02.05.1984
Efri deild: 87. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5015 í B-deild Alþingistíðinda. (4437)

330. mál, jöfnun hitunarkostnaðar

Helgi Seljan:

Herra forseti. Hér er komið fram það frv. sem lengi hefur verið eftir beðið og hæstv. iðnrh. hefur nú mælt fyrir, en hann sagði svo um þetta frv. í þingræðu 19. des. s. l. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. hefur ákveðið að lagt verði fram á fyrstu dögum þings eftir áramót frv. til l. um jöfnun húshitunarkostnaðar til að létta verulega kostnað þeirra sem þyngstar byrðar bera vegna hitunar híbýla sinna með niðurgreiðslu orkugjafa og ráðstöfunum til orkusparnaðar.“

Og áfram fjallaði hæstv. iðnrh. þá um ráðstöfun orkujöfnunargjaldsins, sem ég mun síðar koma að, en sagði svo í lok ræðu sinnar um fjárlög þennan sama dag, með leyfi hæstv. forseta, orðrétt:

„Við höfum aðeins gert bráðabirgðaráðstafanir í þessu skyni, en á bak við þær yfirlýsingar sem ég gaf um setningu laga til úrbóta í þessum efnum liggur fullkomin alvara. sem menn eiga eftir að þreifa á. Það skal ég fullvissa þá um og þarf ekki fleiri orð um að hafa. Það ljós mun renna upp fyrir mönnum innan rúms mánaðar eða svo.“

Látum vera þó að svo hafi til tekist að ekki hafi þetta gengið eftir því að margt verður til að tefja á langri leið og aðalatriðið er hvaða niðurstaða hefur fengist hér af. Ég vil segja það um ræðu hæstv. iðnrh. áðan að hún var áreitnislaus og býsna ólík öðrum ræðum af því tagi sem fluttar hafa verið um þessi mál og við könnumst mætavel við, bæði hér úr þinginu og ekki síður úr kosningabaráttunni á s. l. ári. Ég skal hins vegar ekki taka langan tíma í þessari hv. deild til þess að fara ofan í þessi mál. Það verður gert í nefnd.

Mikilvægi málsins er slíkt að það þarf að skoðast vel. Meginþættir þess eru jöfnunin annars vegar, sem ég hefði vonast til að yrði ekki bara jöfnun heldur lækkun húshitunarkostnaðar en vitanlega skiptir það mestu máli, og svo aftur þær orkusparandi aðgerðir sem þegar höfðu verið hafnar en hér á að halda áfram og yfirlýsingar hafa verið gefnar um að muni verða auknar mjög með ýmiss konar hætti.

Mér virðist að fyrir utan V. og VI. kafla þessara laga segi þetta frv. kannske ekki mikið nýtt. Jafnvel þar er um beint framhald að ræða á því sem þegar hefur verið gert varðandi breytingu á orkugjöfum annars vegar og orkusparnaðaraðgerðum hins vegar þó að þar sé eflaust um margt lengra gengið og mönnum gert auðveldara að framkvæma þessa hluti. Ég vil hins vegar segja það í fullri vinsemd við hæstv. iðnrh. að þó að ég skilji vel traust hans á hv. Ed. til góðra verka og meira traust á þeirri deild en Nd. er það með nokkrum endemum hvernig hann hefur hagað málaframlagningu sinni hér í vetur. Ég hygg að öll þau mál þar sem þeir hafa deilt hvað harðast, hæstv. núv. iðnrh. og fyrrv. iðnrh., hafi verið lögð fyrst fram hér í Ed. Vitanlega koma þau til umr. þeirra á milli síðar. Það eru að vísu öll frv. nema það frv. sem komst ekki lengra en í þessa hv. deild, um gjaldskrárákvörðun Landsvirkjunar. Þrátt fyrir það að þessi deild sé miklu stórvirkari og velvirkari að mörgu leyti en hv. Nd. og það viti sjálfsagt hæstv. iðnrh. af biturri reynslu sem forseti úr þeirri deild tel ég það vera öllu heppilegra að mörgu leyti að þeir menn fjalli um þetta mál sem hafa næst því komist áður og þeir sem nú eru við stjórnvöl.

Ég ætla ekki að fara hér út í öll þau þungu og stóru orð sem féllu í síðustu kosningabaráttu um þær álögur sem á fólkinu á köldu svæðunum hvíldu og þær byrðar sem á það fólk væru lagðar. Gagnrýnin á fyrrv. iðnrh. var ákaflega óvægin í kosningaslagnum og loforðin um að létta og lækka og lækka fyrst og síðast voru býsna fortakslaus. Því sagði ég áðan að það vekti athygli mína að frv. nú er um jöfnun hitunarkostnaðar en lögin nú eru um lækkun og jöfnun. Ég kem að því siðar hvað mér þykir þar athugavert við.

