26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4947 í B-deild Alþingistíðinda. (4347)

244. mál, lífeyrisréttindi húsmæðra

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég hlýt að draga þá ályktun að aukinn skilningur sé að vakna í þjóðfélaginu fyrir því að koma verði réttindamálum húsmæðra eða heimavinnandi fólks í betra horf en nú er og menn séu kannske að sjá fram á og viðurkenna það réttindaleysi sem þær hafa lengi búið við og að það þurfi að verða breyting þar á. Flestir viðurkenna auðvitað að störf heimavinnandi fólks séu mjög mikilvæg þó að þau séu ekki metin að verðleikum að sama skapi. Á herðum konunnar hefur oftast hvílt meginþunginn af öllum daglegum rekstri og uppeldi barnanna. En þrátt fyrir mikilvægi heimilisstarfanna hafa þau ekki verið virt í þjóðfélaginu. Það er eins og litið sé á heimilisstörfin sem einhvern sjálfsagðan hlut, eins og eitthvert sjálfboðaliðastarf sem ekkert þarf að greiða fyrir og engan rétt þarf að veita.

Það eru auðvitað fleiri mál sem snerta heimavinnandi fólk sem þarf að kippa í lag. Það eru ekki bara lífeyrismálin. Vitanlega eru lífeyrismálin stór þáttur þar í og það mikla réttindaleysi sem heimavinnandi fólk býr við. Það kemur kannske gleggst fram í skilnaðarmálum hve réttindalausar konur eru. Þó kona hafi verið í hjúskap — ja við getum sagt 40 ár og hafi auðvitað átt eins mikinn þátt í því og eiginmaðurinn að byggja upp heimilið og þær eignir sem myndast hafa á sambúðartímanum, þá stendur hún uppi algjörlega réttindalaus í lífeyrismálum er þau skilja og þarf að sætta sig við einungis þann lífeyri sem hún fær úr almannatryggingum.

Ég held að full ástæða sé til þess að fjalla í þessari umr. um fleiri þætti en bara lífeyrismálin til þess að vekja athygli á því hvað mikið er óunnið í þessu efni, að koma réttindamálum heimavinnandi fólks í viðunandi horf.

Á ráðstefnu sem Samband Alþfl.-kvenna gekkst fyrir ekki alls fyrir löngu var fjallað um marga þætti sem snerta réttindaleysi húsmæðra. Til dæmis varðandi sjúkradagpeninga frá Tryggingastofnuninni. Hvaða réttlæti er í því að heimavinnandi fólk njóti einungis 1/4 af fullum sjúkradagpeningum þeirra sem önnur störf vinna í þjóðfélaginu? Af hverju fær t. d. kona, sem hefur verið á vinnumarkaðnum en er metin 65% öryrki og þarf af þeim sökum að fara inn á heimilið aftur, ekki eina krónu í örorkustyrk ef maður hennar hefur yfir 19 þús. kr. í tekjur? Þau eru ekki metnir þarna sem sjálfstæðir einstaklingar í tryggingakerfinu. Þetta er mjög mikið mál, stórmál sem þarf að breyta.

Skattamálin er ein hliðin á þessu líka. Ef konan er heima t. d. vegna margra barna og hjónin hafa komið sér saman um að hún verði heima og karlmaðurinn þá á vinnumarkaðnum, þá hefur heimilið þyngri skattbyrði af þeim sökum. En ef bæði hjónin væru útivinnandi, þá mundi skattbyrðin dreifast.

Við getum tekið fæðingarorlof líka sem dæmi. Heimavinnandi kona fær einungis 1/3 af því sem kona fær sem vinnur önnur störf í þjóðfélaginu.

Fleira má nefna, eignar- og erfðarétt í óvígðri sambúð. Tökum t. d. eignarréttinn í óvígðri sambúð. Ef heimavinnandi kona og sambýlismaður hennar skilja eftir einhvern tíma og það hafa myndast eignir á sambúðartímanum en konan hefur ekki athugað að láta skrá nafn sitt á þær eignir sem myndast hafa, þá stendur hún uppi allslaus. Það eru mörg dæmi um þetta í þjóðfélaginu. Þessi mál hafa farið fyrir dóm og þá eru konunni dæmd ráðskonulaun. Þetta er ein hliðin á málinu líka.

Ég held það væri nauðsynlegt að fram færi allsherjarúttekt á réttarstöðu heimavinnandi fólks í þjóðfélaginu eða öllu heldur réttindaleysi þess.

Eins og hér hefur komið fram þá liggja fyrir þinginu tvær till. sem báðar hafa það að markmiði að tryggja réttindi heimavinnandi fólks. Ég vék hér áðan að ráðstefnu sem Samband Alþfl.-kvenna gekkst fyrir. Á þeirri ráðstefnu hafði Bjarni Þórðarson hjá Landssambandi lífeyrissjóða framsögu. Hann ræddi ýmsa möguleika í því sambandi að tryggja heimavinnandi fólki lífeyri og sagði að endurskoðunarnefnd lífeyrisréttindakerfis hefði verið með ýmsa valkosti í því sambandi til skoðunar. Hann nefndi þá hugmynd sem fram kemur í till. hv. 2. þm. Norðurl. v., um skyldusjóð ef ég skil till. rétt, hann nefndi till. um frjálsan lífeyrissjóð og hann nefndi þá leið sem ég hef talað fyrir og fram kemur á þskj. 5, um að áunnin stig hjóna eða sambúðarfólks verði lögð saman og skipt til helminga á sérreikning fyrir þann tíma sem sambúð varir. Þeir sem eru heimavinnandi og fráskildir fara ekki varhluta af áunnum lífeyri. Hann sagði að allir þessir kostir hefðu verið til skoðunar í þessari nefnd. Sá kostur sem honum fannst fýsilegastur í þessu var að skipta áunnum stigum hjóna eða sambúðarfólks, en það er sú leið sem m. a. er farin í því frv. sem liggur fyrir um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð bænda.

