26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4957 í B-deild Alþingistíðinda. (4355)

290. mál, sjónvarpsefni frá fjarskiptahnöttum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hér er að mínu mati hreyft hinu þarfasta máli og máli sem íslensk stjórnvöld hafa verið næsta afskiptalaus um fram til þessa þó að við höfum, eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni, hv. 2. þm. Norðurl. v., tekið fullan þátt í því samstarfi sem er á döfinni með Norðurlandaþjóðum um þessi efni. En mér finnst mjög hafa á það skort að af hálfu stjórnvalda hér hafi verið mótuð stefna í þessum efnum. Þegar ég tala um að móta stefnu þá á ég við að gera sér hugmyndir um það hvernig við viljum að þessi mál þróist hér, enda eru hér engin smámál á ferðinni.

Ég hef velt því fyrir mér meira og minna öðru hvoru í allan vetur að flytja þáltill. í þá veru að skipuð yrði nefnd hér í líkingu við þær, sem starfa í velflestum eða öllum Norðurlöndunum og sjálfsagt í velflestum löndum Vestur-Evrópu og Norðurlandabúar kalla Mediakommission eða eitthvað í þá veru, til þess að vera ríkisstj. til ráðuneytis og leiðbeiningar og til að móta stefnu í þessum málum. En ég verð að viðurkenna að það hefur vafist mjög fyrir mér hvernig slík nefnd ætti að vera skipuð, hversu fjölmenn hún skyldi vera, hverjir ættu að eiga þar sæti o. s. frv. Ég hef ekki enn komist að niðurstöðu í því efni og er þó enn að baksa við að koma þessu heim og saman. Þarna eru margir valkostir og möguleikar en ég held að við verðum að koma á fót slíkri nefnd, hugsanlega nokkuð fjölmennri, til þess að fjalla um hvernig við viljum beita hinni nýju tækni á fjölmiðlasviðinu, hvernig við viljum beisla þá byltingu sem nú er að verða og hvaða framtíðarstefnu við viljum hafa í þessum efnum.

Varðandi þessa till. sem hér liggur fyrir hef ég þá athugasemd eina við hana að gera að mér finnst nokkuð gæta tilhneigingar til að gera flókið mál um of einfalt. Ég held að þetta mál sé ekki svo einfalt að einfaldlega sé hægt að skora á ríkisstj. að gera sem fyrst ráðstafanir til að unnt verði að hefja móttöku sjónvarpsefnis frá fjarskiptahnöttum Evrópuþjóða hér á landi en slíkar sendingar eru þegar hafnar og ná til Íslands. Það er allt saman rétt eins og hér var skilmerkilega og skýrt rakið áðan. En þessi mál eru bara ekki alveg svona einföld.

Í fyrsta lagi koma í sumum tilvikum til greiðslur vegna höfundarréttar, þ. e. um er að ræða efni sem ekki er hægt að taka til sýningar nema með leyfi. Þá vaknar spurningin: Hvernig eiga þær greiðslur að komast til skila? Á að bæta þessu ofan á afnotagjald íslenska sjónvarpsins eða á að senda þetta úf með þeim hætti að það þurfi eins konar lykil í hverju sjónvarpstæki sem tekur á móti því til þess að sjá dagskrána og njóta hennar? Á að senda þetta um kapalkerfi sem hér eru engin alvörukapalkerfi heldur löglaust bráðabirgðahrófatildur sem menn hrófluðu upp í ágóðaskyni hér í Reykjavík, sumir hverjir? Annars staðar úti á landi hafa áhugamenn og samtök áhugamanna staðið að þessu. Allt er þetta af miklum vanefnum gert og ekki til neinnar frambúðar.

Það er fleira í þessu sambandi sem sjálfsagt er að athuga. Þeim möguleikum sem við höfum í þessum efnum fer ört fjölgandi eins og hér hefur verið getið. En einhverja stjórn verður að hafa á þessu meðan ekki er tilkomin sú tækni að menn geti valið þetta sjálfir, haft sín eigin litlu loftnet og horft á hverja þá dagskrá sem boðin er. Það er þá væntanlega fyrst og fremst auglýsingasjónvarp sem útgefendum eða sendendum er akkur í að sem flestir sjái. En nú eru komin á markað — og voru m. a. til sýnis á ráðstefnu sem haldin var um norræn sjónvarpsmál um síðustu mánaðamót í Stokkhólmi — loftnet til móttöku á slíkum sendingum, loftnet sem eru lítið eitt stærri en venjulegur matardiskur og kosta ekki nemar fúlgur fjár.

