07.11.1983
Efri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Helgi Setjan:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Hér er talað um að rýmka eigi rétt manna til að semja um launakjör sín. Ég efast ekki um að það sé tilgangurinn með þessu frv., það sé það sem menn ætlast fyrir með því. Ég legg hins vegar áherslu á það, að þegar á hefur reynt í átökum launafólks og atvinnurekenda hefur það fyrst og síðast verið samtakamátturinn, samtakamáttur hins breiða fjölda, sem hefur ráðið úrslitum. Og ég óttast það að ef þetta fyrirkomulag yrði allsráðandi, vegna þess að menn sæju einhvern stundargróða í því að stofna slík vinnustaðafélög, þá yrði það ekki lengi til góða fyrir þá sem þar ættu hlut að máli. Ég held nefnilega að fyrirtækin sem í hlut ættu, mundu mörg hver og þeirra forstjórar nýta sér þá veikleika, þær sprungur sem þarna mundu myndast, og treysta á það að samtakamátturinn væri ekki sá sami og hann var áður. Þetta er ótti minn aðeins. Hitt kann þó vel að vera að menn geti í gegnum harða baráttu félaga, sem eru þar virkir, náð vissum árangri. Ég efast ekki um að menn geti það. Ég man m.a.s. þá tíð, þegar ég var í forsvari fyrir verkalýðsfélagi, að þá var í raun og veru ekki nema eitt fyrirtæki á staðnum og það réð í raun öllu um atvinnulífið þar. Ef samtakamátturinn hefði þar ekki verið hjá félagi, sem var aðili að ASÍ og Afþýðusambandi Austurlands reyndar líka, þá hygg ég nú að það gamla lögmál hefði ráðið, sem þar réð eitt sinn, að fyrirtækið skammtaði sínum starfsmönnum ansi smátt, svo ekki sé meira sagt. Þó sjálfsagt sé að skoða allar leiðir til að reyna að jafna frekar lífskjör manna í þjóðfélaginu, m.a. í gegnum samninga, þá óttast ég að einmitt með þessu frv., sem stefnir að vísu í þveröfuga átt, sé fjármagninu í þjóðfélaginu innan einstakra fyrirtækja auðvelduð leið til þess að deila og drottna. Við það er minn ótti bundinn.