02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5059 í B-deild Alþingistíðinda. (4490)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Félmn. hefur haft þetta frv. alllengi til athugunar. Borist hafa fjölmargar umsagnir og aths. og nefndin hefur kallað fyrir sig fjölmarga aðila á fundi sína. Þar hafa ýmis viðhorf komið fram og leiðbeiningar um þennan málaflokk, sem er svo viðkvæmur sem raun ber vitni og skoðanir skiptar um það hversu að honum skuli staðið. Hinn 26. apríl s. l. afgreiddi n. málið síðan frá sér. Skiptist hún í þrjá hluta í afstöðu sinni til málsins eins og fram kemur á nál.

Ég vil fyrst segja það um húsnæðismálin almennt að þegar ríkisstj. var mynduð var því þegar slegið föstu að húsnæðismálin skyldu hafa mikinn forgang og að því skyldi stefnt að lán til húsnæðismála, lán Byggingarsjóðs ríkisins, yrðu hækkuð mjög verulega. Varð það niðurstaðan að sú hækkun kom til framkvæmda strax á s. l. ári, enda hafði verðbólgan leikið húsbyggjendur og húskaupendur mjög grátt á árunum 1982 og 1983 og sérstakur hópur mjög fjölmennur, sem myndaður hafði verið, gat fært fyrir því gild rök að til vandræða horfði og ýmsir húsbyggjendur stæðu frammi fyrir neyðarkostum nema hið opinbera gripi inn í og veitti þeim nokkra leiðréttingu.

Sú nefnd sem samdi þetta frv. hafði þessi sjónarmið til viðmiðunar. Í aths. við lagafrv. segir með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur tekið mið af þeirri samþykkt er ríkisstj. gerði á fundi sínum þann 22. sept. s. 1. varðandi húsnæðismál. Þá var samþykkt till. félmrh. um eftirfarandi breytingar á útlánareglum Byggingarsjóðs ríkisins frá 1. jan. 1984:

„1. Öll lán hækki um 50%.

2. Nýbyggingarlán til þeirra sem byggja eða kaupa í fyrsta sinn skulu greidd í tveim hlutum, þ. e. fyrri hlutinn mánuði eftir fokheldisstig og seinni hlutinn sex mánuðum frá útborgun fyrri hlutans. Útborgun lána til annarra skal vera óbreytt frá því sem nú er.

3. Nýbyggingarlán lengist úr 26 árum í allt að 31 ár.

4. Lán til kaupa á eldra húsnæði lengist úr 16 árum í allt að 21 ár.

5. Öll lán verði afborgunarlaus fyrstu tvö árin.

6. Gjalddögum húsnæðislána verði fjölgað í fjóra á ári.“

Á sama fundi ríkisstj. var ákveðið að hækka lán til nýbygginga og lán til kaupa á eldra húsnæði á árunum 1982 og 1983 um 50% til þess að leysa úr fjárhagsvanda húseigenda. Þá var gert samkomulag við Samband viðskiptabanka og Samband sparisjóða um lengingu þeirra lána í 8 ár sem veitt höfðu verið til nýbygginga eða kaupa á húsnæði eftir 1. jan. 1981.

Þá er yfirlýst markmið ríkisstj. að húsnæðislánakerfið verði eflt svo á næstu árum að lánin geti numið allt að 80% byggingarkostnaðar eða kaupverðs íbúðar hjá þeim sem eru að eignast íbúð í fyrsta skipti. Með hliðsjón af fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs taldi nefndin ekki efni til þess að leggja til að á næsta ári yrði gengið lengra en samþykkt ríkisstj. frá 22. sept. s. 1. gerir ráð fyrir um lánveitingar úr honum.

