02.05.1984
Efri deild: 87. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5020 í B-deild Alþingistíðinda. (4438)

330. mál, jöfnun hitunarkostnaðar

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég sakna þess að hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson skuli ekki vera við þessa umr. því að hann, eins og kom fram í ræðu síðasta hv. ræðumanns, var formaður orkuverðsnefndar og stjórnaði hennar störfum og ég átti satt að segja frekar von á að hann yrði hér til staðar til að túlka hennar sjónarmið eftir því sem ástæður liggja til. Ég vil minna á að orkuverðsnefnd — ég hef ekki farið yfir dagsetningar og þori ekki að hafa þær hér — hóf störf sín stuttu eftir að hún var til þess kvödd og hún hafði í meginatriðum lokið störfum sínum áður en Alþingi kom saman. Það voru hrein formsatriði sem þá lágu utan garðs og hennar vegna hefði þetta frv. getað komið fram löngu fyrr.

Það ber að hafa í huga í þessu sambandi hvernig þessi mál hafa þróast á síðustu árum og væri út af fyrir sig fróðlegt að bera saman umræður sem fóru fram á árunum 1979 og 1980. Það var m. a. fyrsta þingmálið sem ég flutti hér á Alþingi eftir að ég varð þm., þáltill. um jöfnun húshitunarkostnaðar. Þá var tæpast minnst á háan húshitunarkostnað með raforku. Það vandamál var þá ekki til. Vandamálið var bundið hinum óheyrilega olíukostnaði, sem þá hafði gengið yfir í tveimur stórum bylgjum. Vandamálið við raforkuverðið hefur þess vegna komið inn síðar. Það er satt að segja þungur dómur og erfiður kostur fyrir þessa þjóð, ekki síst vegna þess að þar höfum við verið að tala um aðrar auðlindir okkar, að þurfa að horfa upp á að hún sé nú tæpast orðin samkeppnisfær við aðra erlenda orkugjafa. Í raun vilja menn tæpast viðurkenna að það sé reyndin, enda lagði orkuverðsnefnd til að það yrði gert skipulegt átak í þá veru að losna við erlenda orkugjafa: losna við olíu til húshitunar, bæði í íbúðarhúsnæði, skólahúsnæði og öðru húsnæði félagslegs eðlis. Ég hygg að olíunotkun til húsahitunar sé núna um það bil 7% af orkunotkun til þeirra þarfa eða álíka mikil og nemur allri hitaframleiðslu Hitaveitu Suðurnesja og væri það eitt út af fyrir sig ekki lítið átak að koma þeim verðmætum yfir í innlenda framleiðslu.

Mér finnst rétt að skýra frá því, m. a. út frá því sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að það var í skipunarbréfi orkuverðsnefndar óskað eftir tillögum hennar um með hvaða hætti bæri að haga niðurgreiðslum á raforku á s. l. ári. Og það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að í þeim efnum var fylgt fyrri tillögum. Það var hins vegar þá gengið út frá því að orkutaxtar mundu hækka aftur á árinu og þyrfti að grípa til meiri niðurgreiðslu en þá var orðin og m. a. af þeirri ástæðu sparaðist þarna fjármagn. Það var sem sagt gert ráð fyrir að það fjármagn nægði, miðað við þær forsendur sem fyrir lágu, út s. l. ár. En með því að ekki kom til þeirra gjaldskrárhækkana sem til stóðu eyddist það fjármagn ekki allt til þeirra nota. Þetta finnst mér vera eðlilegt að komi hér fram.

Það kom fram hjá síðasta ræðumanni að almennt orkuverð í landinu hafi mikið hækkað í tíð núv. ríkisstj. Menn geta metið með hvaða hætti sem þeim sýnist dagsetningar í þeim efnum. En ég vil minna á að svo var komið á miðju ári eða fyrir mitt ár 1982 að mönnum var orðið ljóst þá hvert stefndi í sambandi við raforkuframleiðsluna í landinu. Hún var þá að komast í alger þrot. Með bréfi 23. apríl það ár var ákveðið af þáv. ríkisstj. að orkutaxtar skyldu hækka jafnt og þétt fram á árið 1983 með þeim hætti að orkuframleiðslan yrði rekin án halla. Eins og menn muna var það eitt af síðustu verkum fráfarandi iðnrh. að gefa út brbl. til þess að koma í veg fyrir að þessi ákvörðun fyrrv. ríkisstj. næði fram að ganga. Fyrrv. ríkisstj. var búin að viðurkenna nauðsyn þess og taka ákvörðun um að náð skyldi jöfnuði í rekstri raforkuiðnaðarins í þessu landi. Það var að sjálfsögðu umtalsvert átak af hendi núv. ríkisstj. að koma í veg fyrir, þrátt fyrir að þessi ákvörðun gengi fram, að orkuverð til húsahitunar hækkaði. Og það er rétt, sem hv. þm. Helgi Seljan sagði áðan, að það er núna með mjög líkum hætti sem þessi kostnaður er að raungildi miðað við taxtakaup. Ég hef satt að segja ekki farið yfir það eftir að kjarasamningar voru gerðir og þetta má e. t. v. reikna út með fleiri en einum hætti. Fram kom hjá hv. þm. að þarna hallaðist lítið á og því átti ég raunar von á.

