02.05.1984
Efri deild: 87. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5034 í B-deild Alþingistíðinda. (4454)

319. mál, kvikmyndamál

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Núgildandi lög um Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmyndasjóð eru frá árinu 1978 og óhætt er að fullyrða að með tilkomu þeirra laga hafi verið brotið blað í sögu íslenskra kvikmyndamála. Þá hófst hin mikla gróska í íslenskri kvikmyndagerð sem ekkert lát hefur orðið á síðan og það er vandséð að nokkur löggjöf hafi haft jafnmikil áhrif á viðgang einnar listgreinar og lögin frá 1979 höfðu á þróun íslenskrar kvikmyndagerðar. Það helst raunar í hendur við mikinn uppgang þessarar listgreinar, vinsældir hennar og mikilvægi víða í heiminum.

Kvikmyndasjóður var stofnaður 1978 eins og ég sagði áður. Ég vil víkja að því hverjar fjárveitingar til hans hafa verið. 1979 voru það sem svarar 300 þús. kr., 1980 450 þús., 1981 1 millj., 1982 1 millj. 500 þús., 1983 5 millj., 1984 6 millj. 500 þús. Þegar ég segi „sem svarar“ þessum upphæðum á ég ósköp einfaldlega við það að þegar lögin voru sett voru öðru vísi kr., hundrað sinnum minni en nú eru. Þess skal getið að á árinu 1980 fór fram aukaúthlutun úr sjóðnum og þá var úthlutað 50 millj. og 500 þús. gömlum krónum, eða 505 þús. nýkr. Þar var um að ræða söluskatt af íslenskum kvikmyndum en söluskattur af íslenskum kvikmyndum var síðan felldur niður.

Á tímabilinu 1979-1984 hafa verið veittir styrkir til 18 leikinna kvikmynda og má telja næsta fullvíst að ekki hefði verið ráðist í gerð neinnar þeirra ef ekki hefði komið til upprunalegur styrkur frá Kvikmyndasjóði. Allar þessar myndir hafa verið fullgerðar og sýndar hér á landi og erlendis að undanteknum þeim tveim leiknu myndum sem hlutu styrk 1984 en ráðgert er að ljúka á þessu ári. Á sama tíma hafa verið veittir styrkir til 28 heimildarmynda en af þeim munu aðeins sex vera fullgerðar. Margar heimildarmyndir eru langtímaverk og að jafnaði miklu erfiðara að fjármagna þær þar sem tekjur af þeim eru sjaldnast aðrar en af sýningum í sjónvarpi. Þá hafa verið styrktar tvær teiknimyndir, ein grafísk mynd og tvær 8 mm myndir.

Sjóðurinn hefur einnig tekið þátt í að styrkja kynningar á íslenskum myndum á kvikmyndahátíðum og kynningum erlendis og öðrum svipuðum vettvangi. Kvikmyndasjóður hefur einnig af íslenskri hálfu tekið þátt í samstarfi norrænu kvikmyndastofnananna um kynningar á norrænum kvikmyndum, en norrænu kvikmyndastofnanirnar reka ófluga kynningarstarfsemi, t. d. á stærstu kvikmyndahátíðum heims í Cannes og Berlín. Þá hefur sjóðurinn tekið þátt í norrænum kvikmyndakynningum, m. a. í Bretlandi, Bandaríkjunum og Ástralíu. Kvikmyndasjóður hefur engu starfsliði haft á að skipa en í stjórn hans sitja þrír menn, einn tilnefndur af Ríkisútvarpi/sjónvarpi, annar af Námsgagnastofnun/fræðslumyndasafni og formaður skipaður af menntmrh.

Kvikmyndasafn Íslands var sett á laggirnar með lögunum frá 1978 og hefur á vegum þess verið unnið að því að bjarga frá glötun gömlum íslenskum kvikmyndum og kvikmyndum um liðna atburði á Íslandi. Hefur safnið á þessu sviði unnið ómetanlegt starf þar sem síðustu forvöð hafa verið að bjarga mörgum þessara mynda, einkum nítratmyndum sem eru mjög forgengilegar. Safnið hefur nú aðsetur í leiguhúsnæði að Skipholti 31 hér í borg og hefur þar til afnota eitt herbergi og geymslu. Við safnið starfar einn maður í hálfu starfi og yfir safninu er fimm manna stjórn. Fjárveiting til safnsins á fjárlögum 1984 er 903 þús. kr.

Nú skal vikið að því frv. sem hér liggur fyrir. Þetta frv. var upphaflega samið af nefnd skipaðri af fyrrv. menntmrh. Ingvari Gíslasyni hinn 11. maí 1981. Nefndin skilaði endanlega störfum til rn. 25. mars 1982. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar allra þingflokka er þá áttu sæti á Alþingi. Frá Alþb. var Guðrún Helgadóttir, frá Alþfl. Vilmundur heitinn Gylfason, frá Sjálfstfl. Halldór Blöndal og frá Framsfl. Sigmar B. Hauksson. Einnig áttu sæti í n. Þorsteinn Jónsson frá Félagi kvikmyndagerðarmanna, Jón E. Böðvarsson frá fjmrn., en menntmrh. skipaði Indriða G. Þorsteinsson formann nefndarinnar án tilnefningar. Nefndin samdi nýtt lagafrv. um þessi efni en það var aldrei lagt fram. Það frv. sem hér er nú lagt fram er að meginstofni byggt á frv. nefndarinnar en þó hafa verið gerðar á því nokkrar breytingar. Helstu breytingar rn. á frv. nefndarinnar eru þessar:

1. Ekki er gert ráð fyrir því í frv. að sett verði á laggirnar ný ríkisstofnun, Kvikmyndastofnun Íslands, heldur er Kvikmyndasjóði ætlað að starfa áfram, en sjóðnum ætlað nokkuð víðtækara starfssvið en áður.