Í þessu sambandi leggur nefndin áherslu á að óraunhæft er að miða við lán Byggingarsjóðs eins þegar lánshlutfall er metið. Verulegur hluti af lánum lífeyrissjóða rennur til öflunar húsnæðis. Þá minnir nefndin á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. er lögð áhersla á „fjölbreyttari sparnaðarform fyrir almenning, t. d. samningsbundinn sparnað, tengdan rétti til húsnæðislána.“ Eftir þessum þrem leiðum verður að afla fjár til húsnæðislánakerfisins til þess að ná því marki að lánin fari upp í 80% á næstu árum.“

Ég hef í sjálfu sér litlu við þessi orð að bæta. Það sem hér var gefið fyrirheit um hefur ræst í þeirri úflánaáætlun sem húsnæðismálastjórn hefur gert fyrir þetta ár. Er gert ráð fyrir að það standi að þeir sem eru að kaupa eða byggja íbúðir í fyrsta sinn fái sinn hluta greiddan eins og hér er sagt: á fyrsta mánuði eftir fokheldisstig helming lánsfjárins og hinn helminginn sex mánuðum síðar. Þetta eru um 35% af nýbyggingum sem falla undir Byggingarsjóð ríkisins. Þetta er auðvitað mjög mikið og verulegt átak. Ef við miðum við verðgildi lánsfjárins er vafalaust að þeir sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta skipti fá nú fyrirgreiðslu úr byggingarsjóði ríkisins sem er meira en 100% betri en gerðist fram að myndun þessarar ríkisstj. Ég held að það sé alveg vafalaust, þegar tekin er hliðsjón af verðbólgustiginu á undangengnum árum.

Leiðréttingin hjá þeim sem áttu íbúð fyrir er líka mjög veruleg. Sem hlutfall af byggingarkostnaði staðalíbúðar nemur leiðréttingin 50%, en ef tekin er hliðsjón af minnkandi verðbólgu og stöðugra ástandi í efnahagsmálum en verið hefur á næstu árum á undan er augljóst að þar er líka um verulega hækkun að ræða, sem að raungildi liggur vafalaust milli 50 og 100%, kannske nær 100% en 50%.

Um þetta hef ég ekki fastar tölur, enda erfitt að reikna það nákvæmlega út fyrr en við sjáum hver verðbólguþróunin verður. En það er augljóst af almennum blaðaskrifum og viðbrögðum almennings og ástandi í þjóðfélaginu að þessar ráðstafanir hafa komið mjög að notum og raunar orðið meiri en menn þorðu að gera sér vonir um í upphafi. Ég vil að þetta komi skýrt fram.

Ég vil einnig taka það fram vegna ummæla hér í nál., a. m. k. á einum stað, þar sem talað er um að um verulegar vanefndir verði að ræða í þessu efni, að eftir þeim upplýsingum sem ég hef er ekki hægt að nota um það sterk orð. Svo getur að vísu farið að greiðslur tefjist um einn mánuð eða svo frá því sem áður hefur verið hjá þeim sem eru að byggja og eiga íbúð fyrir eða hjá þeim sem eru að kaupa notaða íbúð. Og þó svo að þessir mánuðir séu des. og jan., sem þarna er um að ræða, er hæpið að tala um það sem einhvern óskaplegan samdrátt milli ára. Hitt er réttara að segja, eins og satt er, að greiðslur í lok ársins geti e. t. v. dregist fram yfir áramót. Það er þá dráttur um einn mánuð en ekki eitt ár, ef menn vilja vera sanngjarnir í umfjöllun sinni um þessi mál. Ég vil að þetta komi alveg skýrt fram. En það hefur verið svo fram að þessu, ég held að ég fari rétt með það, að þeir sem voru að eignast íbúð í fyrsta skipti urðu að sitja við sama borð og aðrir, þ. e. fengu greiðsluna í þrennu lagi, fyrst 1–2 mánuðum eftir fokheldisstig og síðan annan og þriðja hlutann sex mánuðum síðar.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að þeim brtt. sem meiri hl. n. leggur til. Það er þá fyrst 2. brtt. sem er við

9. gr., 2. tölul. 9. gr. orðast svo í frv. að fjár í Byggingarsjóð skuli aflað með árlegu framlagi úr ríkissjóði skv. fjárlögum sem nemur eigi lægri fjárhæð en 40% af samþykktri útlánaáætlun sjóðsins viðkomandi ár. Við leggjum til að við bætist: sem samþykkt er af félmrh. og fjmrh.

