07.11.1983
Efri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ekki er vafi á því að þörf er á að breyta skipulagi verkalýðssamtakanna og það er reyndar unnið að því. Einmitt í dag stendur yfir sérstök ráðstefna hjá ASÍ um skipulagsmál, ráðstefna sem byggð er á vinnu nefndar sem mjög hefur farið ofan í skipulagsmál sambandsins. Á þessari ráðstefnu verður væntanlega mótuð sú stefna sem verkalýðssamtökin sjálf vilja taka upp varðandi skipulag sitt.

Ég tel að þetta frv., sem Vilmundur heitinn Gylfason flutti fyrst inn í þingið, hafi orðið til þess að skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar komu á ný til umr., og menn vöknuðu til vitundar um það að ekki var hægt að bíða lengur með að breyta því sem aflaga hefur farið. Verkalýðssamtök eins og önnur samtök hafa staðnað, þau þurfa að laga sig að breyttum tímum, breyttu þjóðfélagi. Það er skoðun mín og það er skoðun, tel ég, flestra sem í verkalýðshreyfingunni eru að þær breytingar eigi að ske innan frá, ekki með lagaboði. Það verður að freista þess að félagafrelsið sé svo víðtækt að menn geti mótað sitt skipulag sjálfir.

Það er í tísku nú að gagnrýna verkalýðssamtökin og skipulag þeirra og yfirleitt allt sem að verkalýðshreyfingunni lýtur. Mönnum verður tíðrætt um að svokallað lýðræði sé ekki eins virkt og það þyrfti að vera. Menn gleyma því gjarnan að það kerfi sem notast er við, hið svokallaða fulltrúalýðræði, verkar afskaplega illa alls staðar, í öllum félögum. Það er ekki bara í verkalýðshreyfingunni, það er líka í kaupfélögum, í öllum hugsanlegum félögum í landinu að fundasókn er með alminnsta móti. Menn sækja ekki þann rétt sem þeir eiga með því að mæta á fundum og hafa áhrif á gerðir þeirra sem til forustu hafa verið valdir. Það er eins og menn sækist ekki eftir því um þessar mundir að sækja sinn rétt eftir þeim leiðum. Mér virðist sem það félagslíf sem helst blómgast í landinu séu matarklúbbar, fínir matarklúbbar. Þá sækja menn, en almenna félagsfundi í hvers konar samtökum sækja menn ekki sem skyldi. Þó sýnir það sig að þegar verkalýðssamtökin eiga í sérstökum átökum eða erfiðleikum þekkir fólk sinn vitjunartíma og fjölmennir til funda. En því miður er það ekki yfirleitt.

Ég ætla nú ekki að ræða þetta frv. mikið efnislega.

En mér sýnist það ekki til þess fallið að sameina eitt eða neitt heldur miklu frekar til þess að sundra og skera þau félög sem fyrir eru niður við trog. Þegar menn gera skipulagsbreytingar verða menn vissulega að þola ýmsan sársauka, það er augljóst. En ég tel rétt að félagsmennirnir sjálfir, fólkið sjálft, sem í þessum félögum er, fái að ráða því hvernig skipulagi þeirra samtaka er háttað.

Ég minni á að enda þótt formlegar skipulagsbreytingar hafi ekki orðið miklar í verkalýðsfélögunum þá hefur átt sér stað þróun, sem er mjög í þá átt sem talað er um hér í frv., þróun sem hefur átt sér stað í mínu félagi, þar sem það tíðkast innan félagsins að gerðir eru starfsgreinasamningar. Hefur það gefist vel innan þessa ramma og ég hygg að þeir vinnustaðir sem þannig er farið með vildu ógjarnan að löggjafinn kæmi nú og fyrirskipaði að þessir vinnustaðir yrðu sérstök félög. Ég held að sú þróun sem átti sér stað með því að gera svona vinnustaðasamninga og hafa vinnustaðafundi hafi orðið til þess að félögin ná miklu betur til fólksins og starfið verður virkara. En að gera þetta að allsherjarlausn — ég er ekki kominn til með að sjá hvernig það gefst. Ég neita að trúa því að það sé til bóta að löggjafinn fari ofan í það. En ég treysti því að samtökin sjálf geti ráðið fram úr þessum málum og þau muni gera það.

Hv. síðasti ræðumaður var að velta því fyrir sér hvort ég teldi verkföll af hinu illa. Ég vil segja það hiklaust að verkafólk í landinu telur verkföll neyðarúrræði. Og verkalýðshreyfingin leggur ekki út í verkföll nema sem neyðarúrræði. Það er ekkert gamanspil að vera í verkföllum. Það er ekkert gamanspil að sitja heima peningalaus og allslaus. En það var það sem skeði hér áður fyrr þegar menn voru að semja um fiskverð, ekki vikum saman heldur jafnvel mánuðum. Og menn sömdu um verðlagsráð til þess að forðast slíkt. Eitt er víst: Þó það kerfi sem nú er notað kunni að vera gallað þá hefur það leyst menn frá þeirri kvöð að standa í erfiðum vinnudeilum. Og það kunna sjómenn að meta og sjómannafjölskyldurnar þó einhverjir aðrir kunni það ekki. Og ég vil benda á það að ef oddamaður er tekinn út úr verðlagsráði þá þýðir það bara að lögmál frumskógarins tekur gildi á ný með tilheyrandi erfiðleikum fyrir sjómenn. Kannske er það það sem menn vilja.