26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4953 í B-deild Alþingistíðinda. (4353)

290. mál, sjónvarpsefni frá fjarskiptahnöttum

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir þáltill. á þskj. 562 um móttöku sjónvarpsefnis frá fjarskiptahnöttum. Ég flyt þessa þáltill. hér í Sþ. ásamt þeim hv. þm. Birgi Ísi. Gunnarssyni og Friðjóni Þórðarsyni. Texti till. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að gera sem fyrst ráðstafanir til þess að unnt verði að hefja móttöku sjónvarpsefnis frá fjarskiptahnöttum Evrópuþjóða hér á landi, en slíkar sendingar eru þegar hafnar og ná til Íslands.“

Það mun hafa verið í aflíðandi febrúarmánuði að þær fréttir bárust á öldum ljósvakans í lok þings Norðurlandaráðs að hæstv. menntmrh. hefði átt viðræður við norska kollega sína um möguleika á því að hefja í sumar tilraunasendingar á dagskrá norska sjónvarpsins hingað til lands með atbeina gervihnattar. Þessar fréttir vöktu allnokkra athygli. Þær undirstrikuðu rækilega þá miklu möguleika og nýju leiðir sem hafa opnast í þessum efnum á undanförnum misserum og árum en sem virðast af einhverjum ástæðum hafa farið fyrir ofan garð hjá okkur Íslendingum, hjá íslenskum sjónvarpsyfirvöldum ekki síður. Hér er um nýtt og merkilegt svið og mikla möguleika að ræða og það er efni þessarar þáltill. að benda á þessa nýlegu þróun og hvetja til þess að við Íslendingar verðum í stakk búnir á næstunni til þess að notfæra okkur þessa nýju tækni til þess að komast í samband við umheiminn ef svo mætti segja á þennan máta.

Út af fyrir sig hygg ég að margir hafi tekið þeirri fregn, sem ég nefndi áðan, í lok Norðurlandaráðsþings með nokkurri ánægju og það jafnvel þó að norska sjónvarpsdagskráin sé e. t. v. ekki rómuð sem skemmtilegasta eða fróðlegasta dagskrá veraldar. En það eru engu að síður nokkur tíðindi að einangrun okkar Íslendinga, ef svo mætti kalla, á þessu sviði yrði á þennan hátt í fyrsta sinn rofin.

Ekki eru nema örfá ár síðan, tvö eða þrjú, að unnt var að hefja hér móttöku sjónvarpsefnis erlendis frá beint með atbeina jarðstöðvarinnar Skyggnis. Allir landsmenn þekkja hve miklar framfarir það hafði í för með sér hvað dagskrárgerð sjónvarpsins varðar, ekki síst á sviði frétta og íþrótta þar sem á ríður að sjónvarpsmyndum sé komið þegar í stað til sjónvarpsáhorfenda.

Á síðustu árum hefur átt sér stað í Evrópu ákaflega merkileg þróun, og að mati flm. þessarar till. er orðið fyllilega tímabært að við Íslendingar gerum okkur grein fyrir því hvaða möguleika, hvaða tækifæri þessi þróun býður upp á, hvað okkur snertir hér á landi. Það er nefnilega þannig að þótt þessum málum hafi verið lítill gaumur gefinn er meira en hálft ár síðan Póst og símamálasamtök Evrópu buðu ýmsum ríkjum Evrópu upp á not af fjarskiptahnetti sínum, svonefndum Eutelsat eins og hann hefur verið nefndur, til þess að senda sjónvarpsdagskrá milli landa. Nú þegar hafa allmargar Evrópuþjóðir hafið sendingar á sjónvarpsdagskrám fyrir atbeina þessa hnattar. Má þar nefna Bretland, Vestur-Þýskaland, Frakkland, Sviss, Holland, Belgíu og Ítalíu. Öll þessi ríki sjónvarpa daglega einhverjum dagskrám sínum — því þær eru vitanlega margar í hverju þessara ríkja — um þennan gervihnött þannig að unnt er að ná þeim víða um Evrópu.