Þegar menn tala um dreifingu og móttöku á svona efni, þá eru í rauninni aðeins þrír möguleikar fyrir hendi. Það er í fyrsta lagi, og þá tel ég það sem ekki er enn komið til sögunnar en verður væntanlega fljótlega, að hver taki á móti þessu fyrir sig með litlu loftneti á sínu húsi. Í öðru lagi er sá möguleiki sem nú er nærtækastur, að notuð sé jarðstöðin Skyggnir til að taka á móti þessu og notað sé dreifikerfi íslenska sjónvarpsins þann tíma sem það er ekki með dagskrá. Þetta liggur auðvitað beint við og er hægt að gera án nokkurs teljandi kostnaðar. Ef ætti að taka á móti þessu og senda hins vegar — það er þriðji kosturinn — á þeim tíma sem íslenska sjónvarpið sýnir sína dagskrá, þá þyrfti tvöföldun á dreifikerfi sjónvarpsins og það er hlutur sem er gersamlega óraunhæft að tala um kostnaðar vegna. Hitt sem hlýtur að koma fyrr eða síðar er að slíku efni verði dreift um kapalkerfi, um boðveitu. Um það hvernig slíkur rekstur yrði er nánast ekkert farið að tala hér. Ég hef alveg ákveðnar skoðanir á því. Svona kerfi eiga að vera í eigu opinberra aðila alveg eins og aðrar kerfislagnir. Og þá er ég ekki endilega að tala um Póst og síma eða ríkið. Ég held að eðlilegast væri að þessi kerfi yrðu í eigu sveitarfélagsins hvert á sínum stað en síðan hefði sveitarfélagið hins vegar ekki nema að mjög takmörkuðu leyti með það að gera hvernig þetta kerfi væri notað. En kerfið sjálft og rekstur þess, hinn tæknilegi rekstur, ætti að vera í höndum sveitarfélags, ekki einkaaðila.

Nú eru um þetta miklar umræður á Norðurlöndunum. Danir tala t. d. um að leggja kapalkerfi inn á öll heimili í Danmörku. Þá er talað um glertrefjakapal sem valdið hefur byltingu í fjarskiptum. Talið er að slík kapalvæðing eða boðveitubygging í Danmörku muni kosta a. m. k. 40 milljarða danskra kr., þ. e. í kringum 120 milljarða ísl. kr. Þetta er verk sem þarf að vinna auðvitað á nokkuð löngum tíma. Danir eiga hins vegar mikilla iðnaðarhagsmuna að gæta í þessu efni vegna þess að þeir eiga gróinn kapaliðnað, sem Íslendingar hafa mjög skipt við, Nordisk kabel- og trädfabrik heitir það ef ég man rétt, og þetta fyrirtæki hefur náð verulegri leikni í því að framleiða þessa glertrefjaþræði.

Til marks um það hverjar framfarir hafa orðið og hve miklu þessir þræðir afkasta má geta þess að Bellrannsóknarstofurnar í Bandaríkjunum sendu nýlega eftir svona þræði einn milljarð upplýsingaeininga, eða „Bits of data“ eins og hér stendur, jafngildi 100 skáldsagna, 100 km leið án þess að til nokkurrar mögnunar þyrfti að koma. Mönnum hefur tekist að framleiða svo tært gler til þessara nota að glerrúða, sem væri 1600 metra þykk, væri fullkomlega glær. Þessir glertrefjaþræðir munu líka spara miklar auðlindir vegna þess að úr einni matskeið hráefnis er hægt að búa til mílulangan þráð. Þessi tækni er ásamt öðru að valda byltingu í öllum fjarskiptum af þessu tagi. Þráður eða kapall af þessu tagi, sem lagður hefur verið milli New York og Washington og er u. þ. b þumlungur að þvermáli, getur flutt 33 þús. símtöl samtímis. En því segi ég þetta að við þurfum að gera okkur grein fyrir því að fyrr eða síðar munum við koma hér upp slíku kerfi til tvístefnuboðskipta milli heimila og upplýsingamiðstöðva margs konar og til þess að flytja sjónvarpsefni til heimila, til þess að flytja boð frá heimilum. Þess vegna skiptir svo miklu máli að þegar farið verður að tala um þessa hluti að það sé vandað í upphafi og hugsað til framtíðar að svo miklu leyti sem slíkt er hægt í þessum efnum.

