30.04.1984
Neðri deild: 77. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5008 í B-deild Alþingistíðinda. (4433)

219. mál, bókasafnsfræðingar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það hefur nú dregist óeðlilega lengi að þetta mál kæmist hér á dagskrá. Ætlun mín með því að biðja um orðið á sínum tíma var hreint ekki að fara að tefja fyrir málinu. Það sem ég hafði áhuga á að fá hér upplýst var hvernig staðið yrði að þessum málum í skólum landsins þar sem eru skólabókasöfn, hvort með þessu væri verið að leggja til að kennarar gætu ekki gegnt þeim störfum. Ástæðan fyrir því að ég leita eftir að fá svör við þeirri spurningu minni er sú, að eins og allir vita má í dreifbýlinu gera ráð fyrir að það verði ekki hægt að manna þau störf með jafnhámenntuðum mönnum og hér er um að ræða.