2. Haldið er þeirri hugmynd að sameina stjórn og starfsemi Kvikmyndasjóðs og Kvikmyndasafns í hagræðingar- og sparnaðarskyni svo að betur megi nýta starfslið og húsnæði, en að öðru leyti gert ráð fyrir að safnið starfi sjálfstætt með svipuðum hætti og verið hefur.

3. Aðaltekjur Kvikmyndasjóðs eru árlegt framlag úr ríkissjóði er skv. frv. nemi öllum áætluðum söluskatti af kvikmyndasýningum í landinu. Er þessi breyting í samræmi við sérálit Halldórs Blöndals á sínum tíma í nefndinni en á hinn bóginn er fellt niður ákvæði um ábyrgðir á lánum til kvikmyndagerðarmanna sem næsta óljóst er hvernig átti að framkvæma.

4. Nýmæli er ákvæði um skylduskil á kvikmyndum til Kvikmyndasafns.

5. Nýmæli er einnig að Kvikmyndasjóði er heimilað að láta starfsemi sína ná til myndbandagerðar og annarra tækninýjunga er tengjast hefðbundinni kvikmyndagerð.

Aðrar breytingar eru minni háttar.

Ég vil láta þess getið á þessu stigi að fram hefur komið nokkur efasemd af hálfu einstakra þm. í viðræðum um málið. Ég skal ekki segja hvort sú afstaða kann að koma fram í meðferð málsins í nefnd, en nokkrar efasemdir hafa komið fram um það að starfsemin ætti að ná til myndbandagerðar og annarra tækninýjunga, að það sé tekið fram í frv. Það má vel vera að þessu atriði ætti að breyta í n. enda e. t. v. ekki ástæða til þess að það sé sérstaklega tekið fram í frv. Ég er fús til þess að láta athuga þetta atriði betur ef hv. þingnefnd sýnist svo.

Þess skal getið að miðað við áætlaðan söluskatt á árinu 1982 hefðu tekjur sjóðsins numið 14.5–16 millj. kr. skv. þessu frv. sem nú liggur fyrir. Árið 1983 mun sölugjald af kvikmyndum hafa numið ca. 27.4 millj. kr. skv. upplýsingum sem fengust símleiðis frá ríkisskattstjóra í morgun. Þessi munur mun ekki síst liggja í verðbólguþróuninni á milli þessara tveggja ára.

Nokkur ágóði varð af fyrstu leiknu kvikmyndunum sem styrktar voru af Kvikmyndasjóði. Leiknar kvikmyndir voru nýmæli og því var aðsókn að þeim sérlega mikil og unnt að selja aðgang að þeim dýrara verði en að erlendum kvikmyndum. En eftir því sem leiknum íslenskum kvikmyndum hefur fjölgað hafa þær orðið að keppa við erlendar kvikmyndir um hylli áhorfenda og eigi notið þess í jafnríkum mæli og fyrst í stað að þær voru íslenskar. Nú má heita næsta vonlítið að gera leikna íslenska kvikmynd af nokkrum metnaði, eins og stundum er sagt, á þann veg að hún geti borið sig fjárhagslega af sýningum einvörðungu á innlendum vettvangi. Hins vegar er markaður erlendis erfiður og ótryggur og krefst mikils auglýsinga- og kynningarkostnaðar. En vissulega er von um að það borgi sig að leggja í slíkan kostnað þannig að mikill árangur verði af því kynningarstarfi svo vel sem íslenskum kvikmyndum hefur verið tekið á erlendum vettvangi í seinni tíð. En okkar íslensku leiknu kvikmyndir hafa borið hróður landsins um víða veröld er óhætt að segja.

Nýlega fengu íslenskar kvikmyndir sérstaka viðurkenningu á tveim stærstu og virtustu kvikmyndahátíðum í heiminum, í Berlin og í Cannes. Það verður nánast að teljast til kraftaverka hvernig þessi unga listgrein hefur risið úr öskustónni ef svo má segja og hafist til vegs og virðingar á örfáum árum. En okkar ungi kvikmyndaiðnaður eða kvikmyndalist á nú í erfiðleikum þó að hann taki örfleygum framförum bæði listrænt og tæknilega.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að íslenskir kvikmyndagerðarmenn fái ekki annan opinberan stuðning en frá Kvikmyndasjóði. Þeir hafa því orðið að veðsetja eigur sínar og sinna stundum til þess að geta skapað sín ágætu listaverk. Erlendis er ekki óalgengt að opinber styrkur til leikinnar kvikmyndar nemi u. þ. b. 50–75% af heildarkostnaði hennar, en styrkur Kvikmyndasjóðs hefur numið að jafnaði um 5–10%. Engin ofrausn væri því að auka nokkuð þennan stuðning og til þess er þetta frv. flutt. Það mundi auka öryggi í starfsemi og uppbyggingu þessarar listgreinar sem verður æ þýðingarmeiri fyrir land okkar að hún fengi fastan tekjustofn eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.

Í von um það, herra forseti, að þetta frv. geti hlotið afgreiðslu og samþykki á þessu þingi þó að nú sé orðið áliðið þings leyfi ég mér að leggja til að því verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn. þessarar deildar.