30.04.1984
Efri deild: 86. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4976 í B-deild Alþingistíðinda. (4387)

332. mál, Búnaðarbanki Íslands

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst leggja á það áherslu að þetta frv. er ekki flutt vegna þess að annar hæstv. ráðh. sé traustari en hinn. Frv. er flutt til þess að framkvæma það sem kemur skýrt fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. Það er flutt nú til þess að sú vinna sem er í gangi og verður í sumar til undirbúnings á flutningi á frumvörpum hér á hinu háa Alþingi verði á einni hendi. Það er fullt samkomulag um það í ríkisstj. að þau vinnubrögð séu skynsamlegri. Ákveðið er að þetta verði gert og því raunar ekki eftir neinu að bíða með breytingu á yfirstjórn bankanna.

Ég tek undir það með hv. þm. að endurskoða þarfskipan stjórnar Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Ég vek athygli á því að stjórnir annarra atvinnuvegasjóða eru skipaðar með öðrum hætti, eins og t. d. Fiskveiðasjóðs þar sem ekki situr bankaráð neins banka. Í stofnlánadeild er það hins vegar svo. Eðlilegt er að þessu verði breytt.

Ég tel mikilvægt að fleiri bankar en Búnaðarbankinn veiti aðstoð þegar stofnlánadeild þarf á henni að halda. Ég vek athygli á að Landsbankinn lánar mjög svipað til landbúnaðarins og Búnaðarbankinn, kannske örlítið minna þó, og því er ekkert óeðlilegt að sá banki veiti einnig aðstoð þegar slíkt er nauðsynlegt. Ég get því fullvissað hv. þm. um að þetta verður jafnframt til athugunar við þá endurskoðun sem nú er á döfinni.

Hv. þm. spurði um áætlanir um sameiningu bankanna. Athugun er ekki lokið. Ég er hins vegar sannfærður um að það verður eitt af miklum afrekum þessarar ríkisstj., en hvernig það verður gert skal ég ekki fullyrða á þessari stundu því að vanda skal það sem lengi á að standa.

Það þarf meira að gera en sameina bankana. Einnig er nauðsynleg tilfærsla á verkefnum á milli bankanna. Ég vek athygli á að fyrri hugmyndir um sameiningu Útvegsbanka og Búnaðarbanka eru alls ekki í dag studdar sömu rökum og þegar þetta var á dagskrá fyrir nokkrum árum. Í framhaldi af því var töluvert af verkefnum flutt frá Útvegsbanka til Landsbanka og þungi sjávarútvegsins á Útvegsbankanum nokkuð minnkaður þó að ekki væri það mikið. Þetta þarf því að skoðast mjög vandlega. Ég hygg að vart verði hægt að tala um sameiningu ákveðinna tveggja banka heldur tilfærslu verkefna á milli banka. Þetta er nú, eins og hefur komið fram og kom fram í því sem ég sagði áðan, í undirbúningi.