Í tillögum orkuverðsnefndar og síðar í þessu frv. er tekin upp sérstök viðmiðun, vegið meðaltal af öllum hitaveitum í landinu. Þetta er ekki nýmæli því að ég hygg að það hafi verið 1980, á því herrans ári, sem þm. úr flokkum lögðu hér fram frv. um niðurgreiðslu á húshitun sem einmitt byggði á þessu sama kerfi. Ég get fúslega viðurkennt að ég var ekkert sérstaklega hrifinn af þessu kerfi þá og ég taldi þetta ekki nein sérstök töfrabrögð í störfum fráfarandi orkuverðsnefndar. Fyrir því eru fleiri en ein ástæða.

Í fyrsta lagi geta þessir orkutaxtar annars staðar hreyfst með þeim hætti að þeir mæli gagnstætt því sem þörfin er fyrir hjá fólkinu sem nýtur þessa og í raun, eins og ég e. t. v. fjalla um síðar, hefur þessi viðmiðun, t. d. við hitaveiturnar, verið röng. Það ber hins vegar að hafa í huga — ég tek fram að ég hef ekki farið yfir þetta frv. nákvæmlega og ekki borið það saman orði til orðs við frv. orkuverðsnefndarinnar — að sú tala sem orkuverðsnefndin setti inn var hámarkstala. Hún var viðmiðunartala. Hún var sett inn sem viðurkenning og staðfesting á því að þetta misvægi í húshitunarkostnaði mætti ekki undir neinum kringumstæðum nema meira en sem að næmi 1/8 af vegnu meðaltali í töxtum hitaveitna í landinu. Ef fjármunir væru hins vegar til staðar ætti þessi tala að vera lægri.

Ég held að það hafi verið samdóma álit okkar í orkuverðsnefnd að í raun væri þessi viðmiðun of há, en aftur á móti settum við fram skýr ákvæði í okkar frv. sem hefðu auðveldað húseigendum að lagtæra hús sín með tilliti til orkusparnaðar með verulega hagstæðara móti en frv. gerir ráð fyrir. Við gerðum ráð fyrir að ákveðnum hluta af þessu fjármagni yrði bókstaflega varið sem styrk til þess að lagtæra lélegt húsnæði. Þessar tillögur voru m. a. tilkomnar vegna þess að við fengum um það mjög skýrar ábendingar frá þeim mönnum sem höfðu fjallað um þessi mál, ég hygg að þeir viðræðuaðilar hafi verið úr orkusparnaðarnefnd, að venjuleg lánaleið dygði ekki í þessum efnum. Sannleikurinn er sá, að svo mikill kostnaður fylgir slíkum endurbótum á húsnæði að það er erfitt að finna fyrir því hagfræðilegan grundvöll jafnvel þó að orkuverð sé úr hófi fram.

Það sem ég vildi hins vegar vekja athygli á í þessum efnum er það, að sú viðmiðun að það bæri að taka mið af hitakostnaði hjá nýlegum hitaveitum hefur verið og er að mínu mati röng. Kemur þar margt til, en maður hefur ekki komist hjá því að finna mjög mikla andstöðu gegn því að breyta raforkutöxtum til húsahitunar til, sem menn kalla, ósamræmis við nýjar hitaveitur. Þá ber þó alveg sérstaklega að hafa það í huga, og ég hygg að það komi fram í grg. með þessu frv., að eins og sá kostnaður hefur verið metinn á þeim svæðum þar sem um nýjar hitaveitur er að ræða hefur hann verið talinn hærri en hann raunverulega hefur verið að raungildi til. Skal ég þó ekki fara nánar út í það. Þar hefur fengist röng viðmiðun til að halda uppi raforkukostnaði við húsahitun í landinu.

