30.04.1984
Efri deild: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4971 í B-deild Alþingistíðinda. (4372)

329. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég tel það af og frá að hér sé um endanlega lausn á vandamálum sjávarútvegsins að ræða. (Gripið fram í.) Jæja, en við erum sjálfsagt sammála um það að þau vandamál verða áreiðanlega til meðferðar á hverju einasta ári. Það hefur verið svo á undangengnum árum.

Að vísu hafa komið ár þar sem ekki hafa verið erfiðleikar í sjávarútvegi en flest árin hefur verið við veruleg vandamál að etja og e. t. v. ekkert óeðlilegt svo mikilvæg sem þessi atvinnugrein er í þjóðfélaginu.

Ég vil taka það fram að hér er um almennar reglur að ræða, sem þýðir að aðilar eru jafnir gagnvart þeim reglum sem settar hafa verið. Hins vegar má segja að ekki liggi enn nægilega skýrt fyrir hvað verði um aðila sem skulda mun meira en 90% reglan gerir ráð fyrir. En því miður skulda allnokkur skip töluvert yfir 100% af húftryggingarverðmæti. Þar verða að fara fram samningar og viðkomandi aðilar að setja aðrar tryggingar sem sjóðurinn tekur gildar. Ekki er frágengið hvaða tryggingar verða teknar gildar í því sambandi enda hlýtur að þurfa að meta nokkuð hvert einstakt tilvik þegar svo stendur á. Hins vegar er mikilvægt, og ég legg á það áherslu, að í öllum aðalatriðum gildi þar almennar reglur þannig að ekki sé um mismunun að ræða. Segja má að menn hafi gengið eins langt í þessu og talinn hefur verið kostur. Ekki er talið eðlilegt að lánstími sé lengri í nokkru tilviki en 25 ár. Segja má að það sé sá hámarksendingartími skipa sem hægt er að vonast eftir, sérstaklega að því er varðar skip sem mikið eru notuð. Einnig hefur verið ákveðið að veita vaxtaafslátt á þessu ári, 60%, þ. e. það verða 10% vextir til Fiskveiðasjóðs en síðan verður veittur sérstakur vaxtaafsláttur á árinu 1984 þannig að vextir verða 4% af svokölluðum SDR-lánum. Það má því segja að hér sé gengið eins langt og talið hefur verið fært. En ég vil taka undir það að þar með er ekki nein trygging fyrir því að það leysi öll þau vandamál sem menn eiga við að etja, enda vart hægt að gera ráð fyrir því í okkar þjóðfélagi að hægt sé að leysa öll slík vandamál. Því hlýtur alltaf að verða nokkuð um það að eigendaskipti verði á skipum og nýir aðilar taki við í þeim tilfellum sem fyrri eigendur treysta sér ekki til áframhaldandi reksturs.