álita.

Í öllum þeim atriðum sem snerta þá er heimavinnandi eru er þó eitt vandamál sem nauðsynlegt er að athuga vandlega, en í hvorugri þeirri till. sem hér um ræðir er það gert. Það er sú staðreynd að þótt viðkomandi sé að hluta eða í fullu starfi úti á vinnumarkaði þá er hún eða hann líka heimavinnandi. Heimilisverkin hverfa ekki þótt fólk fari út að vinna, síður en svo. Í könnun jafnréttisnefndar Reykjavíkur frá árinu 1981 kom í ljós eftirfarandi tímalengd og skipting á vinnuframlagi maka til heimilisstarfa: Ef eiginkona var ekki á vinnumarkaði, heldur heimavinnandi að öllu leyti, þá var vinnuframlag hennar á viku til heimilisstarfa 51 klst. Vinnuframlag eiginmanns var þá 5 klst. Ef eiginkona var í hlutastarfi á vinnumarkaði þá var vinnuframlag hennar á viku til heimilisstarfa 34 klst. en vikuframlag eiginmanns 6 klst. Ef eiginkona var í fullu starfi á vinnumarkaði þá var vinnuframlag hennar á viku til heimilisstarfa 22 klst. en framlag eiginmanns 7 klst. M. ö. o., ef kona er í sambúð eða gift og í fullu starfi úti á vinnumarkaði þá vinnur hún sem svarar tæplega hálfu starfi í heimavinnu að auki.

Það er því ljóst að því fer fjarri að fólk sé ekki heimavinnandi þótt það sé einnig útivinnandi. Einnig er ljóst að heimavinnan hvílir að meginhluta til á konum, hvernig sem útivinnunni er háttað. Og þá er það vandamálið: Er nokkurt réttlæti í því að þær sem eingöngu eru heimavinnandi njóti ákveðinna réttinda fram yfir þær sem eru bæði útivinnandi og heimavinnandi og vinna oft og tíðum tvöfaldan vinnudag? Varla getur það talist réttlátt. Því er það meginmál að finna út hvernig hægt er að meta til réttinda heimavinnu útivinnandi kvenna. Slík lausn er ekki hrist fram úr erminni í einu vettvangi. En það er um tómt mál að tala, um réttláta lagasetningu um þá sem heimavinnandi eru, nema þetta atriði sé tekið með. Þessu vil ég hér með vekja athygli á.

Að endingu vil ég lýsa yfir stuðningi Samtaka um kvennalista við fram komnar hugmyndir um sameiginlegan lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Þar er á ferðinni mikið þjóðþrifamál og eflaust verða lífeyrismál heimavinnandi best leyst innan þess ramma. Eftir öllum sólarmerkjum að dæma er þess þó líklega alllangt að bíða að slík skipan lífeyrismála komist á svo að fram að þeim tíma verður að leysa til bráðabirgða lífeyrismál heimavinnandi. En þá, eins og ég hef hér tiltekið, á þann máta að annaðhvort sé ríkið ábyrgt að öllu leyti fyrir þeim sjóði, beri allan kostnað þar af, eða þá með gagnkvæmum makalífeyri og sérstökum lífeyrisréttindum heimavinnandi eftir að út á vinnumarkaðinn er komið. Hvor kosturinn sem valinn er verður að mínum dómi að taka hlutastörf við heimilisvinnu með í reikninginn því annars er hætt við að útkoman verði engan veginn réttlát.