Ekki þarf heldur að rekja það fyrir hv. þdm. að hér er einn stærsti þáttur í afkomu heimilanna og búsetumöguleikum eins og hæstv. iðnrh. kom inn á. Ég dreg heldur ekkert úr því að fyrri ríkisstjórnir hefðu mátt huga betur að og vinna meira í þessum efnum. Ég bendi líka á þá aðalástæðu sem fyrir þessu háa orkuverði er og ekki var minnst á í ræðu hæstv. iðnrh., þ. e. þá raforkusölu á undirverði til stóriðju sem hér viðgengst enn þó að bráðabirgðaleiðrétting hafi fengist á. Sú saga öll verður síðar rakin í tengslum við þá endanlegu lausn sem menn hljóta að fara að sjá fyrr en síðar í því máli þó að hæstv. iðnrh. segi nú að þau smáu atriði sem hann taldi ekki skipta neinu máli varðandi skatta fyrirtækisins og annað slíkt séu nú orðin hinn óttalegasti þungaiðnaður sem tefji býsna mikið fyrir málinu. En öll upprifjun á þessari sögu er kannske ekki aðalatriðið og síst þjónar hún hagsmunum þess fólks sem við erum hér að vinna fyrir og býr við hinar miklu álögur af völdum kyndingarkostnaðar.

Ég minnti á það áðan að hér hefði verið farið inn á þá braut að greiða niður raforkuna í áföngum. Veitt hefðu verið lán til orkusparandi aðgerða eða til skipta á orkugjöfum. Frv. þetta er beint framhald þar af og telst því ekki að mínu viti tímamarkandi í þeim efnum alveg sérstaklega miðað við það sem stendur í grg. varðandi þá jöfnun hitunarkostnaðar sem svo mjög hefur verið til umr. En þetta verður að taka til nánari athugunar í nefnd svo að unnt sé að gera sér grein fyrir því í hvaða þáttum þetta frv. er helst marktækt og hvað í því er bitastætt fyrir húseigendur.

Ég ætla heldur ekki að rifja upp alla þá umr. sem var um orkujöfnunargjaldið á sínum tíma. Öll umr. um það byggði á því að hér hefði í raun og veru verið um markaðan tekjustofu að ræða sem hefði verið óheimilt með öllu að verja í nokkuð annað þó að grg. með því frv., sem upphaflega var lagt fram um orkujöfnunargjaldið, hafi farið í gagnstæða átt og hafi tekið þar af allan vafa. Ráðstöfun þessa gjalds nú, þó að hún sé að hluta, í ljósi þessara þungu orða í kosningahríð er vægast sagt nokkuð einkennileg. Þá var þetta kallaður stuldur, þjófnaður skyldi það heita í öllum þeim umr. og loforð voru gefin ótæpileg um það að ef ákveðnir aðilar kæmust til valda yrði þar ekkert undan dregið, þá næðu menn vopnum sínum í þessum efnum á þann hátt að þeir fengju orkujöfnunargjaldið allt til sín.

Hins vegar vekur það athygli mína á bls. 6 í þessari grg. að þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Heldur hefur dregið úr þessum mun frá því sem var á s. l. ári“ — þ. e. muninum á milli varmaveitnanna eða hitaveitnanna og rafmagnskyndingarinnar — „Ódýrar hitaveitur hafa hækkað tiltölulega mest að undanförnu og niðurgreiðslur á raforku hafa þegar verið auknar að því marki sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Hlutfall ódýrra hitaveitna og niðurgreiddrar rafhitunar er nú 1:2.2 en var allt að því 1:5 þegar það var hæst.

Í frv. er gert ráð fyrir að raforka og varmaorka sé greidd niður þannig að hlutfall raforkuverðs og vegins meðalverðs allra hitaveitna sé 1:1.8. Þessu hlutfalli hefur eins og áður sagði þegar verið náð.“

Þetta þýðir það á mæltu máli að lengra þurfi ekki að ganga í þessum efnum. Ástandið varðandi þennan kostnað sé orðið harla gott. Það þýðir það sem sagt að þeim miklu byrðum og álögum sem á fólkið á köldu svæðunum voru lagðar, hefur verið létt af að dómi þeirra sem leggja fram þetta frv. Meira þarf ekki að gera í þessum efnum. Það skal gert á annan hátt með orkusparandi aðgerðum eins og margoft hefur verið bent á að væri kannske brýnust nauðsynin þannig að menn gætu einangrað hús sín betur en verið hefur.

