02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5042 í B-deild Alþingistíðinda. (4470)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Frsm. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég talaði í þessu máli, um lán vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli, við 2. umr. og vakti máls á ýmsum atriðum þar og varpaði fram ýmsum spurningum sem ég hef raunar ekki fengið neitt svar við. Mig langaði til að ítreka þær spurningar til að rifja upp það sem ég aðallega gerði aths. við.

Þá gerði ég fyrst að umtalsmáli fjölda transit-farþega í Keflavík. Skv. gögnum sem voru lögð fram í fjh.- og viðskn. hefur slíkum farþegum farið mjög fækkandi. Þeim hefur fækkað um 100 þús. á fáum árum. Þetta skiptir mjög miklu máli vegna þess að flugstöðin á m. a. að hýsa þessa transit-farþega, en þeir eru allt frá því að vera helmingur niður í það að vera þriðjungur farþegaflæðisins á hverju ári. Við vitum að það eru ýmsar blikur á lofti í sambandi við farþegaflug yfir Atlantshafið og framtíð þess flugrekstrar sem Flugleiðir hafa haft þar með höndum. Skv. gögnum sem fjh.- og viðskn. bárust, reyndar af öðru tilefni, þar sem verið var að fara fram á niðurfellingu lendingargjalda, var 4 millj. dollara tap á Norður-Atlantshafsflugi Flugleiða árið 1983. Ef við rekjum þetta svolítið áfram getum við kannske sagt að við séum að fella niður lendingargjöld til að halda uppi Atlantshafsflugi til að halda uppi transitfarþegafjölda til að byggja upp flugstöð sem er allt of stór fyrir okkar eigin þarfir. Og svo töpum við stórfé á öllu saman.

Ég tel að það sé alveg glórulaust að fara lengra með þessar framkvæmdir fyrr en menn hafa aflað nákvæmra upplýsinga um í fyrsta lagi hverjar áætlanir Flugleiða eru á þessari flugleið, hvernig þær meta samkeppnisaðstöðu sína á næstu árum með tilliti til hugsanlegra breiðþotukaupa og þar fram eftir götunum. Og það er fásinna og það er ekki í anda ríkisstjórnar sem þykist stjórna með aðhaldi, arðsemi og sparsemi að hrinda af stað svona framkvæmdum án þess að hafa athugað hvað verður um allt að helming þess fólks sem á að vingsast í þessu ógnarlega rými. Og þetta er mín fyrsta spurning. Hún er þessi: Hverjar telur meiri hlutinn vera forsendur og framtíð Atlantshafsflugs yfir Norður-Atlantshaf? Það hlýtur að vera til góð áætlun um það í ljósi þeirrar ógnarlegu fjárfestingar sem á að fara í fyrir þetta fólk.

Í öðru lagi gerði ég hönnun þessarar flugstöðvar að umtalsefni. Ég las úr byggingarlýsingu flugstöðvar í Keflavík, sem húsameistaraembættið gaf út. Ég las kafla 2. 11, sem heitir „Þróun forms og útlits“. Ég ætla að leyfa mér að lesa hann aftur, með leyfi forseta. Þar stendur:

„Verður nú vikið að nokkrum atriðum sem afgerandi eru í tillögunni að svipmóti byggingarinnar:

1. Leitast er við að endurspegla í ytri formum þau megineinkenni innra fyrirkomulags sem mótast af flæði flugstöðvarinnar, þ. e. miðskip með hliðarskipum til vesturs og austurs.

2. Leitast er við að undirstrika íslensk séreinkenni í svipmóti flugstöðvarinnar, þ. e. að gera flugstöðina að íslensku atbrigði af alþjóðlegri flugstöð. Það stef, sem orðið hefur fyrir valinu sem íslenskt áhersluatriði, er gróðurhúsið, tákn orkulinda landsins.“

Síðan er í byggingarlýsingu vikið oftar að gróðurhúsinu, þessu nýja tákni orkulinda landsins og þessu séreinkenni íslenskrar byggingarlistar. Ég er ekki viss um að menn séu sammála um hver séreinkenni byggingarlist Íslendinga á og hvort gróðurhúsið sé beinlínis það sem ætti að vera þar efst á blaði. En mig langar til að koma þessu að. Það hafa ýmsir talið að þetta væri einhver uppfinning hjá þingflokki BJ, sem hefur fjallað um þessi gróðurhúsamál þarna fyrir sunnan, en það kemur skýrt fram í þessum gögnum að svo er ekki. Raunar var þess óskað í fjh.- og viðskn. að kveðja til umsagnar forsvarsmenn gróðurhúsabænda, en því var hafnað.

