30.04.1984
Neðri deild: 77. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5004 í B-deild Alþingistíðinda. (4426)

240. mál, ábyrgð á láni fyrir Arnarflug

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér þetta mál sérstaklega og ég leyfi mér að halda því fram að þannig sé ástatt um fleiri hv. alþm. þar sem þetta hefur verið til meðferðar í Ed. og ósköp fáir hlusta. Þarna er um allmikla peninga að tefla og dálítið einkennilegt erindi og ég undrast það þess vegna að hæstv. fjmrh. skuli segja það hér úr stólnum að hann hafi ekki hugsað sér að endurtaka sína framsöguræðu sem var flutt á allt öðrum stað og tíma. Ég vil leyfa mér að spyrja, hæstv. forseti, hvort það sé ekki heldur óviðeigandi að hæstv. fjmrh. skuli ekki veita okkur sömu upplýsingar hér í þessari hv. deild og veittar voru í Ed. Þó að þetta sé trúlega merkari deild sé ég ekki hvernig hæstv. ráðh. getur leyft sér að flytja slíka ræðu með frv. eins og þessu þar sem bókstaflega ekkert er gert í því af hálfu hæstv. fjmrh. að útskýra í hverju þetta mál er fólgið. Ég vil leyfa mér að óska eftir því að hæstv. fjmrh. spari sér ekki svo tímann að hann gefi ekki hv. dm. upplýsingar um málið.

Það sem þarna er um að ræða er hvort veita eigi ákveðnu fyrirtæki hér í bænum ríkisábyrgð vegna láns væri ekki úr vegi a. m. k. að gera hv. þingheimi grein fyrir því hvort viðkomandi fyrirtæki eigi nægilegar eignir til þess að nægileg veð séu á móti. Um þetta gilda ákveðnar reglur að mér skilst, að ekki megi veita ábyrgð fyrir meiru en sem svarar 70% af matsverði eigna. Eignir þess félags sem hér um ræðir eru fólgnar í fasteignum, aðallega fasteign í Lágmúla 7 og hins vegar í flugvélum félagsins.

Nú vita menn að þegar flugvélar eru metnar til fjár er ekkert annað sem hægt er að miða við en raunverulegt söluverð eða markaðsverð, en ekki endilega eitthvert bókfært verð hjá viðkomandi félagi. Spurningin er þessi: Hvers virði er hver flugvél fyrir sig, hvers virði er fasteign félagsins, hversu mikið hefur verið veðsett og hvað skuldar fyrirtækið? Ég er ansi hræddur um það, hæstv. forseti, að þegar menn eru að ábyrgjast mikla fjármuni verði þeir að fá það nokkurn vegin ljóst hvort fyrirtækið er borgunarmaður fyrir því láni. Ég óska einnig eftir upplýsingum um það.

Ég hef hér undir höndum minnisblað frá embættismönnum til tveggja hæstv. ráðh., ekki um ríkisábyrgð til Arnarflugs heldur um hugsanlega ríkisábyrgð til Arnarflugs. Ég óska enn fremur eftir því að hæstv. fjmrh. geri okkur grein fyrir því hvernig afgreiðslan var í Ed. og hverjum skilyrðum sú afgreiðsla var háð svo að það liggi einnig ljóst fyrir. Hér er um býsna mikla fjármuni að ræða og við hv. alþm. í Nd. eigum fullan rétt og kröfu á hæstv. fjmrh. að hann geri grein fyrir þessu máli eins og það liggur fyrir. Það væri raunar ekki úr vegi vegna þess að þarna er um flugfélag að ræða að hæstv. ráðh. gengist fyrir því að sams konar eða a. m. k. svipaðar upplýsingar um eignir og veðhæfni Flugleiða væru einnig bornar hér á borð með sama hætti.

Flugleiðir eiga allstóran hlut í Arnarflugi en í þeim samskiptum eru nýliðin nokkur tímamót þar sem það skeði um s. l. áramót að Flugleiðir afskrifuðu hlutabréfaeign sína í Arnarflugi á þeim forsendum að þau væru einskis virði. (ÓÞÞ: En vilja þó ekki selja þau.) Hv. þm. Meira að segja Ólafur Þ. Þórðarson — svo allt fylgi með — hv. 5. þm. Vestf., gerir þá athugasemd við þetta að það sé dálítið öðruvísi, að Flugleiðir vilji ekki selja hlutabréfin. Hafi þessi aðili talið hlutabréfin verðlaus, á hvaða forsendum ættu þeir þá að selja þau? Söluvirði yrði þar náttúrlega ekki neitt þar sem þau eru einskis metin. (ÓÞÞ: Þau eru peninga virði.) Þetta eru bókhaldsæfingar viðkomandi fyrirtækis sem ég þekki lítið til og ég geri ráð fyrir því að flestir hv. alþm. hafi ámóta vit á því og ég, kannske ívið meira skal viðurkennt. En ég legg á það áherslu, herra forseti, að þessi hv. þingdeild sé ekki sniðgengin um efnisatriði þessa máls. Ég lit svo á að ekki megi umgangast þessa hv. deild með öðrum og lakari hætti en hv. Ed.

Frv., sem er 240. mál þessa þings, er um heimild fyrir fjmrh. að ábyrgjast lán fyrir Arnarflug. Þarna er um að tefla 11/2 millj. Bandaríkjadala, þ. e. sem næst 44 millj. ísl. kr. eða eitthvað u. þ. b. Þannig að hér er verið að tala um allmyndarlega upphæð ef á að ábyrgjast lán ákveðins einkafyrirtækis í landinu. Það hefur verið rifist um minna en 40 milljónir. Sannleikurinn er sá að ef litið er til þess minnisblaðs sem ég minntist á hér fyrr er ekki líklegt að þetta umrædda fyrirtæki sé aflögufært til aukinnar veðsetningar ef menn ætla sér að halda sér við það að eigi megi veðsetja fyrir meiru en sem nemur 70% af markaðsverði eigna.

Herra forseti. Ég hef óskað eftir því að hæstv. fjmrh. geri okkur fulla grein fyrir þessu máli og hvernig það stendur svo hv. þdm. geti síðan metið það hvort þetta umrædda fyrirtæki er það stælt að ríkið geti gengið í ábyrgð fyrir öllum þessum fjármunum. Ég tel hins vegar að svo sé ekki og mun því ekki standa að því að þetta umrædda fyrirtæki fái þessa ábyrgð.