02.05.1984
Efri deild: 87. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5039 í B-deild Alþingistíðinda. (4457)

319. mál, kvikmyndamál

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vildi aðeins hv. þm. til upplýsinga skýra frá því að það liggur fyrir í rn. erindi einmitt um það atriði sem tveir hv. síðustu ræðumenn viku sérstaklega að um gjald erlendra aðila sem taka stórmyndir í íslenskri lögsögu, ef svo má segja. Það var vangá að ég gat þess ekki í framsöguerindi mínu en ég hafði hugsað mér að senda hv. n. afrit af þessum erindum sem liggja fyrir frá Félagi kvikmyndagerðarmanna einmitt um þetta atriði. Athugun er í gangi á vegum rn. á því hvort þarna kynni að vera um ákvörðun að ræða sem e. t. v. samrýmdist ekki þjóðréttarreglum eða reglum í samskiptum þjóða. Það þarf að athuga þetta atriði vel frá lagalegu sjónarmiði, bæði að því er varðar grundvallarreglur í skattalögum og framkvæmd þeirra og svo í samskiptum þjóða og skattlagningu erlendra aðila sem einhver störf stunda hér á landi, taka myndir eða ferðast um. Ef þetta fer ekki í bága við nein slík ákvæði þá fagna ég því snjallræði sem ég tel felast í fjáröflun af þessu tagi. Ég veit að Spánverjar hafa sams konar áhyggjur en þar munu amerískar kúrekamyndir vera teknar í stórum stíl.