30.04.1984
Neðri deild: 77. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5008 í B-deild Alþingistíðinda. (4434)

219. mál, bókasafnsfræðingar

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar ekki um neitt annað en það, að tillekin menntun liggi að baki starfsheitisins bókasafnsfræðingur. Það er ekki um það hverjir séu bókaverðir, heldur einungis hverjir bera megi starfsheitið bókasafnsfræðingur. Þetta frv. breytir því ekki rekstri skólabókasafna eða annarra safna á neinn hátt nema það sé tilskilið að þar séu bókasafnsfræðingar. Það er einungis verið að lögfesta starfsheiti og ekki annað. Það er ekki verið að tala um neinn nýjan einkarétt eða neitt slíkt. — Ég vonast til að þetta sé nægileg skýring.

Ég hafði, herra forseti, vonandi lagt það til fyrir löngu, þegar ég mælti fyrir málinu, að því yrði vísað til 2. umr. og hv. menntmn. Hafi ég ekki gert það þá geri ég það nú. A. m. k. ítreka ég þá tillögu.