02.05.1984
Efri deild: 87. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5029 í B-deild Alþingistíðinda. (4441)

330. mál, jöfnun hitunarkostnaðar

Helgi Seljan:

Herra forseti. Þetta geta verið örfá orð. Það gleður mitt hjarta að sumu leyti að heyra hvað hæstv. núv. iðnrh. leggur mikla áherslu á það að verkefni séu unnin af verkefnisstjórnum og nefndum. Einhvern tíma minnir mig að hann teldi það einna helstan galla á fyrirrennara sínum í þessu efni að hann skipaði öllum málum í nefnd. Hann hefur greinilega tekið upp hans vinnubrögð í ríkum mæli í því efni og er ekki nema gott eitt um það að segja, því að vissulega þurfa þessi mál að vinnast á þann hátt. Þau eru ekki svo einföld að það nægi að einn ráðh. rétt gluggi í þau svona áður en farið er að sofa á kvöldin. Það þarf vissulega marga menn til að vinna að svo stórum verkefnum.

Ég var nú ekki beint að gagnrýna hæstv. ráðh. fyrir að þetta frv. væri lagt fram í Ed. Ég skil vel að hann treysti engum betur en hv. þm. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni til að fjalla um frv. Hefði hann þá gjarnan mátt bæta við hv. 11. landsk. þm., en hefur gleymt því af einhverjum ástæðum, en ekki treysti ég honum síður til þess en hv. 4. þm. Vestf. með þó allri hans nákvæmu vinnu og ágætu sem hann framkvæmir hér í þinginu. Ég var í raun og veru að tala um öll þau frumvörp sem hafa snert á einhvern hátt samskipti þessara ráðh., eða viðskilnað fyrrv. iðnrh. og móttöku hins núverandi, því þau frv. hafa öll verið lögð fram hér í Ed. Og kannske eru mestar röksemdir fyrir því að leggja þetta frv. fram hér, en þá minni fyrir öðrum frv. sem hæstv. ráðh. hefur séð sérstaka ástæðu til að leggja fram öll í Ed., held ég að ég fari rétt með.

Hæstv. iðnrh. talaði um ástæður orkufyrirtækjanna og erlendar skuldir í því sambandi. Mér finnst að menn ættu að fara varlega í það, þeir sem sitja í hæstv. ríkisstj., að tala um erlendar skuldir eða erlendar lántökur, þegar jafnvel ríkisbúskapurinn nú á að verða á slíkum erlendum lántökum byggður að miklu leyti og svo langt jafnvel gengið að greiðsla barnsmeðlaga til Tryggingastofnunar ríkisins á að fara fram samkvæmt erlendri lántöku. Þá fara menn nú að standa illa að vígi að tala um miklar erlendar skuldir sem safnast hafi í tíð fyrri ríkisstj. vegna orkufyrirtækja, slík uppbyggingarfyrirtæki sem orkufyrirtækin eru, þegar barnsmeðlögin sjálf eru komin inn í þetta dæmi hjá hæstv. núverandi ríkisstj., en þannig er að hún barnar flest mál sem hún tekur við og því kannske eðlilegt að hún þurfi virkilega á erlendum lántökum að halda til þess að rétta þar af. (Iðnrh.: Þú þyrftir að ná í Albert. Hann er ljósmóðirin.) Já, ekki efast ég um það að hæstv. iðnrh. saknar hans meira en hæstv. forsrh. gerir yfirleitt. En við skulum vona a. m. k. að þessar erlendu skuldir verði þeim ekki að jafnmiklu fótakefli og hæstv. iðnrh. var að ræða um áðan að þær hefðu orðið orkufyrirtækjunum. Reyndar vék hann svo í lokin að ástæðunni fyrir þessari slöku stöðu orkufyrirtækjanna í landinu, þ. e. undirverði til stóriðjunnar, og sagðist nú bjartsýnn á það, í ljósi ýmissa teikna þar, að það mundi fara að lagast. Guð láti gott á vita, ef hann nær vopnum sínum, eins og hann segir svo oft, í þeim málum gegn hinum erlendu auðhringum.

Ég kom hér aðeins upp til að fagna því að hafa verið svo forspár um það hver skoðun og vilji hv. 11. landsk. þm. var í þessum efnum sem hann staðfesti hér áðan, m. a. það, sem hann lýsti hér yfir, að orkuverðsnefndin hefði gert ráð fyrir mun hagstæðari aðstoð við húseigendur en frv. gerir ráð fyrir, m. a. með beinum styrkjum til lagtæringar á húsnæði. Ég ætlaði einmitt að spyrja hæstv. iðnhr. hvort sú heimild yrði notuð sem er í frv. um styrk en ekki bara lán, en hv. 11. landsk. þm. hefur svarað því að í raun og veru sé ekki um það að ræða. Þetta muni verða lánið eitt. Styrkurinn sem þeir lögðu til hafi verið felldur niður af hæstv. ráðh. við framlagningu frv. En í þessum efnum skiptir auðvitað ekki öllu máli hverju varið er í greiðslum á hverju ári heldur hver kostnaðurinn er fyrir fólkið í landinu og hlutfall kyndingarkostnaðarins af launatekjum þess, hve lengi launþeginn þarf að vinna fyrir þessum kostnaði. Og þá hlýt ég að spyrja sjálfan mig: Hverju breytir þetta frv. í þeim efnum? Og svarið er af hálfu hæstv. iðnrh.: Alls engu.