Það kemur í ljós þegar að er gáð að ekkert er því til fyrirstöðu að unnt sé að taka á móti þessum sjónvarpsdagskrám einnig hér á landi í dag. Til þess þarf ekki nema mjög einfaldan móttökubúnað. Reisa þarf móttökuloftnet, svo sem það er kallað, sem yrði tiltölulega mjög lítið mannvirki, þyrfti ekki að vera nema fjögurra metra loftnet. Kostnaðurinn við slíka móttökustöð, sem raunar er lítið nema loftnetið, yrði skv. upplýsingum yfirverkfræðings Pósts og síma ekki nema u. þ. b. 1 millj. kr. Þannig er fjárhagslega og tæknilega séð raunverulega ekkert því til fyrirstöðu að Ísland gangi að þessu leyti inn í sjónvarpsöld Evrópu, ef svo mætti að orði komast.

Ljóst er að slíkt efni gæti íslenska sjónvarpið sent út utan venjulegs dagskrártíma íslenska sjónvarpsins, þ. e. áður en það hefst á daginn. Það gæti einnig sent út slíkt efni ef svo bæri undir eftir þráðakerfi, svokölluðu kapalkerfi, sem er nokkur nýlunda hér á landi, þó svo að ýmis bæjar- og borgarhverfi hér búi þegar við slík kapalkerfi og einnig ýmis sveitarfélög úti á landi.

Fyrir það efni sem sent yrði um hnött Póst- og símamálasamtaka Evrópu yrði að greiða visst gjald. Það er fyrst og fremst vegna þess höfundarréttar sem þarna er um að ræða. Fyrir efnið yrði að greiða eins og aðra slíka þjónustu. En það gjald er tiltölulega vægt.

Þessi möguleiki liggur þess vegna á borðinu í dag. Það er einmitt þessi sami hnöttur sem Norðmenn ætla sér að nota nú á komandi sumri í tilraunasendingar á sjónvarpsefni til Svalbarða og til borpallanna undan Noregsströndum en það voru þær sendingar sem rætt er um að ná hingað til lands á sumri komanda. Þannig erum við hér í sjálfu sér ekki bundnir við norska sjónvarpið eitt og það er ástæða til þess að undirstrika það. Frá þessum sama fjarskiptahnetti gefst okkur tækifæri á að taka á móti, ef við svo kjósum, sjónvarpsefni frá fjölmörgum Evrópuþjóðum, þ. e. póst og símamálayfirvöld mundu annast móttökuna, íslenska sjónvarpið mundi annast dreifinguna eftir því sem frekar væri þá ákveðið.

Þetta er einn þáttur þessa máls. En í þessu máli eru miklu fleiri möguleikar, miklu fleiri atriði sem vert er að gefa gaum að. Þar er um að ræða sjónvarp frá fjarskiptahnöttum sem eru í þann veg að hefja göngu sína. Þeir eru ekki komnir á loft eins og sjónvarpshnöttur Póst- og símamálastofnunarinnar í Evrópu en þegar á næsta sumri mun verða skotið á loft tveimur fjarskiptahnöttum sem munu hafa í sér fólgnar sjónvarpsrásir og verður hafið að sjónvarpa dagskrám sem nást munu auðveldlega hér á landi.

Munurinn á þessum sjónvarpssendingum og þeirri sem ég var að gera að umræðuefni er sá að þessar sendingar eru að öllu leyti endurgjaldslausar, þ. e. fyrir efnið þarf ekki neitt að greiða. Hér er um nákvæmlega sama hlutinn að ræða og þegar menn stilla útvarpstæki sitt í dag inn á erlendar útvarpsstöðvar. Eins og ég sagði er ekkert því til fyrirstöðu að taka á móti slíkum sendingum hér á landi. Að vísu kostar það móttökuloftnet, misjafnlega stórt að vísu, en þó almennt ekki nema fjögurra til átta metra á hæð eftir því hvar menn búa á landinu.

Fyrsti hnötturinn fer af stað í sept. 1985, á sem sagt eftir rúmt ár. Það er þýska ríkið sem setur þann fjarskiptahnött á sporbaug og þar hefjast sendingar vestur-þýska sjónvarpsins. Tveimur mánuðum seinna fer franskur fjarskiptahnöttur einnig á sporbaug og hefjast sendingar franskra dagskráa. Nokkru seinna fer einnig enskur hnöttur af stað. BBC mun væntanlega eiga aðild að þeim hnetti þó það sé að vísu ekki fyllilega ákveðið. Ef svo verður mun unnt að ná dagskrám BBC hér á landi endurgjaldslaust eða alla vega bresku sjónvarpsefni.

