02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5103 í B-deild Alþingistíðinda. (4493)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti. Ég vil nú aðeins, áður en ég tek til að ræða frv. sem hér liggur fyrir, víkja að nokkrum orðum sem hv. þm. Svavar Gestsson viðhafði hér áðan. Það er að vísu fremur algengt að hann viðhafi þessi orð. Hann var í þessu tilviki að ræða um það, að ef félmrh. ætti í einhverjum vandræðum með hv. þm. Halldór Blöndal skyldi stjórnarandstaðan auðvitað hlaupa undir bagga og hjálpa honum. Ég vil bara benda hv. þm. á það, að hann getur talað fyrir sjálfan sig í stjórnarandstöðu, hugsanlega samflokksmenn sína, ég veit það þó ekki, varla alla, en alls ekki fyrir mig, og ég efa að hann geti talað fyrir aðra. (JBH: Ja, fyrir sjálfan sig getur þm. talað.) Já. Það getur hann gert en alls ekki tekið það fram að stjórnarandstaðan muni sem heild gera eitt eða annað sem hann hefur ekki borið undir hana. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann viðhefur þessi orð og þar sem svo vel bar í veiði að ég fór í stól á eftir honum hugsaði ég mér að nota tækifærið. Og ég er ekki ema manneskjan sem tekið hefur eftir þessu og haft hug á að andmæla því.

Virðulegi forseti. Í frv. því um Húsnæðisstofnun sem hér liggur fyrir til 2. umr. eru ýmsar nýjungar sem ótvírætt eru til bóta og sem ástæða er til að vekja athygli á og fagna. Í því sambandi má nefna hækkun lána og lengingu lánstíma þó að okkar mati í Bandalagi jafnaðarmanna sé þar enn ekki gengið nógu langt. Þá má nefna það nýmæli að lán verða afborgunarlaus fyrstu tvö árin og aukningu fastra tekjuliða skv. 9. gr. 2. tölul. ásamt hraðri afgreiðslu lána til þeirra sem eru að eignast sína fyrstu íbúð. Aftur á móti eru önnur ákvæði í frv. sem eru ótvírætt mikið spor aftur á bak og þarf að taka hér til umr. ekki síður en það sem er jákvætt að segja um frv.

Þar er þá fyrst að nefna að eigið framlag þeirra sem kaupa nýjar íbúðir í verkamannabústöðum er nú hækkað. Í stað þess að lánshlutfallið verði 90% eins og það er skv. núgildandi lögum er nú gert ráð fyrir að lækka það niður í 80%. Eigið framlag þeirra sem ætla má að í flestum tilfellum séu þeir tekjulægstu í þjóðfélaginu er með þessu móti hækkað. Væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hvernig ríkisstj. hefur reiknað það dæmi, að þetta fólk geti, eftir nýyfirstaðnar kaupskerðingar og kaupmáttarrýrnun, hækkað eigið framlag til þessara mjög svo nauðsynlegu framkvæmda. Þetta verður þess valdandi að stækkandi hópur lágtekjufólks hefur alls engin tök á því að eignast nýja íbúð í verkamannabústöðunum. Það hefur þar með litla sem enga möguleika til að komast í öruggt húsaskjól og verður tilneytt að flýja út á hinn mjög svo ótrygga leigumarkað, nema því aðeins að önnur úrræði svo sem búseturéttaríbúðir, verði því tryggð.

Sú breyting sem boðuð er varðandi lán til kaupa á notuðum íbúðum er að því er best verður séð til þess fallin að verulega muni draga úr kaupum á slíkum íbúðum og er þar sannarlega stigið spor aftur á bak. Forkaupsréttarkerfið, sem við lýði hefur verið á verkamannabústöðunum, er nú skv. þessu frv. fellt niður í þeirri mynd. Þetta gerir það að verkum að fjöldi efnalítils fólks, sem ekki hefur möguleika til að leysa húsnæðisvandamál sín nema í gegnum verkamannabústaðina, getur ekki fengið lausn sinna mála.

