30.04.1984
Neðri deild: 77. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5001 í B-deild Alþingistíðinda. (4421)

243. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður talaði hér í a. m. k. 45 mínútur um þetta mál sem ekki er að furða vegna þess að í raun var hann að flytja framsöguræðu fyrir annað mál sem liggur fyrir hv. deild og mér hefur skilist á hæstv. forseta að þessi mál séu þar með bæði til umr. En ég hafði hugsað mér að tala fyrst og fremst um frv. hv. þm. en ekki stjfrv. sem ég styð.

Það kemur ekki á óvart að hv. 3. þm. Reykv. skuli fara víða og hafa stór orð uppi um jafnréttismál þegar þess er gætt að hann er einn af örfáum embættismönnum hér á landi sem hefur hlotið sérstakar ávítur Jafnréttisráðs fyrir embættisfærslu sína. Þetta rifja ég upp vegna þess að það kann að skýra það hve mikinn áhuga hv. 3. þm. Reykv. sýnist vilja hafa á þessu máli nú og hve mikinn tíma hann tekur til þess að ræða málið.

Það eru nokkur atriði, herra forseti, sem mig langar til þess að ræða varðandi það mál sem hér er til umr. en fram hefur komið í mínu máli fyrr að ég styð stjfrv. Það er rétt sem fram hefur komið í þessum umr.stjfrv. er ekki eins og það nál. sem skilað var af nefnd undir forustu Vilborgar Harðardóttur. Það hefur tekið breytingum. Þær breytingar voru gerðar í félmrn. annars vegar og hins vegar af þingflokkum Sjálfstfl. og Framsfl. Alger samstaða var um að leggja frv. fram með þeim breytingum sem gerðar voru á nál. sem fyrir lá og tel ég að með því hafi verið sniðnir mestu agnúar af því áliti sem nefnd skilaði til fyrrv. hæstv. ráðh.

Síðasti hv. ræðumaður vék m. a. að sönnunarbyrðinni sem var í frv. og er nú í þmfrv. Ég tel það mjög vafasamt og varasamt að hægt sé að setja slíkar refsiábyrgðarreglur í frv. á borð við þetta. Þetta er undantekning frá meginreglu íslensks réttar og til hennar er einungis gripið þegar upplýsa þarf stærstu glæpamál þjóðarinnar. Á það legg ég áherslu og tel mjög varasamt að slíkar reglur um öfuga sönnunarbyrði verði víða í íslenskum lögum.

Ég vil jafnframt geta þess að mér finnst koma til greina að hv. þingnefnd skoði það rækilega hvort ástæða sé til að hv. Alþingi kjósi Jafnréttisráð en það verði ekki skipað eins og gert er ráð fyrir í þeim frumvörpum sem hér liggja fyrir. Ég tel fulla ástæðu til þess að hv. nefnd sem fær málið til meðferðar kanni þetta atriði sérstaklega.

Í þessum umr. hefur nokkuð verið rætt um það sem stundum er kallað tímabundin forréttindi eða mismunun og hefur verið vitnað annars vegar til norskra laga og hins vegar til brtt. sem hv. 2. landsk. þm. flutti á 103. löggjafarþinginu og gerði að umtalsefni fyrr á þessum fundi. Varðandi það atriði er rétt að það komi skýrt fram að það frv. ásamt brtt. frá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur var á sínum tíma sent til umsagnar. Í umsögnum Sambands ísl. sveitarfélaga, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Alþýðusambands Íslands og Kvenfélagasambands Íslands komu fram neikvæð viðhorf í garð þeirrar greinar í frv. hv. þm. sem horfðu til tímabundinna forréttinda. Þessar umsagnir hef ég hér undir höndum og get lesið en vegna þess að tíminn sem ætlaður er fyrir þennan fund er liðinn tel ég ekki ástæðu til þess að gera það við svo búið.

Ég tel, herra forseti, að launakannanir á borð við þá sem fyrrv. félmrh. lagði til að færi fram og hefur í raun farið fram hafi sérstakt gildi fyrir jafnréttisbaráttuna. Það hefur áróðursgildi og ég vil undirstrika það að ég er hlynntur því að slíkar kannanir séu gerðar og kannanir á fleiri sviðum því að niðurstöður slíkra kannana hljóta að hafa áróðursgildi og geta fært okkur áleiðis í jafnréttisbaráttunni. Ég vil hins vegar leggja áherslu á það sjónarmið að það er ekki víst nema síður sé að lögbinding á sviði eins og þessu hafi verulega þýðingu fyrir sjálfa jafnréttisbaráttuna. Hér er um að ræða siðferðisafstöðu manna og frjálsa samninga þeirra á milli á mörgum sviðum og vafasamt er að það hafi gildi að setja lög sem eru til þess gerð að þvinga menn til þess að breyta siðferðilegri afstöðu sinni. Þetta segi ég ekki vegna þess að ég sé gegn jafnrétti, síður en svo. Þetta segi ég vegna þess að það kann að vera að lög, sem eru þannig gerð úr garði, verði til þess að skemma fyrir jafnréttisbaráttunni.