Þessi jöfnun hefur sem sagt tilkomið vegna þess að hækkanir, t. d. hjá Hitaveitu Reykjavíkur, hafa verið svo stórkostlegar sem raun ber vitni. Það á skv. þessu að vera sárabót launþegans á köldu svæðunum að kyndingin á húsunum í Reykjavík, hjá launþegunum þar, hefur hækkað jafnmikið og raun ber vitni. Það á að vera þeirra sárabót þó að öllum sé ljóst að hinn mikli kostnaður sem menn hafa talað um er sá sami og hluti kyndingarkostnaðarins af launatekjum er vitanlega ekki minni. Að því skal ég koma síðar með tölum sem ég hygg að erfitt sé að hrekja.

Þetta ber líka að skoðast í ljósi annarra þátta heimilisrekstrarins sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur síður en svo létt. Það skiptir nefnilega öllu í þessu — og það vita þeir best sem við þetta búa — hver kostnaðurinn er sem hlutfall af launum fólksins. Það segir í grg. að það sem menn borga nú í kyndingarkostnað úti á landi sé sem sagt það sem vera skuli áfram, það skuli vara og menn skuli þá bara snúa sér að því að einangra hús sín eða skipta um orkugjafa eða eitthvað því um líkt ef þeir vilji fá einhverja frekari lækkun þar á.

Þetta þykja mér vægast sagt einkennilegar röksemdir. Ég held að engum hafi dottið það í hug í ljósi þeirra orða sem féllu í kosningabaráttunni síðast að menn ætluðu sér að létta þessum byrðum af launafólki með einhverjum prósentureikningi sem byggðist á því að orkukostnaðurinn hér á höfuðborgarsvæðinu t. d. hækkaði svo miklu meira en menn höfðu þá ráð fyrir gert. Það ætti að vera nóg fyrir fólkið á köldu svæðunum að vita það að Reykvíkingar eða aðrir á því svæði sem nytu sambærilegra kjara þyrftu bara að borga þeim mun meira og nálguðust þá í orkureikningum sínum á þann hátt. Ég held að engum hafi dottið það í hug heldur væri meiningin að lækka þennan kostnað úti á landsbyggðinni verulega.

Ég veit að t. d. hv. 11. landsk. þm., sem var í þessari orkujöfnunarnefnd, er mér hjartanlega sammála í þessum efnum. Það skiptir öllu máli að lækka þennan kostnað. Það er kannske þess vegna sem það segir í inngangi að athugasemdum við þetta lagafrv. að orkuverðsnefnd hafi verið skipuð til að gera tillögur um leiðir til að jafna húshitunarkostnað í landinu. Þetta frv. byggi í ýmsum veigamiklum atriðum á starfi nefndarinnar en önnur atriði hafi tekið breytingum í meðförum rn. Ég veit að jafnhreinskilinn maður og hv. 11. landsk. þm. lætur okkur ekki bíða eftir því að það verði lagt fram á Alþingi hvað þessi nefnd hafi lagt til. Hann greinir okkur áreiðanlega frá því á eftir hvaða atriði það eru sem tekið hafa breytingum. Það kæmi mér ekki á óvart þó að þau atriði hafi verið býsna veigamikil í ljósi þess sem ég hef áður sagt um þennan kostnað. Ég segi þess vegna að það er þetta sem skiptir öllu, ekki hvort svo hafi verið hækkað hér á þessu svæði að hlutfallstölurnar hafi lagast af þeirri ástæðu einni.

Í þingræðu nú fyrir skömmu fór hv. 5. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, einmitt með beinar tölur í þessu sambandi sem hann rakti allt frá 1. sept. 1978 varðandi það hversu langan tíma hefði þurft að vinna fyrir húshitun meðalíbúðar, bæði húshitun og heimilisrafmagni, og hvernig staða þeirra mála væri nú. Ég rifja þetta upp í örstuttu máli og vitna orðrétt í þessa þingræðu af þeim ástæðum að margar undarlegar fullyrðingar hafa heyrst um það hvaða breytingar hafi á orðið í tíð hæstv. fyrrv. iðnrh. og hvað hafi nú gerst í tíð þessarar hæstv. ríkisstj. Menn skulu skoða þessar tölur og þessar staðreyndir í ljósi þeirra orða sem hæstv. iðnrh. fór með áðan úr áliti orkuverðsnefndarinnar þar sem hv. 11. landsk. þm. átti sæti og að ég held hv. 4. þm. Vestf. einnig. Hann sagði þar nokkurn veginn orðrétt að kostnaður þess fólks sem byggi við lakastan kost, sem sagt á köldu svæðunum, væri óbærilegur. Það væri álit þessarar nefndar. En í grg. með frv. segir að viðunandi árangri í þessu sé þegar náð, menn hafi komist á leiðarenda í þessum efnum. En með leyfi forseta vildi ég fara ofan í þessar tölur.