Svo að ég minnist aðeins á 36. gr., þar sem fjallað er um skipan stjórnar verkamannabústaðanna, þá er með því að fjölga fulltrúum sveitarstjórna í stjórn verkamannabústaðanna úr þremur í fjóra verið að ganga mjög á rétt verkalýðsfélaganna. Get ég ekki séð neina ástæðu til þess að það geti ekki áfram ríkt fullkomið jafnræði milli verkalýðshreyfingarinnar annars vegar og sveitarstjórna hins vegar eins og verið hefur. Ég segi þetta vegna þess að ég hef ekki heyrt nein þau rök sem mæla með því að fulltrúum sveitarstjórnanna verði fjölgað í þessum stjórnum. Þar virðist hafa ríkt fullkomin samstaða og samvinna og hafa verið unnið vei. Þegar málum er svo komið get ég ekki séð neina ástæðu til að breyta slíku kerfi.

Það er auðvitað ljóst að það fyrsta sem til þarf að koma, ef um á að vera að ræða raunhæf fyrirheit um lengingu lánstíma og bætt lánakjör yfirleitt, sem að mörgu leyti virðast felast í þessu frv. við fyrstu sýn, að ég tali nú ekki um ef raunverulega er verið að bjóða upp á þann nýja valkost sem búseturéttarfyrirkomulagið er, það fyrsta sem til þarf að koma er samstaða. Og þá á ég við pólitíska samstöðu og þá fyrst og fremst auðvitað innan stjórnarflokkanna, en mér hefur sýnst hér í kvöld að hún eigi langt í land. Auk þess virðist mér vanta allnokkuð upp á að þau loforð — ég vil næstum því ganga svo langt að segja tálvonir - sem gefin voru í kosningunum s. l. vor varðandi þessi atriði séu efnd.

Það er engum blöðum um það að fletta að brýna nauðsyn ber til að taka alla fjármögnun húsnæðislánakerfisins til ítarlegrar endurskoðunar. Þessu kerfi þarf nauðsynlega að koma f traustan farveg og ekki hvað síst að koma á samfellu í húsnæðislánakerfinu þannig að um heildarútlánastefnu og markmið verði að ræða. En til þess er núgildandi kerfi og það sem boðað er í þessu frv. allt of handahófskennt.

Það er ekki síður mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvað getur orðið til þess að útvegun húsnæðis verði þjóðhagslega hagkvæm. Með því að auka verulega lánveitingar til verkamannabústaða og búseturéttarfélaga og lengja lánstíma verulega segir það sig sjálft að á tiltölulega skömmum tíma næst aukið jafnvægi í húsnæðismálum hér á landi eins og raunin hefur orðið annars staðar. Markaðurinn hættir þá að ráðast einvörðungu af braski og fjárgróðasjónarmiðum ásamt stöðugri leit að leiðum til að fjármagna stærra og betra húsnæði. Það þarf að vinna skipulega að því að gera það mögulegt að félagslegar íbúðir verði leigðar út og að tryggja að lánskjörin rýrni ekki frá því sem nú er. Því næst þarf að stefna markvisst að því að auka þau. Það er eins og stjórnvöld stefni að því leynt og ljóst að þvinga fólk inn í þann farveg sem hér hefur tíðkast nær alla tíð, að fólk sé nauðbeygt til að eignast húsnæði, hvort sem því líkar það betur eða verr eða hefur möguleika til þess. Þeir sem af einhverjum ástæðum hafa ekki möguleika til að eignast húsnæði eru svo af samfélaginu og stjórnvöldum eða stefnu þeirra dæmdir til að verða undir, vegna þess að öll uppbygging þjóðfélagsins gerir fastlega ráð fyrir því að hver einstaklingur eignist eigið húsnæði og hann byrjar að undirbúa þessa eign um leið og hann tekur til starfa á hinum almenna vinnumarkaði. Þá segir það sig sjálft hvað verður um þá einstaklinga sem af einhverjum ástæðum geta ekki hafið störf og byrjað að safna í sarpinn.