Hér yrði þá um það að ræða að einstaklingar gætu tekið sig saman um byggingu slíks loftnets, eitt hús, ein gata, eitt bæjarhverfi og leitt það efni eftir þræði milli þeirra sem þarna vilja eiga hlut að máli. Í því sambandi væri kannske ástæða til þess að minnast á fyrirsögn á frétt sem kom í Morgunblaðinu í síðustu viku og hljóðaði svo: „Hljómbær setur upp gervihnattaloftnet, hægt að ná 12 rásum um áramót“. Þó svo að opinberir aðilar, íslenska sjónvarpið, hafi ekki sinnt þessu í neinum verulegum mæli er því ljóst að einstaklingar eru vakandi í þessu efni. Eins og fram kemur í fréttinni, undirbýr þessi verslun uppsetningu loftnets til móttöku sendinga frá gervihnettinum ECS sem mun raunar vera sami hnötturinn og ég nefndi áðan, þ. e. Eutelsat, sem nú þegar, eins og stendur í fréttinni, endurvarpar sjónvarpsefni á fjórum rásum, breskri, þýskri, franskri og þeirri norsku. Um áramótin verður unnt að velja þar um efni á 12 rásum.

Það er því raunverulega aðeins tímaspursmál hvenær þessi þróun nær hingað til lands og ástæða er til þess að yfirvöld geri ráðstafanir til þess í fyrsta lagi að fylgjast með í þessum efnum og stuðli að því að íslenskir sjónvarpsnotendur eigi þess kost að horfa á slíkt efni sem þeir ekki hafa í dag.

Ástæða er til að nefna síðast en ekki síst hið norræna sjónvarpssamstarf sem átt hefur sér stað nú í allmörg ár og hefur farið fram á vettvangi Norðurlandaráðs og þá fyrst og fremst á vegum menningarnefndar Norðurlandaráðs með þátttöku íslenskra alþm. á liðnum árum. Þar hafa verið uppi miklar bollaleggingar um norrænan sjónvarpshnött, svokallaðan Nordsat. Málið hefur verið mikið skeggrætt en engar ákvarðanir teknar enn. Ef svo færi að ákvarðanir væru teknar á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í febrúar n. k., eftir tæpt ár, um að fara út í þetta fyrirtæki gætu sendingar frá hinum samnorræna sjónvarpshnetti hafist hér 1989–1990. Væri hann þá viðbót við þá möguleika og þær sjónvarpsrásir sem ég hef þegar nefnt. Ástæða er til að gefa því máli mikinn gaum því að segja má að það standi kannske okkur Íslendingum næst að taka hér á landi á móti norrænu efni.

Tillagan gerir ráð fyrir því að ríkisstj. geri sem fyrst ráðstafanir til þess að unnt verði að hefja móttöku sjónvarpsefnis frá fjarskiptahnöttum Evrópuþjóða hér á landi. Hún bindur sig ekki við neitt eitt land, neitt eitt mál, neinar sérstakar rásir heldur er almenns eðlis.

Þetta mál tengist vitanlega hinu nýja útvarpslagafrv. Það er spurningin um heimildir til þess að sjónvarpa eftir kapalkerfi. Framgangur málsins hlýtur nokkuð að ráðast af því hvernig málum verður skipað í hinum nýju útvarpslögum, hvort sem þau verða samþykkt á þessu þingi eða ekki fyrr en á haustþinginu. Rétt er að undirstrika nauðsyn þess að sendingar á sjónvarpsefni verði frjálsar í kapalkerfum til þeirra notenda sem þar vilja eiga hlut að máli, þó svo að hér sé ekki verið að tala um víðari útfærslu þeirrar hugmyndar.

Þetta er í stuttu máli, herra forseti, meginefni þessarar till. um móttöku sjónvarpsefnis frá fjarskiptahnöttum hér á landi sem ég legg að svo búnu til að verði vísað til nefndar.