Ástæðan fyrir því að meiri hl. nefndarinnar leggur til að þessi orð bætist við er sú, að reynslan hefur sýnt að lagabókstafurinn einn hefur ekki nægt til þess á undanförnum árum að Byggingarsjóður fengi það fé sem honum er ætlað lögum skv. Með því að félmrh. og fjmrh. standi sameiginlega að útlánaáætlun sjóðsins telur meiri hl. n. betur tryggt en ella að við þetta fyrirheit verði staðið. Ég vil taka skýrt fram að þessi viðmiðun, 40%, var ekki valin út í bláinn heldur ákveðin að vel yfirlögðu ráði og eftir að gerð hafði verið af Þjóðhagsstofnun nákvæm úttekt á afkomu Byggingarsjóðs, greiðslustöðu hans og við hverju mætti búast á næstu árum.

Allítarlega er um þennan þátt fjallað í grg. frv. og sé ég ekki ástæðu til að ítreka það, en vil á hinn bóginn benda á að í till. Alþfl. er einnig gengið út frá þessu sama hlutfalli að bein fjárframlög úr ríkissjóði nemi 40% af greiðsluáætlun sjóðsins. Eru mjög athyglisverðar töflur í nál. 1. minni hl. sem styðja að þar sé skynsamlega valið. Skv. þeim töflum kemur það fram að fyrir áramót muni lántökuþörf til Byggingarsjóðsins hverfa ef gengið er út frá óbreyttu lánshlutfalli, 29% af staðalíbúð, en jafnvel þótt keppt sé að því og því marki náð að sjóðurinn láni 80% af staðalíbúð á næstu árum mun mjög skammt í það, eða ekki nema 8 ár, að sjóðurinn komist yfir erfiðasta hjallann.

Þetta er mjög athyglisvert og sýnir raunar að það er rétt stefnumörkun nú, þegar almenn verðtrygging fjárskuldbindinga hefur verið tekin upp, að gera ráðstafanir til þess að eigið fé Byggingarsjóðs vaxi svo á næstu árum að lántökuþörf verði mun minni og hverfandi miðað við það sem nú er. Ég get á hinn bóginn vegna reynslunnar ekki tekið undir það að bein tilvísun til tekna af launaskatti sé trygging fyrir því að slíkt fé skili sér í Byggingarsjóð ríkisins, vegna þess að það hefur komið fyrir, og mjög nýlega raunar, að í lánsfjárlögum hafi slíkur tekjustofn verið skertur þrátt fyrir skýr ákvæði laga um hið gagnstæða. Nægir að fara aftur til áranna 1979 og 1980 í þeim efnum.

Við 10. gr. er lítilfjörleg breyting. Þar er gert ráð fyrir því að afgreiðsla lána úr Byggingarsjóði og innheimta fari fram í almennum lánastofnunum sem húsnæðismálastjórn semji við. Ástæðulaust er að lögbinda að greiðsla fyrir slík störf eða þóknun fari fram eftir fyrirframgerðu samkomulagi. Er lagt til að fella það niður enda ástæðulaust eða raunar óþarft.

Í 17. gr. er gert ráð fyrir að lengja lánstíma úr 16 árum í 21 ár.

Við 20 gr. er hins vegar breyting sem er efnisríkari og lýtur að útrýmingu heilsuspillandi íbúðarhúsnæðis. Eins og greinin er orðuð er gert ráð fyrir því að lán í slíku skyni sé aðeins heimilt að veita sveitarstjórnum sem með skipulegum hætti vinni að útrýmingu heilsuspillandi íbúðarhúsnæðis í sveitarfélögum. Í brtt. n. er gert ráð fyrir því að öðrum sé það einnig frjálst. Telur meiri hl. að ekki eigi að binda slíkt átak við sveitarstjórnir heldur skuli öðrum vera frjálst að vinna að þessu markmiði sem allir hljóta að vera sammála um að æskilegt sé að ná eins fljótt og kostur er. Þarf ég ekki að hafa frekari orð um það.