En svo að ég víki aftur að hinni beinu móttöku sjónvarpsefnis, þá er alveg ljóst — og það mun gerast hér — að samtök einstaklinga, einstök bæjarfélög munu hafa frumkvæði í þessum efnum og setja upp svona loftnet og hefja móttöku slíks efnis. Ég held að það sé miður heppilegt. Það er enginn að tala um að takmarka þetta en þetta verður að gerast með sæmilega skynsamlegum hætti þannig að ekki sé sóað fé og að framkvæmdir verði sem hagkvæmastar öllum. Þess vegna er brýnt að að þessu verði hugað.

Vikið hefur verið að því sem fram kom í tengslum við þing Norðurlandaráðs í vetur þegar hæstv. menntmrh., sem ég harma mjög að skuli ekki vera viðstaddur þessar umr., átti viðræður við menntmrh. Noregs um möguleika á því að við gætum séð sendingar norska sjónvarpsins. Um þetta er allt gott að segja. Ég held að flestir fagni fleiri valkostum í þessu efni. En hins vegar er það kannske nokkurt álitamál hvort þetta mál hefur borið rétt að, hvort ekki væri eðlilegt að um þetta væri með nokkrum hætti fjallað á Alþingi vegna þess að hér er um stefnumarkandi ákvörðun í mjög veigamiklu máli að ræða.

Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að ég er ekki viss um að sjónvarpssendingar af þessu tagi geti hafist strax næsta sumar vegna þess að þarna eru ýmis nokkuð flókin og torleyst vandamál sem eftir á að kljást við eins og t. d. greiðslur fyrir höfundarrétt og greiðslur fyrir hið norska sjónvarpsefni í heild. Gjarnan vildi ég geta séð þetta næsta sumar en mér býður í grun að það muni taka nokkuð lengri tíma að leysa öll þau flóknu mál. Sum þeirra skapa nefnilega fordæmi fyrir fyrirhugað sjónvarpssamstarf Norðurlanda og skiptir því miklu hvernig til tekst. Ég vil bara benda á að ekki er víst að þetta gerist allt í einni hendingu.

Svo er líka annað sem er umhugsunarefni í þessu sambandi. Ef þessar sendingar norska sjónvarpsins yrðu hér til ráðstöfunar á þeim tíma sem íslenska sjónvarpið sendir ekki út yrði væntanlega í töluvert ríkum mæli um að ræða barnaefni sem vissulega er ekki of mikið af í íslenska sjónvarpinu. En þá vaknar sú spurning hvort sýna eigi slíkt efni án íslensks texta. Íslenska sjónvarpið hefur fylgt þeirri stefnu að sýna ekkert efni öðruvísi en með íslensku tali eða íslenskum neðanmálstexta. Þetta hefur ekkert verið rætt. Tæknilega held ég að fullkomlega mögulegt sé að setja íslenskan neðanmálstexta á þessar sendingar ef til kemur og ég held að það væri mjög til athugunar.

Hér hefur verið vikið að hinu fyrirhugaða norræna sjónvarpssamstarfi þar sem hlutirnir hafa gengið töluvert miklu hægar og öðruvísi fyrir sig en menn áttu von á. Þetta hefur þróast þann veg að í stað þess að Norðurlöndin fimm stæðu saman að því að setja upp a. m. k. tvo sjónvarpshnetti sem spönnuðu löndin öll þannig að þegar fram liðu stundir gætu allir séð sjónvarpsdagskrá allra landanna, hafa Danir dregið sig út úr þessu samstarfi og eiga einungis áheyrnarfulltrúa í þeim viðræðum sem eiga sér stað. Svíar, sem eiga verulegra iðnaðarhagsmuna að gæta á þessu sviði, hafa verið með í undirbúningi fjarskiptahnött, Telex, sem væntanlega verður sendur upp seint á næsta ári, 1985. Norðmenn og Finnar eiga einnig lítillega aðild að þessum hnetti og þeir eru þar sömuleiðis að vernda sína iðnaðarhagsmuni. Það eru dótturfyrirtæki Saab-bílaverksmiðjanna, Nocia í Finnlandi og fleiri fyrirtæki sem eru þarna aðalþátttakendur.