Frá 1. sept. 1978 þegar ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar tók við þurfti til að vinna fyrir húshitun 240 stundir, fyrir öðru heimilisrafmagni 139 stundir eða samtals 379 stundir. Þegar gjaldskrár síðast breyttust í tíð ríkisstj. Gunnars Thoroddsens eða frá 10. maí 1983 var hér um að ræða húshitun upp á 310 vinnustundir, heimilisrafmagn upp á 157 stundir eða samtals 465 vinnustundir.

Aukningin, sem oft var talin vera margföld, var þá á tæpum 5 árum 88 vinnustundir eða rúm 23%. Þá ber þess vitanlega að geta að inn í þetta dæmi komu þær verðbætur sem áttu að reiknast á laun 1. júní 1983 og hefðu breytt þessari mynd verulega.

Þá skyldu menn skoða líka hvernig þessar tölur líta út í dag. Ég vitna enn orðrétt í þessar tölur hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar sem hann hefur eftir bestu heimildum: „Eftir hinar stórfelldu verðhækkanir á rafmagni frá Landsvirkjun, fyrst 19% 3. júní og síðan 31% frá 1. ágúst eða samtals 56%, þá varð hækkun á heimilisrafmagni 38.5% og 17.4% á rafhitunartaxta þrátt fyrir auknar niðurgreiðslur, en þær voru vissulega auknar verulega til að mæta þessum gjaldskrárhækkunum. Frá 1. ágúst 1983 til 1. febr. núna á þessu ári var því staðan þannig að tími verkamanns til að vinna fyrir húshitun yfir árið nemur 331 klukkustund og fyrir heimilisrafmagni 198 stundum eða samtals 529 vinnustundum, þ. e. aukningin á þessum tíma, 1. ágúst til 1. febr., er um 62 vinnustundir frá því sem verið hafði við stjórnarslitin eða við síðustu niðurgreiðslur í ríkisstjórnartíð Gunnars Thoroddsen.“

En það er líka rétt að vera með fulla sanngirni í þessu og ég vitna áfram í þessar tölur miðað við 1. febr., lita á dæmið eins og það lítur út núna eftir kaupbreytinguna þann 1. mars s. l. og lítils háttar aukningu á niðurgreiðslu raforku til húshitunar eða um 5 aura á kwst. frá 1. febr. 1984. „Þá var dæmið þannig að 292 stundir þarf til að vinna fyrir húshitun og 185 stundir til að vinna fyrir heimilisrafmagni eða samtals 477 stundir, þ. e. og taki menn nú eftir — 10 vinnustundum meira en við stjórnarskiptin í maí 1983.

Þetta er staðan eftir nýgerða kjarasamninga þar sem ekki er að finna neina verðtryggingu launa eða hækkanir launa til loka ársins nema 5% í tveimur áföngum.“ Þetta eru tölur sem ég hygg að verði erfitt að hrekja og ég bið menn þá um að koma með aðrar haldbærari. Um þær verður eflaust fjallað í nefnd og verður fróðlegt að sjá það. En þessi 10 vinnustunda aukning frá stjórnarskiptum í maí 1983 er sem sagt talin slík að í athugasemdum með þessu frv. segir að þegar hafi verið náð því marki sem menn hafi sett sér varðandi jöfnun hitunarkostnaðar og lengra skuli ekki ganga. Ég er illa svikinn ef vinur minn, hv. 11. landsk. þm., er ánægður með þetta.