Ég vil næst víkja að brtt. við 44. gr. til þess að tefja ekki um of og fara ekki of nákvæmlega í sakirnar. Þetta skýrir sig að öðru leyti sjálft. Í frv. er gert ráð fyrir því að tekjuviðmiðun varðandi rétt til kaupa á íbúð í verkamannabústöðum sé með þeim hætti að í krónutölu skuli miðað við næstliðin þrjú ár. Sú tala sem fundin er í frv., 141 þús. kr., er miðuð við meðaltöl tekna á árinu 1980, 1981 og 1982. Nú er launaþróun mjög mismunandi eftir árum, fer m. a. eftir verðbólgustigi og öðru slíku. Meiri hl. nefndarinnar telur að réttara sé að miða við eitt ár í krónutölu eða miða við fasta krónu ef svo má segja. Hér er gert ráð fyrir 318 þús. kr. fyrir einhleyping eða hjón, sem er nákvæmlega sama tala og þau meðaltöl tekna sem miðað er við í frv. eftir þeim upplýsingum sem nefndin hefur fengið. Þarf ég ekki að hafa um það fleiri orð. Ég geri ekki ráð fyrir því að um þetta sé í rauninni ágreiningur.

Við 46. gr. er smábreyting sem er nánast leiðrétting. Við 47. gr. 1. mgr. er brtt. sem er nánast leiðrétting, nákvæmara orðalag en áður, en eftir að brtt. var lögð fram fékk ég ábendingu um að réttara væri að halda því orðalagi sem er í 47. gr.: „að gera upp byggingarkostnað“ í staðinn fyrir að ákveða byggingarkostnað. Mun ég leiðrétta það í samráði við forseta. Hvort það verði gert með beinni brtt. eða úr forsetastóli skal ég ekki segja, en þarna er um mistök að ræða og ég hef fengið leiðbeiningu um að þetta sé til hins verra. Að öðru leyti stendur brtt. fyrir sínu. Efnislega er hún engin, aðeins betra orðalag um það sem þar getur.

Í brtt. við 49. gr. er talað um að húsnæðismálastjórn veiti lán úr Byggingarsjóði verkamanna til hverrar íbúðar sem byggð er eða keypt sem verkamannabústaður skv. lögum þessum. Sagt er: „Lánið má nema allt að 80% af kostnaði staðalíbúðar skv. 32. gr. þessara laga, þó ekki hærri fjárhæð en 80% af byggingarkostnaði þeirrar framkvæmdar sem í gangi er.“ Þessi brtt. er mjög þýðingarmikil: „. . . þó ekki hærri fjárhæð en 80% af byggingarkostnaði þeirrar framkvæmdar sem í gangi er.“ Óeðlilegt er að lán geti orðið hærri en 80%, þó svo að um verkamannabústaði sé að tefla, á sama tíma og okkur hefur ekki tekist að lyfta lánum á hinum almenna byggingarmarkaði hærra en raun ber vitni eða í 29.5%. Ég geri mér grein fyrir að þetta getur verið álitamál en þetta er skoðun nefndarinnar.

Við 50. gr. er smáinnskot: „. . . eftir gildistöku laga nr. 51/1980“, sem er leiðrétting.

Við 51. gr. er gerð sú breyting að við endursölu á íbúð í verkamannabústað skuli gefa svigrúm til þess að samkomulag náist um endurbætur og viðhald sem gert hefur verið á íbúð. Ég held að það sé til bóta og eigi ekki að geta sakað neinn.

Við 63. gr. er brtt. sem ég tel eðlilega. Þar segir í 3. mgr., með leyfi hæstv. forseta: „Heildarkaupverð má þó aldrei vera hærra en sannanlegt markaðsverð sambærilegra íbúða á staðnum, sbr. ákvæði 5. mgr. 41 gr.“ Síðan bætist við: „Heimilt er að lækka útreikning eða afskrifa eftirstöðvar lána úr Byggingarsjóði verkamanna eða Byggingarsjóði ríkisins í sama hlutfalli og verð íbúðar.“ Þetta lýtur að því að þar sem söluverðið er ákveðið skv. sérstöku mati sé eðlilegt að þeir sem standa að íbúðinni, bæði þeir sem lánað hafa til hennar og sá sem á íbúðina, tapi jafnmiklu ef um lækkun á kaupverði verður að ræða vegna lélegra markaðsaðstæðna viðkomandi staðar. Ég geri ekki ráð fyrir því að um þetta verði ágreiningur.