Ég held að þetta atriði, þ. e. þetta stóra glerhús sem á að byggja þarna, hljóti að vera þeim mönnum umhugsunarefni sem ætla að byggja með sparnað og aðhald í huga. Menn hljóta að velta fyrir sér því, hversu hagkvæmt þetta húsnæði er bæði í viðhaldi og rekstri.

Þá gerði ég aths. við hönnun hússins að öðru leyti. Þá gerði ég í fyrsta lagi aths. við stærð þar sem reiknað er með gífurlega stórum biðsal. Í þessum biðsal er 13 m lofthæð. Þetta er 2000 m2 biðsalur og það er í honum 13 m lofthæð. Til þess að menn geri sér svolitla grein fyrir þessum hlutföllum jafngildir þetta því að á þessum fleti, þessum biðsal farþeganna, er hægt að byggja einhvers staðar á milli 10 og 20 fjögurra til fimm hæða hús. Þetta er plássið sem menn eiga að hafa þegar þeir drekka bjórinn sinn úti á Keflavíkurflugvelli, og það dugir ekkert minna en að hafa 13 m til lofts.

Það komu fram hugmyndir um það hérna við 2. umr. hvort kannske yrði eitthvert meira framhald á dýragarðshugmyndum ríkisstj., sem þegar hefur fjallað um hinn óttalega bola og mundi kannske fara að sýna þarna aðrar dýrategundir að sveifla sér í köðlum í Keflavík, en um það hafa ekki borist svör frekar en við öðru sem spurt hefur verið um í þessari umr.

Það hlýtur að vera að menn sem eru að hugsa um aðhald, sparnað og arðsemi velti því fyrir sér hvort rými sé ekki varið á betri hátt en með þessu móti. Það voru gerðar aths. Í fskj. með þessum plöggum með minnihlutaáliti er bent á ýmsar leiðir til að minnka þetta pláss stórkostlega. Þetta var um hönnunina.

Auðvitað er hægt að gera ýmsar fleiri aths. og það er hægt að velta fyrir sér útreikningum og áætlunum um verðlag á hverja einingu flatarmáls eða rúmmáls í þessari flugstöð. Það er sama hvernig því er velt, í ljós kemur að áætlaður byggingarkostnaður þarna er mörgum sinnum meiri en við dýrustu byggingar sem byggðar eru á Íslandi, svo sem eins og K-byggingu Landspítala sem er og verður feiknarlega dýrt hús ef af verður vegna flókins og dýrs búnaðar. En jafnvel þessi dýru hús eru ódýrari en fyrirhuguð flugstöð.

Mig langar að spyrja talsmenn meiri hlutans, og ég ítreka þær spurningar, í fyrsta lagi hvaða gögn þeir hafi í höndunum um framtíð farþegaflugs yfir Norður-Atlantshaf, í öðru lagi hvort menn hafi velt því verulega fyrir sér í anda þeirra sparnaðarbylgju sem nú fer um stjórnkerfið að hanna þessa flugstöð upp á nýjan máta, gera hana minni og viðráðanlegri, hugsanlega þannig að hægt verði er að byggja hana í áföngum til að sníða hana að breytilegum þörfum og nýta betur peninga og pláss. Þetta eru mínar aðalspurningar, held ég, að þessu sinni.

Að síðustu vil ég ítreka að það er þörf úrbóta í flugstöðvarmálum og svo hefur lengi verið, en það er krafa sem við eigum öll, og við getum öll tekið undir að við úrbætur á því sviði sé haldið þannig á peningum að það þurfi ekki að verða okkur hugsanlega um stóra framtíð til ævarandi skammar og hönnuðum og reiknimeisturum til háðungar um mistök í áætlunum, eins og hefur gerst í sambandi við flugstöðvarmál í ýmsum borgum í heiminum.