07.11.1983
Efri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

19. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að það frv., sem hér er til umr., skuli hafa verið lagt fram, ekki vegna þess að ég taki undir aðaltill. frv. heldur vegna þess að verði þetta mál skoðað í n. þingsins er tækifæri til að kalla fulltrúa sjómannasamtaka og þeirra aðila sem standa að Verðlagsráði sjávarútvegsins til skrafs og ráðagerða um þessi mál. Ég sé því ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um frv., en legg áherslu á að þetta mál verði skoðað vel í nefnd.

En ég kom hér fyrst og fremst upp vegna orða hv. 3. þm. Vesturl. um það ástand sem nú er að skapast á Akranesi og hann lýsti. Ég kom hér upp til að taka undir áskorun hans um að hæstv. ríkisstj. og hæstv. sjútvrh, taki þessi mál til mjög alvarlegrar athugunar og lausnar á næstu dögum. Það er víðar en á Akranesi, þó að þar sé kannske komið í mest óefni, að við blasir að verði stórkostlegt atvinnuleysi, og það virðist vera víðast hvar sama sagan: það stafar af því að nýju togararnir okkar eru hver af öðrum að stöðvast vegna þess að ekki er hægt að halda rekstri þeirra áfram ekki kannske eingöngu vegna þess að það sé að minnka aflinn, heldur hafi fjármagnskostnaður þeirra verið svo mikill. Ég lít svo á að þetta sé dómur um ranga stefnu undanfarinna ára í uppbyggingu íslenska fiskiskipaflotans, um ranga stefnu í fjármögnun hans og einnig um ranga stefnu — og það snertir það mál sem við erum að ræða hér — í verðlagningu á íslenskum fiski. Það er greinilegt að á undanförnum árum hefur þróunin verið sú, að íslenska útgerðin hefur orðið að standa undir því að greiða niður skuldir af skipunum sem eru miklu hærri en verðið sem fengist hefur fyrir þann afla sem flotinn hefur skilað í þjóðarbúið og íslenskur gjaldeyrir hefur fengist fyrir. Þarna hefur átt sér stað geysilega mikil tekjutilfærsla í þjóðfélaginu frá fiskiskipaflotanum okkar íslenska í hendur hinna ýmsu eyðsluaðila í þjóðfélaginu.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessi mál, það verður sjálfsagt tími til þess síðar, en ég vil endurtaka undirtektir mínar við áskorun hv. 3. þm. Vesturl. og skora á ríkisstj. að taka mál fiskiskipaflotans okkar til rækilegrar athugunar og leita lausnar.