02.05.1984
Efri deild: 87. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5041 í B-deild Alþingistíðinda. (4463)

167. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um frv. til l. um veitingu ríkisborgararéttar og hefur gert það með venjubundum hætti. Vinnubrögð voru þannig, eins og fram kemur í nál., að fulltrúar hv. allshn. í Nd. tóku þátt í athugun frumgagna þessa máls og einnig naut n. aðstoðar skrifstofustjóra Alþingis við athugun allra málsskjala. Var farið vandlega í gegnum þau öll.

Eins og venja hefur verið hafði bæst við allmikið af umsóknum frá því að frv. var lagt fram og þar til það var tekið til endanlegrar afgreiðstu í n. Á sérstöku þskj., 688, leggur n. því til að við bætist allmargir einstaklingar sem þar eru upp taldir ásamt með störfum og fæðingardegi og fæðingarstað. Þetta fólk fullnægir þeim skilyrðum sem gerðar eru kröfur um. Ekki var þó svo um allar umsóknir svo sem venja er og þær bíða þá síns tíma. Venjulega er það bara tími sem upp á vantaði.

Það er kannske sérstakt og ástæða til að vekja athygli á því, að hér er hópur víetnamskra flóttamanna sem skv. sérstakri ákvörðun ríkisstj. var boðið að koma hingað til lands til búsetu. Svo sem venja hefur verið í slíkum tilvikum, var gert í a. m. k. tveimur tilvikum áður, var hliðrað til með þær reglur sem gilda um lengd búsetu hér og annað að því er þetta fólk varðar og því er það hér með, því í rauninni er þetta fólk ríkisfangslaust og á engan kost að snúa til síns heima þótt það svo kysi.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð. N. leggur einróma til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem lögð er til á þskj. 668. Salome Þorkelsdóttir var fjarverandi afgreiðslu málsins í n.