Um þennan hnött á m. a. að gera tilraun með beint sjónvarp til notenda. En hann gefur aðeins möguleika á þremur sjónvarpsrásum og engin þeirra nær hingað þannig að það mál snertir okkur í rauninni ekki. Áætlaður endingartími þessa hnattar mun vera 7 ár. Hann er hugsaður sem fyrsta skref í þessu norræna kerfi sem vonandi verður að veruleika. Ég held að það skipti ákaflega miklu máli fyrir Norðurlöndin að starfa á þessu sviði, koma á öflugu sjónvarpssamstarfi þar sem þau sameina það besta úr sinni menningu og frambærilegasta á listasviði til þess að vera eins konar menningarlegt mótvægi gegn því efnisflóði sem yfir okkur hellist á næstu árum.

Því er haldið fram að í Evrópu sé skammt í það að framboð sjónvarpsklukkustunda verði 500 þús. klst. á ári þegar allt er reiknað. Samtímis þessu er kvikmyndaframleiðsla í Evrópu — og þá er ég að tala um kvikmyndir í eiginlegum skilningi, ekki sjónvarpsþætti —í kringum 1000 klst. á ári. Þannig erum við búnir að fá þessar feiknalegu umbúðir en minna fer aftur fyrir innihaldinu. Eins og bandarískir vísindamenn sögðu stundum fyrir fáeinum árum og segja kannske enn: Nú höfum við svarið, en um hvað var eiginlega verið að spyrja? — Hið efnislega, súbjektífa mat á því hvað er gott og hvað er slæmt sjónvarpsefni er vandamál sem ég ætla ekki að fara að ræða hér. Ég hætti mér ekki út á þann hála ís í þessum umr.

Staðreyndin verður sú að framboð mun verða næsta lítt takmarkað á sjónvarpsefni og fólk mun geta valið þar að vild eins og auðvitað er eðlilegt. Ýmsir hafa látið í ljósi ótta um það að menn muni fara einhvers konar stórsvig milli skemmtiprógramma af léttasta tagi. Nú skyldu menn alls ekkert vanmeta skemmtiefni í sjónvarpi, það á fyllilega rétt á sér sem afþreying. Hvers vegna í ósköpunum skyldi fólk, þegar það kemur heim til sín á kvöldin eftir erfiðan dag í vinnunni, endilega þurfa að setjast fyrir framan sjónvarpstækið og fá þar öll heimsins vandamál í hausinn?

Menn skyldu hreint ekki vanmeta það afþreyingarhlutverk sem þessi fjölmiðill hefur og það gildi sem hann hefur sem slíkur. Menn hafa hér á móti einstökum þáttum og hafa þá gjarnan sem dæmi hið ómerkilegasta efni, en oft þó það efni sem mest er á horft skv. skoðanakönnunum. Af hverju er það endilega ómerkilegt sem flestir vilja horfa á? Ég er ekki tilbúinn að taka undir það. Áður fyrr fluttu dagblöðin framhaldssögur sem á sínum tíma voru vinsælar en eru það ekki lengur. Þessir þætti eru bara nútíma framhaldssögur eins og var í blöðunum í gamla daga og gegna alveg sínu hlutverki.

Ég óttast það kannske helst, herra forseti, að hér sé horft á flókið mál með fulleinföldum hætti. En ég legg áherslu á það að við verðum að hefja undirbúning og gera okkur grein fyrir því hvernig við ætlum að bregðast við og gera það með skipulegum hætti. Það er enginn að tala um neins konar einangrun hér eða að koma eigi í veg fyrir að menn geti horft á það efni sem öllum stendur til boða. Ég held í rauninni að slíkt sé ekki framkvæmanlegt og ekki hægt og ætti heldur alls ekki að gera. En við verðum að hafa hönd í bagga með þessari þróun til þess að þetta gerist sæmilega skipulega og að við nýtum þetta okkur til góðs.

Í framhaldi af því sem ég sagði áðan vil ég benda á að þegar þetta framboð eykst jafnmikið og raunin verður getum við litið til þess sem gerst hefur t. d. hjá Dönum og öðrum sem eiga kost á því að horfa á dagskrár annarra landa. Reyndin og niðurstaðan verður sú að allajafna og langmest horfa menn á dagskrár síns eigin lands á sínu eigin máli, það gera langflestir. En það er hiklaust af hinu góða, og á það legg ég ríka áherslu, að valkostir séu rúmir í þessum efnum.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.