Komið hefur fram sú afstaða og það frá ýmsum konum sem hafa barist í jafnréttisbaráttunni að það geti verið niðurlægjandi að taka við stöðu eða fá starf einungis vegna kynferðis. En fram hjá því verður ekki horft að orðalag það sem kemur fram í þmfrv. gefur það sterklega til kynna að slíkt megi gerast í vissum tilvikum. Í umsögn frá Kvenfélagasambandi Íslands um tillögu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur á sínum tíma er þessu viðhorfi mjög gjörla lýst, en þá með þeim hætti að benda á hjúkrunarstéttina þar sem konur eru í miklum meiri hluta.

Það er jafnframt áhorfsmál hvort hægt sé að setja í lög, eins og gert er ráð fyrir í báðum þessum frumvörpum, að tilgangur laganna sé að koma á jafnrétti „á öllum sviðum.“ Ég tek þetta fram vegna þess að í 2. gr. norsku jafnréttislaganna frá 1978 er það sérstaklega tekið fram og rækilega undirstrikað að lögin nái ekki til einkalífs — til heimilisins. Það er varhugavert að mínu mati sem löggjafaratriði að setja lög sem má túlka þannig að löggjafinn geti haft afskipti af því hvernig menn skipta með sér verkum á heimilum sínum.

Ég ítreka enn og aftur að með þessu er ég ekki að segja það að ég hafi á móti því að sú starfsskipting, sem á sér stað á heimilum og hefur átt sér stað þar um aldaraðir, eigi ekki að breytast. Ég er þvert á móti að vara við því að löggjafinn eigi með valdi að hafa áhrif á slíka samninga sem þar eiga að eiga sér stað á milli frjálsra manna. Það leiðir hugann að því að það er einmitt einstaklingsfrelsið, bæði kvenna og karla, sem ber að virða og slíkt verður aldrei í lög leitt að það eigi að knýja það fram hvernig frjálsir samningar eru gerðir.

Hér er um að tefla siðferðisafstöðu og við breytum henni fyrst og fremst með áróðri og umr. Það kann að vera að það sé miklu meira hægt að gera á þeim sviðum í stað þess að grípa sífellt til þess vopns sem eru lög til að þvinga menn til ákveðinna aðgerða. Á þetta vildi ég leggja áherslu, herra forseti.

Ég tel hins vegar að full ástæða sé til að gleðjast yfir nýmælum í þessu frv. hæstv. ríkisstj. og sem reyndar eru jafnframt í þmfrv. Það er atriði sem kemur fram í 15. gr. frv., 2. tölul. þar sem gert er ráð fyrir því að Jafnréttisráð verði ráðgefandi gagnvart stjórnvöldum, stofnunum og félögum í málefnum er varða jafna stöðu, jafnrétti með konum og körlum. Þarna er beinlínis mælt fyrir með það að það eigi að ríkja á hverjum tíma ákveðin stefna í þessum málum sem vonandi knýr menn til umr. um þetta mjög svo mikilvæga mál.

Hv. síðasti ræðumaður kom að því í sinni ræðu að hann skildi ekki hvers vegna 15. gr. hefði verið breytt, en í henni stóð að það bæri að áætla nægjanlegt fé á fjárlögum til þess að standa undir kostnaði við Jafnréttisráð. Með því að breyta þessu ákvæði felst engin afstaða til þess hvort menn ætla að rýra möguleika Jafnréttisráðs til þess að sinna sínum skyldum og að draga úr fjárstreymi til ráðsins. Hér er einungis verið að koma í veg fyrir það að í lög séu sett orð sem ekki neina þýðingu hafa. Ég minni á það að hv. 3. þm. Reykv., fyrrv. félmrh., stóð margsinnis að því að setja lánsfjárlög þar sem skerðingarákvæði voru um það að þrátt fyrir gildandi lög ætti minna fjármagn að fara til ákveðinna verkefna en stóð í viðkomandi lögum. Og ég vek athygli á því að þrátt fyrir ákvæði frv. sem kemur frá þm. hefur Alþingi ávallt frjálsar hendur til þess að skerða fjárstreymið til þessarar stofnunar eins og allra annarra. Það var af þessum ástæðum sem ekki var talið að þetta þyrfti að standa. Ég minni enn á það að þrátt fyrir samþykkt Alþingis um það að launakönnunin ætti að fara fram á sínum tíma í rökstuddu dagskránni sem samþykkt var á Alþingi 1981 veit ég ekki betur en að þáv. hæstv. félmrh. hafi beinlínis fellt till. þess efnis frá hv. 2. landsk. þm. eins og fram hefur komið í máli hv. 2. landsk. þm. (Gripið fram í.) Hann var ekki einn, hann hlaut þar hjálp frá ýmsum samstarfsmönnum sínum en þetta minni ég á til þess að sýna fram á þann tvískinnung sem kemur fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns.

Herra forseti. Mér er það ljóst að tíminn er löngu liðinn. Ég hefði kosið að taka til máls um þetta mál og gera því ítarlegri skil því að hér er um merkilegt mál að ræða. Því miður get ég ekki verið hér í upphafi fundar kl. 6 og þess vegna vil ég þakka fyrir það að fá að koma fram þessum örfáu athugasemdum nú fyrir þingflokksfundartímann.