Þetta er auðvitað alveg ótækt. Þessari óheillaþróun þarf að snúa við. Þess vegna er í brtt. við þetta frv. á þskj. 694 frá tveimur þm. Bandalags jafnaðarmanna, mér og Guðmundi Einarssyni, lagt til að gerð verði breyting á 58. gr. og 6. mgr. orðist svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Lánið skal að jafnaði veitt gegn 1. veðrétti og skal lánstíminn vera allt að 40 árum sé um að ræða íbúðir til einkaeignar. Sé um að ræða búseturéttaríbúðir skal lánstíminn vera allt að 60 árum og lánið veitt gegn 1. veðrétti.“

Við rennum enn frekari stoðum undir þá skoðun sem birtist í þessari till. með því að gera brtt. við 1. gr. frv. um að 2. mgr. orðist svo, með leyfi forseta: „— að stuðla að jafnrétti í húsnæðismálum, þannig að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika landsmanna á öruggu húsnæði til eignar eða leigu.“ Eins og þessi gr. hljóðar í frv. er gert ráð fyrir því að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika launafólks til að eignast húsnæði. Alls staðar birtist þessi sama stefna, þvingunareignarstefnan.

Oft var þörf en nú sýnist mér nauðsyn bera til þess að koma á hugarfarsbreytingu. Ekki er samt pólitísk samstaða og samræmdur skilningur á því hvernig túlka beri þær greinar frv. sem fjalla um uppbyggingu félagslegra íbúðaforma. Í aths. við 54. gr. frv. segir m. a. og ég bið menn að taka vel eftir: „Þegar rætt er um félagasamtök og stofnanir sem framkvæmdaaðila við byggingu leiguíbúða eru hafðar í huga sjálfseignarstofnanir svo sem Félagsstofnun stúdenta og aðrar sambærilegar stofnanir, samtök leigjenda, verkalýðsfélög og fleiri hagsmunaaðilar sem myndað gætu samtök til þess að byggja leiguíbúðir til afnota fyrir félagsmenn eða til leigu á almennum markaði.“

Mér þykir verst, virðulegi forseti, að hv. þm. Halldór Blöndal skuli ekki vera hér inni núna vegna þess að mér virðist þessi útskýring á umræddri grein í aths. frv. engan veginn samræmast útskýringu hv. frsm. meiri hl. félmn. Í aths. segir: „til afnota fyrir félagsmenn eða til leigu á almennum markaði“ og þar er vitnað jafnframt til 33. gr., bæði í b- og c-lið, þannig að þessi aths. rennir ótvírætt stoðum undir það sem fram hefur komið, ekki síst frá hæstv. félmrh. Svo að ef hann vantar frekari rök fyrir máli sínu til að nota í baráttunni við hringlandaháttinn í hv. þm. Halldóri Blöndal, þá getur hann notað þessa aths. Við lagatúlkun eru einmitt oftast notaðar þær aths. sem er að finna við lagagreinar í grg. frv. Ég sé að hæstv. félmrh. strikar undir þetta í frv. og ég er mjög fegin að hafa getað orðið að liði.

Frsm. meiri hl. félmn. segir aftur á móti um þetta að meiri hl. félmn. líti svo á, að hvorki húsnæðissamvinnufélagið Búseti né önnur félög sem stofnuð eru til þess að byggja leiguíbúðir á almennum markaði falli undir þessa grein. Það virðist því vanta ansi mikið upp á samræmdan skilning á þessu atriði.