Nú hygg ég að hvorki ég né hv. 2. þm. Norðurl. v. séum í stakk búin til þess að leggja mat á það hvor leiðin sé skynsamlegri, sú leið sem fram kemur í hans till. eða þeirri till. sem ég hef lagt fram ásamt öðrum þm. Alþfl. Þessi mál hafa verið lengi til skoðunar í nefndinni. Í þeim umsögnum sem fram hafa komið um þá till. sem nú liggur fyrir allshn. á þskj. 5 bregður svo einkennilega við að það er alltaf vísað í þessa lífeyrisnefnd. Og það er ekki bara í þessu máli heldur í sambandi við allar tillögur sem lagðar hafa verið fyrir Alþingi á þeim 5 eða 6 árum sem ég hef setið á þingi og snerta lífeyrismál. Það er alltaf sagt: Það er verið að endurskoða lífeyrisréttindakerfið. Alþingi má ekkert gera og altar tillögur um að breyta lífeyrismálum í einu eða öðru sofna hér í nefnd af þeim sökum að það er verið að endurskoða lífeyriskerfið. En hvað lengi er þessi endurskoðunarnefnd búin að vera að störfum? Ég hygg að það séu a. m. k. 10 ár. Og það kemur ekkert frá henni eða a. m. k. mjög lítið. Þess ber þó að vænta að einhver skriður komist á þessi mál, ekki síst varðandi réttindamál heimavinnandi fólks. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að það heyrist eitthvað frá Alþingi í þessu máli.

Ég fagna því sem fram kom hjá 2. þm. Norðurl. v. að hann er opinn fyrir öllum breytingum á þessum tillögum sem hann telur að gæti orðið samkomulag um eða mundi ná því markmiði sem hann setur hér fram. Ég lýsi því hér yfir að mér er ekki föst í hendi sú leið sem ég legg hér til, ef hægt er að ná samkomulagi um aðra útfærslu á þessu, sem mundi ná því markmiði að tryggja rétt heimavinnandi fólks til lífeyris. Ég endurtek það að ég held að til þurfi að koma útreikningar og álit sérfróðra manna í þessum lífeyrismálum, sem eru flókin, Ég hef t. d. lagt fram till. í allshn. um breytingu í þá veru að Alþingi álykti að fela fjmrh. að beita sér fyrir því að tryggð verði lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks. Þar yrði það skilið opið eftir með hvaða hætti það yrði gert, en mér finnst algert lágmark að eitthvað í þá veru heyrist frá Alþingi. Ég geri ráð fyrir því að þessar tillögur verði skoðaðar saman í n. Þær hafa sama markmið eins og ég hef sagt.

Þó eru það örfá atriði í till. hv. 2. þm. Norðurl. v. sem ég fæ ekki fyllilega skilið af hverju hann setur fram eins og hann gerir í grg. Af hverju talar hann um húsfreyjur? „Telja verður réttmætt að allar þær húsfreyjur sem þegar eru komnar á eftirlaunaaldur“ o. s. frv. Hann talar ýmist um húsfreyjur eða húsmæður, að það þurfi að tryggja þeim lífeyrisréttindi. Nú geri ég ráð fyrir að hv. 2. þm. Norðurl. v: sé þeirrar skoðunar að fleiri geti gegnt heimilisstörfum en bara konur. Þess vegna fellur mér betur að tala um heimavinnandi fólk en að tala um húsfreyjur eða húsmæður. Við hljótum að vera að sigla inn í einhverja meiri jafnréttistíma en við höfum búið við undanfarið. Um leið og konurnar fara meira út á vinnumarkaðinn, eins og þær hafa gert í sívaxandi mæli á undanförnum árum, hljóta heimilisstörfin að skiptast meira milli karla og kvenna. Ég tel því ekki rétt að við séum að tala um húsfreyjur, sem tryggja þurfi lífeyrisréttindi, heldur eigum við að tala um heimavinnandi fólk.

Eins er það ljóst að sú leið sem hv. þm. Páll Pétursson talar fyrir kostar töluvert miklu meira en sú leið sem ég hef mælt fyrir. Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann hafi gert sér grein fyrir þeim kostnaði sem er samfara stofnun lífeyrissjóðs fyrir húsmæður, eins og hann orðar það, og hann orðar það svo að ríkið leggi fram stofn að sjóðnum. Hvað þýðir þetta nákvæmlega? Ég trúi ekki öðru en hann hafi eitthvað reynt að leggja það niður fyrir sér hvaða kostnaður væri samfara þessari till., ef samþykkt yrði hér á Alþingi, og því skulu það vera mín lokaorð: Hefur hv. þm. gert sér grein fyrir hvað slíkt mundi kosta?