Hins vegar kemur ný grein á eftir 65. gr. sem er þýðingarmikil og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Heimilt er félagsmönnum í byggingarfélögum verkamanna, sem annast sameiginlegt viðhald á íbúðum félagsmanna, að stofna húsfélög í samræmi við ákvæði laga nr. 59/1976, um fjölbýlishús, þannig að húsfélögin taki sameiginlegt viðhald í sínar hendur. Félmrh. setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þeirrar greinar.“

Ástæðan fyrir því að þessi grein er tekin upp er sú að sums staðar háttar svo til að mörg hús eru í sama byggingarfélagi eða húsfélagi í þeim skilningi og hefur það valdið nokkurri óánægju og deilum hvernig staðið hefur verið að sameiginlegu viðhaldi á íbúðum. Rétt þykir að gefa því fólki sem býr í sama sambýlishúsi möguleika á því að taka viðhald í sínar hendur og varla hægt að sjá að það eigi að vera verðtryggt með þeim hætti sem nú að húsum sé sómasamlega viðhaldið. Rétt þótti hins vegar að félmrh. setti nánari reglugerð um framkvæmd greinarinnar. Þarna koma ýmis atriði til sem vel þarf að íhuga og nauðsynlegt er að athuga mjög nákvæmlega sem nefndinni gafst ekki kostur á á þeim stutta tíma sem liðinn er síðan þetta atriði kom upp innan nefndarinnar. Ég hygg að flestir hv. alþm. séu sammála um að hér sé um réttlætismál að tefla og nauðsynlegt að hafa um það skýr ákvæði.

Við 69. gr. er nýtt efnisatriði og raunar um skyldusparnaðinn. Ég vil þá fyrst segja það almennt um skyldusparnað að hann er að sjálfsögðu ekki sú sama tekjulind fyrir Byggingarsjóð og áður af þeim augljósu ástæðum að ungu fólki fjölgar ekki í árgöngum með sama hætti og áður var. Enn fremur er skyldusparnaðarféð betur ávaxtað en áður var innan Húsnæðisstofnunar. Loks má á það benda að á undanförnum misserum hefur verðtrygging fjárskuldbindinga numið verulega hærri fjárhæð en launaþróun eða hækkun launa. Loks er það staðreynd að fleira ungt fólk en áður fer til náms sem skerðir afrakstur Húsnæðisstofnunar af skyldusparnaði auk þess sem fleira fólk en áður stofnar til hjúskapar á unga aldri. Allt þetta verður til þess að draga úr tekjum af skyldusparnaði auk þess sem heimildir til undanþágu er rýmri nú en áður og meira notaðar.

Meiri hl. n. treystir sér á hinn bóginn ekki til að víkka út skyldusparnaðinn eða fara í róttækar aðgerðir í því skyni, enda, eins og ég sagði áðan, tók n. þá stefnu fram yfir að reyna að byggja upp eigið fé Byggingarsjóðs með hærri fjárframlögum úr ríkissjóði en áður og ná því markmiði eftir þeirri leið.

Eigi að síður hefur niðurstaðan orðið sú að koma nokkuð meiri festu á framkvæmd laga um skyldusparnað en áður með því að lagt er til að ekki sé heimilt að endurgreiða þeim sem nám stunda skyldusparnaðinn á sama ári og til hans er stofnað. Þetta hefur nokkra rýmkun í för með sér á þessu ári fyrir Byggingarsjóð sem nemur sennilega um 100 millj. kr. en það er að sjálfsögðu aðeins í eitt skipti. Síðan kemur þetta út á eitt og skiptir ekki máli til frambúðar. En fyrir þessu má líka færa þau almennu og uppeldislegu rök að það sé heilbrigt mark í sjálfu sér fyrir ungt fólk sem er í skóla að það geti af öðru fé sem til skyldusparnaðar heyrir haldið nægilegu til hliðar til þess að hefja skólanám og að það sé því góð búbót að fá 15% af laununum eftir áramótin þegar hin síðari önn byrjar. Ráðstöfun af þessu tagi, þó að skylda sé, ætti því að sýna fram á gildi sparnaðar og þess að halda nokkru eftir af sjálfsaflafénu til síðari tíma.

Ég get svo almennt sagt það að þróunin af skyldusparnaðinum hefur verið sú á þessu ári að verulega meira fé hefur farið út en inn. Er það eins og ég sagði áðan sumpart vegna þess að verðtrygging skyldusparnaðarins hefur verið meiri á undanförnum árum og þar munar mest hjá þeim sem eru 26 ára og í öðru lagi vegna þess að laun hafa ekki hækkað eins.

