02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5046 í B-deild Alþingistíðinda. (4473)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Frsm. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Í sambandi við þann samanburð á kostnaðartölum sem hv. 1. þm. Suðurl. fór með hér vil ég taka fram að í bréfi sem síðast barst frá varnarmáladeild var gerð á þessu leiðrétting, þar sem í ljós kom við nánari athugun að það hafði gleymst að reikna inn tölur um tolla og skatta af byggingarkostnaði við flugstöð. Þessar tölur áttu því að vera 10 og 15% hærri, og þegar sú leiðrétting hefur verið gerð og borið saman við raunverulega sambærilegar tölur um byggingarkostnaðinn hérlendis, þá erum við að tala um rúmmetraverð í flugstöð sem er komið talsvert á níunda þúsundið, nálægt níu þúsundum, á meðan viðmiðunarkostnaður Arkitektafélagsins, sem hv. þm. minntist á, er 7 500.

Í sambandi við mat á stærð eru það í raun þrjú atriði sem menn ættu að velta fyrir sér í sambandi við hönnun. Það er í fyrsta lagi stærðin hvað fermetrana varðar. Í þeim gögnum sem hv. þm. las kemur í ljós að fjöldi transit-farþega hefur dregist verulega mikið saman. Það er eitt atriðið. Og hvort sem menn trúa Flugleiðum í því efni og þeirra spám verður ríkisstj., sem ætlar að fara að eyða hundruðum milljóna, máttúrlega sjálf að mynda sér einhverja skoðun á því hver þessi framtíð muni verða. Það er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því og ég trúi ekki öðru en að einhvers staðar séu til gögn um það.

Þetta er það sem varðar fermetrana og það er sagt að þetta pláss, tveir fermetrar á hvern þeirra þúsund farþega sem eiga að geta hinkrað þarna samtímis, sé eðlilegt pláss skv., alþjóðastöðlum. En þá er spurningin: Hvað segja alþjóðastaðlar um rúmmetra per farþega? Í þeirri lofthæð sem farþegunum á Keflavíkurflugvelli er ætluð held ég nefnilega að farið sé langt yfir það sem alþjóðastaðlar mundu nokkurn tíma gefa upp, jafnvel þó þeir væru til. Ég trúi því ekki að mönnum finnist það skynsamleg hönnun að hafa slíka lofthæð og nýta svona illa það rými sem í byggingunni verður. Þetta er um flatarmál og rúmmál.

Í þriðja lagi ætla ég síðan að koma að þessu með glerhúsið. Stjórn sem er alltaf að tala um sparnað verður að hafa hægt um sig þegar hún hegðar sér með þessari óráðsíu, vegna þess að sá skal ekki grjóti kasta sem í glerhúsi býr. Ég tel að við munum sitja þarna uppi með flugstöð sem verði okkur minnisvarði um illa undirbúna, illa teiknaða og rándýra stöð. Og jafnvel þótt menn reyni að hugga sig við rekstraráætlun sem var gerð fyrir flugstöð og er dagsett árið 1981, þá er þess að gæta að eins og venjulega þegar reiknuð er út arðsemi rekstrar opinberra fyrirtækja á Íslandi þá er stofnkostnaður ekki tekinn með. Í þeirri rekstraráætlun er ekki gert ráð fyrir neinum fjármagnskostnaði eða neinum stofnkostnaði af þessari stöð. Og það er kannske ekki mikill vandi að láta fyrirtæki bera sig ef menn geta hagað reikningunum á þann hátt. En ég er ekki viss um að það sé í samræmi við heimspekistefnu hæstv. fjmrh. sem hefur marglýst því yfir að hann vilji reka ríkissjóðinn eins og duglegur framkvæmdastjóri reki sitt einkafyrirtæki. Þó að menn hafi nú vissar efasemdir um að ríkissjóður sé beinlínis sambærilegur við einkafyrirtæki er ég sannfærður um að framkvæmdastjóri í einkafyrirtæki, sem vill sýna aðhald og arðsemi og vera góður sjálfstæðismaður, kæmist ekki upp með annað en að taka fjármagnskostnað og afskriftir og þess háttar inn í rekstraráætlun sem hann væri að gera fyrir svona fyrirtæki.