07.11.1983
Efri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umr. skipulag verkalýðshreyfingarinnar. Eða inn á það er a.m.k. komið í þessu frv.

Ég vil nú fyrst segja það, að ég tek raunar undir með hv. þm. Helga Seljan, að ég er svolítið smeykur við það sem hér er lagt til. Menn geta staðið andspænis því að hjá tilteknu fyrirtæki sé samið um kaup og kjör. Viðkomandi fyrirtæki getur haft yfirburði að ýmsu leyti. Það getur verið betur rekið, þess aðstaða getur verið af ýmsum ástæðum betri en sambærilegra fyrirtækja, hugsanlega á sama stað. Viðkomandi fyrirtæki ríður á vaðið, ef ég má svo að orði komast, og semur um kaup og kjör, sem eru hugsanlega langt yfir þeirri greiðslugetu sem önnur sams konar fyrirtæki hafa. Við þetta er ég smeykur. Ég held fyrir mitt leyti að þarna sé ekki lausnin, enda þótt ég hafi ekki á takteinum með hvaða hætti sé hyggilegast að gera vinnubrögð innan verkalýðshreyfingarinnar lýðræðislegri en þau eru í dag.

Hv. þm. Karl Steinar Guðnason minntist á það fulltrúalýðræði sem ríkti innan verkalýðshreyfingarinnar og þau vandkvæði sem óneitanlega eru á því að það fulltrúalýðræði skili sér. Þau vandkvæði er við að stríða mjög víða annars staðar, það viðurkenni ég, sem á sér margvíslegar orsakir. Ég ætla ekki að fara að ræða þær fjölþættu orsakir hér. Okkur hv. þm. er meira og minna kunnugt um þau efni.

Í tilefni þess sem hér hefur komið fram vil ég taka undir það að ákvarðanir innan verkalýðshreyfingarinnar hafa verið teknar að mínum dómi allt of oft af of fáum aðilum. (KSG: En í kaupfélögunum?) Kaupfélögin eru ekki sérstaklega hér á dagskrá. Það væri ekkert því til fyrirstöðu að víkja að þeim en ég ætla ekki að eyða tíma hv. þd. vegna þess.

Það sem lagt er til í því frv. sem hér er til umr., um stéttarfélög og vinnudeilur, tel ég hæpið og ég mundi alls ekki mæla með því að þau atriði sem eru hér í lagagreinum yrðu lögfest. En ég væri tilbúinn til þess að taka virkan þátt í umr. og umfjöllun um það með hvaða hætti væri hægt að gera hið svokallaða fulltrúalýðræði innan verkalýðshreyfingarinnar virkara. Hvernig væri hægt að tryggja það að ákvarðanataka innan verkalýðsfélaganna styddist við þátttöku fleiri félagsmanna en ég hef grun um að sé í dag.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. en ég tek undir það sem hér hefur komið fram. Hv. þm. Stefán Benediktsson hefur vakið hér máls á málefnum verkalýðshreyfingar. Okkur er skylt að ræða þau málefni en ég get ekki mælt með samþykki þessa frv.