Ég vil jafnframt koma inn á eitt atriði enn. Nefndin og einstakir nm. hafa fengið allmörg erindi vegna húsnæðissamvinnufélags sem stofnað hefur verið og ber heitið Búseti. Í nál. meiri hl. félmn. er vikið sérstaklega að þeirri félagsstofnun og hvort félagar í því geti vænst lánafyrirgreiðslu skv. því frv. sem hér liggur fyrir. Ég vil í því sambandi leggja áherslu á það hvert orðalag c-liðar 33. gr. er, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Leiguíbúðir, sem byggðar eru eða keyptar af sveitarfélögum, stofnunum á þeirra vegum og/eða ríkisins eða félagssamtökum og ætlaðar eru til útleigu við hóflegum kjörum fyrir námsfólk, aldraða, öryrkja og aðra sem ekki hafa aðstöðu til þess að eignast eigið húsnæði við hæfi.“

Þetta orðalag er alveg skýrt. Það liggur ljóst fyrir að hér hefur verið komið upp félagslegu kerfi fyrir þá sem við köllum láglaunafólk. Kjarni þess hefur verið verkamannabústaðakerfið sem er þannig byggt upp að viðkomandi greiði sem svarar vöxtum og afborgunum af lánum, 80% af byggingarkostnaði, sem veitt eru til lengri tíma en önnur lán jafnframt því sem íbúar í þessum húsum hafa staðið undir viðhaldi og rekstri húsanna.

Ætlun húsnæðissamvinnufélagsins Búseta er sú að meðlimir Búseta greiði hið sama og þeir íbúar sem eru í verkamannabústöðum, þ. e. standi undir vöxtum og afborgunum af lánum, greiði sameiginlegt viðhald og beri kostnað af sameiginlegum rekstri slíkra húsa. Það er ekki skoðun meiri hl. félmn. að búseturéttarfyrirkomulagið tæki við af verkamannabústöðunum. Búseturétturinn, eins og hann er skilgreindur í þeim lögum sem ég hef séð frá Búseta, er mjög óglöggur og þörf á því fyrir ríkisvaldið að fjalla ítarlegar um þann rétt ef hugmynd er að veita slíkum félögum sérstakan forgang eða betri aðgang að lánsfjármagni en öðrum, auk þess sem hvergi stendur hvernig farið verður með slit á slíku félagi eða gjaldþrot ef til kemur. (Gripið fram í: Eiga þeir þá ekki aðgang að Byggingarsjóði verkamanna?) Hv. þm. er vel um það kunnugt að meiri hl. n. lítur svo á að hvorki húsnæðissamvinnufélagið Búseti né önnur félög, sem stofnuð eru til þess að byggja leiguíbúðir á almennum markaði, falli undir þá grein. Það stendur hér skýrt og skorinort og við það hefur ekki verið gerð athugasemd svo að ég muni: „Leiguíbúðir, sem byggðar eru“ o. s. frv. „og ætlaðar eru til útleigu við hóflegum kjörum fyrir námsfólk, aldraða, öryrkja og aðra sem ekki hafa aðstöðu til að eignast eigið húsnæði við hæfi.“

Nú skal ég ekki segja hvort það geti kallast hófleg kjör í huga einhvers alþm. að leigja mönnum húsnæði á þeim skilmálum að leigjandi verði án þess að öðlast eignarrétt að greiða afborganir af lánum, lánskostnað, sameiginlegan rekstur við að halda uppi slíku félagi, auk þess sameiginlegt viðhald og annað sem til fellur, án þess að fá í staðinn eignarrétt á íbúðinni svo sem er um verkamannabústaði. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann hvort hann geti lokið ræðu sinni á stuttum tíma. Það er komið fram yfir venjulegan þingfundartíma.) Ég vildi gjarnan tala eftir að fundur kemur aftur saman. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þegar ég gerði hlé á ræðu minni fyrr í dag var ég að fjalla um búsetuíbúðir. Um það vil ég segja að síðustu að það er takmarkað fé sem er til ráðstöfunar til húsnæðismálakerfisins og augljóst er að ef opnaður er möguleiki fyrir því að tillekinn byggingarflokkur, sem ákveðin félagasamtök standi að, fái mun hærri lán en eru á hinum almenna markaði þá þýðir það sjálfkrafa lækkun á lánum hjá öðrum meðan ekki er svo mikið fé til umráða að kallast megi ótakmarkað.

