02.05.1984
Efri deild: 87. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5031 í B-deild Alþingistíðinda. (4443)

330. mál, jöfnun hitunarkostnaðar

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Það eru hitamál sem hér eru til umr. Ég ætlaði ekki að koma í þennan ræðustól nú, en vegna orða hv. 11. landsk. þm. áðan get ég varla annað. Ég verð að segja það við minn ágæta vin að mér finnst hann tala þar af nokkrum ókunnugleika hvað varðar hitaveituna á Akranesi og í Borgarfirði. Hann öfundaði okkur Vestlendinga mjög af þeirri veitu, það veit ég að hann gerir, og hann má gera það því þetta verður góð veita þegar hún er búin að koma undir sig fótunum. En hún hefur orðið fyrir þeim áföllum á sínu byrjunarskeiði að vera með allt sitt í erlendum lánum eins og flestar okkar veitustofnanir. Þess vegna er hún að kikna eins og er og hitunarkostnaður er mjög hár á svæðinu. Það er orðin mikil spurning hjá fólki hvort það getur kynt með heita vatninu frá þessari veitu eða hvort það fer yfir í olíu aftur, svo ég tali nú ekki um með auknum olíustyrk eins og liggur fyrir í þessu frv. Við þessu vara ég. Það er rætt um það hér í frv. og því fylgir tafla sem fskj. 1, það er talað um það á bls. 12 í 14. lið, hver sé kostnaður við húshitun samkvæmt gjaldskrám í krónum á ári og einnig meðaltalsverð per kwst. Þar er Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar komin upp í 1.06 eða 34 608 kr. Við sjáum því miður hærri tölur og það þá helst í kjördæmi hv. 11. landsk. þm., en þær eru verulega lægri í flestum öðrum tilvikum. Hvað geta menn unað því á þessu svæði að greiða mikið í verðjöfnunargjald af raforku og fá svo ekkert til baka í húshitunarkostnað og hitaveitu? Það getur orðið erfitt dæmi. Þetta er ástæðan fyrir bréfi bæjarstjórnar Akraness sem getið var hér áðan. Þar varar hún við þessari þróun. En ég vona að með þessu frv. verði þarna bót á vegna 14. gr. Í aths. við 14. gr. segir, með leyfi forseta, í grg.:

„Nokkrar hitaveitur, sem hafa átt við sérstakan fjárhagsvanda að etja vegna ófyrirsjáanlegar rekstrarerfiðleika, þurfa að hafa gjaldskrá sem metin er hærri en nemur hitunarkostnaði með niðurgreiddri olíu og rafmagni. Þetta hefur fyrst og fremst átt við nokkrar smáar hitaveitur, en með þeirri lækkun á hámarksverði hitunar sem felst í 4. og 7. gr. kann að vera að þessum veitum geti fjölgað eitthvað. Í því skyni að treysta samkeppnishæfni þeirra við orkugjafa, sem njóta niðurgreiðslu, er samkv. grein þessari heimilt að veita þeim aðstoð.“

Það er ekki farið fram á neina aðstoð þarna aðra en þá að það megi lengja þau erlendu lán sem á þessum veitum hvíla og taka e. t. v. hluta af stofnkostnaði til að færa þær á réttan kjöl. Þessar hitaveitur eiga fullan rétt á sér og munu verða góð fyrirtæki innan skamms tíma og óvíða betri en einmitt Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar. (EgJ: Nákvæmlega það sem ég var að segja.) Það er von að þú öfundir okkur af því líka. — Því miður nýtum við ekki allt heita vatnið, sem upp kemur, enn þá. Það er ekki staðið í borunum eða öðru slíku, heldur er allt vatnið fyrir hendi. Þess vegna þarf að takast strax á við það að rétta þessa veitu af svo og aðrar sem þannig standa.