26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4956 í B-deild Alþingistíðinda. (4354)

290. mál, sjónvarpsefni frá fjarskiptahnöttum

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég sakna þess að hæstv. menntmrh. skuli ekki vera viðstaddur þessa umr. Mér finnst þar nokkuð á skorta því að vissulega hefði verið áhugavert að taka upp umr. með þátttöku hæstv. menntmrh. um þetta efni, enda er það efni virkilega áhugavert sem hér er hreyft og ástæða til þess að ræða.

Fyrir nokkrum vikum þegar hæstv. menntmrh. sat þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi átti hún orðastað við Norðmenn og þar kom í þeirra tali að möguleikar opnuðust til þess að við gætum tekið við tilraunasendingum frá norska sjónvarpinu nú í sumar. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að lýsa eindregnum stuðningi mínum við gerðir hæstv. menntmrh. í þessu máli. Mér þótti hún standa þar vel að.

Hins vegar hófust í kjölfar þessara umr. furðuleg orðaskipti manna hér heima þar sem menn töluðu um að hleypa hinum óttalegu Norðmönnum inn í íslenska menningarhelgi og líktu sjónvarpi þeirra við hermannasjónvarp í Keflavík sem góðu heilli var skrúfað niður í fyrir margtlöngu, líklega 11 árum. Mér fannst þessi umr. þeirra sem gagnrýndu gerðir hæstv. menntmrh. í þessu máli mjög óskynsamleg og ósmekkleg og lýsa nokkurri andúð í garð Norðmanna sem áreiðanlega gekk gott eitt til að taka á máli með þeim hætti sem þeir gerðu, og jafnframt andúð á Norðurlandabúum og norrænu samstarfi. Það held ég að hafi verið á miklum misskilningi byggt.

Við eigum að ástunda sem allra best samstarf við Norðurlandaþjóðirnar. Þær eru, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, skyldastar okkur að tungu og menningu og með þeim eigum við frekast samleið í þessari veröld.

Ég hef alla tíð verið mikill áhugamaður um sameiginlegar norrænar sjónvarpssendingar. Því miður hefur það mál dregist á langinn langt úr hófi fram. Umr. hafa staðið í mörg ár og þó er þröskuldur eftir enn. Ég vona þó að hugmyndin verði enn við lýði og málinu verði hrint í framkvæmd með þeim hætti að okkur Íslendingum megi verða gagn að og vona og treysti að á næsta þingi Norðurlandaráðs verði þetta mál tekið föstum og jákvæðum tökum. Ég held að við eigum alls ekki að gera neina tilraun til þess að einangra okkur frá áhrifum frá sjónvarpsefni Evrópuþjóða en ég held hins vegar að við eigum að leggja höfuðáherslu á að efla hið norræna samstarf í þessu sambandi.