Varðandi 3. gr., 1. mgr., leggjum við til að Húsnæðisstofnun starfi sem ein heild en skiptist í tvær deildir í stað þriggja eins og frv. gerir ráð fyrir og eins og nú er. Vísum við þá til VI. kafla frv. og leggjum til að sá kafli verði felldur niður enda teljum við enga þörf á því að Húsnæðisstofnun ríkisins reki tæknideild. Það er á allra vitorði að hér á landi er fjöldi mjög góðra verkfræði- og teiknistofa, arkitekta og annarra sérfræðinga sem þarf til að sinna því hlutverki sem tæknideild Húsnæðisstofnunar er ætlað. Margar þessar verkfræði- og teiknistofur skortir stundum verkefni. Það væri því þarft verk að færa þessa starfsemi út til þeirra stofa sem þegar eru til og í fullum gangi. Einnig höfum við heyrt því fleygt að félög hafi leitað til tæknideildar Húsnæðisstofnunar um hönnun íbúða en ekki séð sér fært að nýta þá þjónustu fyrir þær sakir í fyrsta lagi að verðið var of hátt og ekki síður, því miður, vegna lélegrar hönnunar. Þetta segir okkur ekki annað en það, að einkaaðilar eru þess miklu betur umkomnir að veita slíka þjónustu og sinna því verkefni sem deildinni hefur á sínum tíma verið ætlað að leysa. Að okkar áliti er tilverugrundvöllur hennar því alls ekki lengur fyrir hendi.

B. liður 2. brtt. okkar um að 4. mgr. 3. gr. falli brott tengist því að leggja tæknideildina niður og því er eins farið um 3. brtt., um að 7. gr. 2. mgr. falli brott.

Varðandi 41. gr. frv., þar sem talað er um að húsnæðismálastjórn skuli sérstaklega huga að hagkvæmni íbúða og að leiðum til að tryggja sem lægst íbúðaverð, svo sem með stöðlun, samkeppnisútboðum og sameiginlegum efniskaupum eftir því sem við verður komið, finnst okkur engan veginn nógu fast að kveðið. Leggjum við því til að 41. gr. orðist svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Húsnæðismálastjórn skal yfirfara tillögur stjórnar verkamannabústaða. Hagkvæmni íbúða og sem lægst íbúðarverð skal tryggja með því að framkvæmdir við byggingar verkamannabústaða skuli ætíð boðnar út.“

Það hefur margoft sýnt sig og verið sannað að útboð eða bundnir samningar við verkframkvæmdir eru hagkvæmasta leiðin til betri nýtingar fjármagns skattborgaranna. Þess vegna verður að telja það mjög hagkvæmt að hafa það bundið í lögum að þarna verði ætíð um það að ræða að framkvæmdir séu boðnar út. Við hvetjum til þess að hv. þm. taki eftir þessu og að þessi brtt. verði samþykkt.

Þá leggjum við til að síðustu í brtt. okkar að VII. kafli, um skyldusparnað ungs fólks til íbúðabygginga, verði felldur brott. Skyldusparnaður hefur viðgengist hérlendis hátt á annan áratug. Reglan hefur verið sú, að ríkið heldur eftir um 15% af launum allra einstaklinga á aldrinum 16–26 ára. Þetta er gert undir því yfirskini að verið sé að gera þessu fólki greiða, að verið sé að veita því forsjá, enda hafi ungt fólk varla vitsmuni til þess að spara og fara skynsamlega með tekjur sínar og því síður að því sé ætlað að hafa nokkra sérlöngun varðandi ráðstöfun tekna sinna. Það er nákvæmlega ekkert í þessum lagafyrirmælum um skyldusparnað sem gefur til kynna að tilgangurinn sé annar og göfugri en að framan greinir, þ. e. þessi forsjárhugsjón og að fólk hafi enga vitsmuni til að bera til þess að sýna af sér ráðdeild. Það má lýsa furðu yfir þessu, sérstaklega þegar haft er í huga að á árinu 1983 var skyldusparnaðurinn neikvæður um 8 millj. kr. og skv. áætlun Húsnæðisstofnunar nú nýverið verður skyldusparnaðurinn neikvæður um sem svarar 40 millj. kr. um næstu áramót.