Ég man ekki betur en búseturéttarmenn hafi gert kröfu um það að fá sem svarar 90% af byggingarkostnaði staðalibúðar. Nú er lánað til íbúða á almennum markaði um 30%. Ef við tökum tvær slíkar íbúðir og deildum í það með tveimur mundi það þýða að um 60% af íbúðarverði staðalíbúðar kæmi á hvora íbúð. Þegar bætt er við þeim rétti sem almenningur hefur nú á lífeyrissjóðslánum er auðséð að lánsfyrirgreiðsla á að vera ærin og þess vegna út í hött að vera með slíka mismunun. Miklu heilbrigðara er að ríkisstj. standi við sitt fyrirheit um að hækka almennt lán til íbúðabygginga eins og er í stjórnarsáttmála og eins og ég hef áður vikið að. Ef það markmið næst fram munu deilur af þessu tagi hverfa af sjálfu sér.

Á hinn bóginn vil ég undirstrika hver sé tilgangurinn, eins og ég sé hann, á bak við c-lið 33. gr. Þar er gert ráð fyrir því að sveitarfélög, stofnanir á þeirra vegum eða ríkisins eða félagssamtök, sem vilji byggja yfir aldraða eða öryrkja, fái til þess nokkuð ríflegri fyrirgreiðslu en almennt er. Er það rökstutt með því að þessi þjóðfélagshópur býr alls ekki við þann húsakost sem æskilegt er en á hinn bóginn ýmsir sem vilja létta undir með því að leiguíbúðir fyrir slíka geti risið og orðið ódýrari í rekstri en ef þessar íbúðir ættu algerlega að standa undir sér sjálfar. Sömuleiðis er gert ráð fyrir því að þarna opnist möguleiki fyrir stúdentagarða eða fyrir hjónagarða fyrir aðra námsmenn í framhaldsskólum og skal ég ekki fara nánar út í það. En ég sem sagt undirstrika að skv. mínum skilningi og eins og þetta ákvæði er til komið var ekki gert ráð fyrir því að almennar leiguíbúðir féllu undir þetta ákvæði heldur undir a-lið, undir tölulið 1 í 11. gr.

Nefndinni barst bréf frá byggingarsamvinnufélaginu Aðalbóli og sé ég ástæðu til að lesa það upp, með leyfi hæstv. forseta, en það snertir þann kafla laganna sem fjallar um byggingarsamvinnufélög. Það er svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Inn í kaflann verði bætt ákvæði þess efnis að þegar hver byggingarflokkur hefur að fullu gert upp, svo og allir einstaklingar innan flokksins, geti hann sem heild sagt sig úr félaginu að loknum tilleknum biðtíma, t. d. 5 árum. Til athugunar væri að þetta væri gagnkvæmt, t. d. að aðalfundur gæti ákveðið að þeir byggingarflokkar, sem uppfylla framangreind skilyrði, teldust ekki lengur til félagsins. Nánar mætti svo kveða á um þetta í samþykktum hvers félags.“

Svo mörg voru þau orð. Hér er vikið að þýðingar miklu ákvæði. Þetta bréf barst hins vegar svo seint að nefndin hafði ekki svigrúm til þess að gaumgæfa innihald þess né gera efnistill. um málið og hlýtur það að verða til athugunar hversu við þessu erindi skuli snúast. Þetta er engan veginn einfalt mál og þarf að kynna sér samþykktir hvers einstaks byggingarsamvinnufélags til þess að geta áttað sig á því hvernig við þessari beiðni skuli verða. En eins og ég sagði hefur ekki gefist tími til þess, en það er til athugunar þótt síðar verði og þótt það komi ekki til afgreiðslu á þessu þingi sem nú situr.

Ég vil svo, herra forseti, að lokum taka fram að mér hefur ekki unnist tími til þess að gaumgæfa sem skyldi þær brtt. sem fram hafa komið við frv. frá minni hl. félmn. en mun hafa samband við flm. um þau atriði sem ég mundi óska eftir að yrðu athuguð nánar.