Það væri að sjálfsögðu hægt að tala um þetta allt saman miklu lengra mál, en það vill svo til að ég á sæti í þeirri n. hér í Ed. sem á eftir að fjalla um þetta frv. og ég vona að mönnum gefist þá kostur á að meta niðurstöður þar. En ég skal ekki láta hv. 2. þm. Austurl. vera í neinum vafa um skoðun mína. Ég met ekki þörfina fyrir niðurgreiðslu á raforku á hinum köldu svæðum með þeim hætti hvort hún fullnægir einhverri tillekinni reiknitölu. Ég tek þar að sjálfsögðu mið af því hvað fólkið er megnugt að taka á sig í þessum efnum. Og ég legg á það áherslu að bæði í þessum tilvikum og öðrum er það ríkisvaldið, sem hér skammtar mönnum kjörin, sem hér ákveður verðið, og menn hafa í raun ekki í önnur hús að venda en að skipta við ríkisvaldið í þessum efnum.

Í þessu frv. og í fyrri lögum hafa verið hörð ákvæði um að menn ættu ekki að njóta niðurgreiðslu á orku til húshitunar ef raforka væri til staðar. Þessu hefur sem betur fer ekki verið framfylgt. Það hafa verið í lögum þvingunarráðstafanir til að fá menn til að skipta við ríkið í þessum efnum. Það er ómögulegt að ætlast til þess að ríkisvaldið hafi einhliða aðstöðu til þess að ákveða með hvaða hætti slíkir taxtar gangi fram.

Það er alveg augljóst mál að verulegum jöfnuði náum við ekki nema með því að bæta húsnæðið í landinu. Í þeim efnum skilur meira á milli manna en í nokkrum öðrum efnum í þessu máli. Það er talað um að nokkuð eðlileg orkuþörf, miðað við venjulegt húsnæði, sé um 32 800 kwst. á ári. Það eru sannarlega dæmi til þess að sú tala sé verulega miklu hærri. Það er alveg hárrétt, eins og fram kemur í þessu frv., að jöfnuður kemst ekki á nema með þeim hætti að lagtæra þetta lélega húsnæði. En það skulu menn líka athuga að eftir því sem taxtarnir eru hærri því minni möguleikar eru á því að takast á við þann vanda. Því mega menn ekki gleyma í þessum efnum. Og er alveg sannfærður um að þrátt fyrir frómar óskir um að gert verði skipulegt átak í þeim efnum að lagtæra húsnæðið í landinu gengur það ekki yfir nema á nokkrum árum og kannske nokkuð mörgum árum og þá getur farið svo að það hafi reynst ýmsum þeim sem þurfa að búa við orkuokur of þungt í skauti þannig að þeir hefðu þá frekar valið þann kostinn að færa sig til í landinu og setjast þar að sem orkan er ódýrari og þá ekki síst miðað við aðrar aðstæður. Ég hef þá m. a. í huga bændurna og landbúnaðinn, sem hafa nú legið undir allþungri ágjöf á síðustu árum og af einni stétt búa við verri kjör í sambandi við viðskipti við ríkisvaldið en að því er ég hygg nokkur önnur stétt í þessu landi. Mér er tjáð, og ég hef séð um það útreikninga, að umfram venjulega orkuverðshækkun hafi taxtar til landbúnaðar hækkað verulega miklu meira en aðrir orkutaxtar þannig að um muni.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum hér. Eins og ég hef áður sagt á ég sæti í þeirri n. sem fær þetta mál til umfjöllunar og þar gefst mönnum kostur á að fara yfir þetta mál. Út frá því sem kom hér fram hjá hv. 2. þm. Austurl. vil ég benda á að í 3. gr. eru miklu skýrari ákvæði um að orkujöfnunargjaldinu skuli skilað. Það getur vel verið að menn telji slíka lagasetningu ekki mikils virði, Þessi ákvæði eru að því er ég held þó alveg óbreytt frá því sem orkuverðsnefndin setti fram. Auðvitað er það á valdi Alþingis, eftir að slík ákvæði eru komin inn í löggjöf, að haga störfum svo og ákvörðunum þannig að jafnskýr fyrirmæli sem þessi séu virt og að þau standi. Það er að sjálfsögðu aðalatriðið í þessum efnum að þarna er þetta sett fram alveg skýrt og ótvírætt. Og ég hygg að þó að vera megi að ýmislegt sé öðruvísi í þessu frv. en frv. orkuverðsnefndar sé þessi framsetning með þeim hætti að þeim markmiðum, sem voru sett fram í frv. okkar í orkuverðsnefnd, sé öllum hægt að ná ef vilji er fyrir hendi til slíkra áforma.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, herra forseti. Reyndar hafði ég ekki ætlað mér að taka þátt í þessari umr. nú að þessu sinni, en þar sem félagi minn af Austurlandi, hv. þm. Helgi Seljan, var að gera mér upp orð og hugsanir — mjög með réttum hætti — vildi ég að mín afstaða lægi hér fyrir.