Það er kannske að vonum að þetta komi ekkert inn í þá mynd sem mest hefur verið til umr. nú að undanförnu, þ. e. fjárlagagatið mikla. Það er kannske enginn hissa á því þó að þetta frv. þýði ekki neina útgjaldaaukningu, kosti ekkert til viðbótar við það sem þegar var gert ráð fyrir í fjárlögum. Hæstv. iðnrh. sagði að vissulega hefði það farið miður þó að hann tæki fulla ábyrgð á því hvernig ráðstöfun orkujöfnunargjaldsins hefði orðið við afgreiðslu fjárlaganna. En það er ekki nema von að ráðstafanir í þessum efnum hafi ekki komið mikið inn í þær umr. hvernig ætti að leysa fjárhagsvanda ríkissjóðs ef það kostar svo sáralítið sem raun ber vitni og verður kannske að mestu leyti fólgið í að vísu hagstæðum lánum sem beitt verður til orkusparandi aðgerða.

Þetta vildi ég segja í þessum umgangi um þetta mál því að ég kem enn og aftur inn á það að það er heildarkostnaðurinn sem hvílir á fólkinu úti á landi sem skiptir öllu máli en ekki prósentureikningurinn sem byggist á því að á þessu svæði hér hafi svo miklu meira hækkað. Það er ekki það sem skiptir máli. Það er engin sárabót fyrir launþega úti á landi þó að auknar byrðar séu lagðar á launþega hér í Reykjavík. Það hljóta allir að skilja, meira að segja hæstv. iðnrh.

En hæstv. iðnrh. kom inn á 150 millj. sem hann benti réttilega á að hefði með brbl. í fyrra átt að verja beinlínis til þessa átaks. Ýmsar grunsemdir vakna nú og kannske alveg sérstaklega þegar blaðamannafundur var haldinn um orkusparnaðarátakið sem kynnt var því að þá sagði orðrétt í Morgunblaðinu, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjármagn til þessa átaks verður fengið sem hér segir: 30 millj. kr. koma af ónotuðu fé frá síðasta ári sem ætlað var til niðurgreiðslna á orku, aðallega raforku til húshitunar, og 20 millj. af fé sem ætlað var til niðurgreiðslu á orku, aðallega raforku til húshitunar, á árinu 1984.“

Það þýðir sem sagt að ekki hafa allar þessar millj. verið notaðar á síðasta ári, enda kannske ekki von ef ástandið hefur verið svona gott í raun og veru eins og grg. með þessu frv. segir til um. Ég vildi spyrja hæstv. iðnrh.: Hvað var í raun og veru miklu af þessum 150 millj. varið á síðasta ári til þess að greiða niður raforku til húshitunar? Hvað varð þá um það sem eftir stóð? Voru það aðeins þessar 30 millj. sem hér er greint frá í blaði hæstv. iðnrh., Morgunblaðinu, eða var um hærri tölu að ræða, sem ónotuð var?

Ég skal ekki hafa uppi um þetta miklu fleiri orð. Eins og ég sagði áðan: Það mætti vissulega halda hér langa og ítarlega ræðu um það hvað um þessi mál var sagt í kosningahríðinni síðast og hvað um þau mál hefur verið sagt hér á Alþingi. Áreimislaus ræða hæstv. iðnrh. hér áðan gaf ekki tilefni til þess að fara svo náið út í það sem vissulega væri vert vegna þeirra þungu og stóru orða sem þar voru látin falla. En ég sé það hins vegar að þetta frv. felur fyrst og fremst í sér að haldið verði áfram starfi fyrrv. iðnrh. varðandi orkusparandi aðgerðir. Það er aðalatriðið sem í þessu máli felst. Man ég þó að mörg háðsyrði voru höfð uppi um það að það væri ekki lausnin fyrir fólkið í landinu að vera með einhverjar orkusparandi aðgerðir og veita aðstoð til þess að einangra húsin sín betur eða að skipta um orkugjafa, það væri ekkert aðalatriði, heldur skiptu orkureikningarnir svimháu sem helltust yfir þetta fólk auðvitað öllu máli. Hitt væru aukaatriði sem menn væru að reyna að snúa sig út úr með léttum leik.

En ég er sannfærður um það að við skoðun þessara mála gerir hæstv. iðnrh., svo glöggur og greindur maður sem hann er, sér ljósa grein fyrir því að hér er um einn meginþáttinn að ræða í því máli að menn geti varanlega tekið á þessu vandamáli á köldu svæðunum, þ. e. betri einangrun húsanna og aðrir orkugjafar og betri tæki en þar hafa verið. Þess vegna er frv. helst um þau atriði og er að því leyti fyllilega góðra gjalda vert. En mér dettur í hug þegar ég sé þetta frv. vegna þess sem sagt hefur verið í þessum málum á undanförnum árum: Fjallið tók jóðsótt og fæddist lítil mús.