Hér er óhjákvæmilegt að víkja aðeins að ummælum hv. frsm. meiri hl. félmn. fyrr í dag. Þá sagði hann m. a., með leyfi virðulegs forseta: „Ég vil þá fyrst segja það almennt um skyldusparnað að hann er að sjálfsögðu ekki sú sama tekjulind fyrir byggingarsjóð og áður af þeim augljósu ástæðum að ungu fólki fjölgar ekki í árgöngum með sama hætti og áður var.“ Síðar í máli sínu segir hann þróunina hafa orðið þá að verulega meira fé hafi farið út úr þessu kerfi en inn í það. Og áfram nefnir hann, með leyfi forseta: „að fleira ungt fólk fari til náms sem skerði afrakstur Húsnæðisstofnunar.“ Nú er það orðið mjög neikvætt hve margir eru farnir að stunda nám, enn fremur sé fleira fólk en áður sem stofnar til hjúskapar á unga aldri, auk þess sem hv. frsm. nefnir að heimildir til undanþágu séu rýmri nú en áður — og meira notaðar, segir hann. Það er merkileg niðurstaða sem hv. þm. Halldór Blöndal kemst að. Um leið og hann gerir ráð fyrir því að ungt fólk á aldrinum 16–26 ára hafi ekki rænu eða vit til þess að hugsa sjálfstæða hugsun segir hann í framsögu sinni, með leyfi forseta, að nú þurfi að koma á meiri festu um framkvæmd laga um skyldusparnað, enda segir hann síðar í máli sínu, að fyrir þessu megi færa þau almennu og uppeldislegu rök að það sé heilbrigt markmið í sjálfu sér fyrir ungt fólk sem er í skóla að leggja fyrir hluta af aflafé sínu.

Þessi meinta velferðarþjónusta og forsjárhyggja mun vera einsdæmi í vestrænum lýðræðisríkjum. Til viðbótar er ekki annað að sjá en að þessi löggjöf brjóti í bága við íslensk lög um sjálfræði og fjárræði. Við í Bandalagi jafnaðarmanna lítum svo á, að þessi lög, hvað varðar skyldusparnað, brjóti á grundvallarrétti — þ. e. rétti hvers sjálfráða manns til að stýra sparnaði og eyðslu sinni eftir eigin geðþótta. Það er ekkert sjálfgefið að það sé skynsamlegt að spara til íbúðarkaupa. Það er hlutur sem sérhver einstaklingur verður að hafa rétt til þess að taka ákvörðun um, samkvæmt efnahag sínum og ekki síður samkvæmt lífsskoðun sinni. Þess utan hefur þessi svokallaði skyldusparnaður verið hreinn stuldur gegnum árin, þó að einhver bót kunni að hafa orðið á því nú hin síðari ár, eins og hv. frsm. meiri hl. félmn. gat um í ræðu sinni. Í þessum forsjárhyggjulögum er gert ráð fyrir því að fólk noti þetta fé til að byggja eða kaupa eigið húsnæði og ekki til neins annars. Þessu til staðfestingar er ákvæði sem undanþiggur þá einstaklinga þessari skyldu sem eiga íbúð til eigin þarfa. Það er ekki nóg með að yfirvöld frysti fé unga fólksins heldur veita þau líka fyrirmæli um ráðstöfun fjárins að þvingunartíma loknum.

Skyldusparnaðarlögin eru óréttlát, um það þarf engum blöðum að fletta og allflestir sjálfsagt sammála um það að meira eða minna leyti. Óréttlátari eru þó ákvæðin um undanþágur sem draga þegnana í dilka eftir þjóðfélagsstöðu. Í þessum ákvæðum er ekki spurt um tekjur og lífskjör, eins og maður skyldi nú ætla, heldur hvort menn séu giftir eða ekki og hvort menn eigi íbúð eða ekki. Síðan eru þeir ógiftu og eignalausu taldir aflögufærir en giftu eignafólki veitt undanþága. Auðvitað getur þetta veri öfugt. Það getur verið að þeir sem eru ógiftir séu eignafólk, en oft er það á hinn veginn.

Það sér hver maður að svona lög eru bæði hringlandi vitlaus og siðlaus með öllu. Með framangreint í huga leggjum við til að hætt verði að skylda fólk til þessa svokallaða sparnaðar. Það er alveg ljóst að bankarnir geta hæglega sett upp sparnaðarkerfi í svipuðum dúr, þar sem fólki gefst færi á því að spara, fá góða vexti fyrir sparnaðinn sem taki tiltekinn árafjölda og væri ákveðin prósenta af mánaðarlaununum. En menn skyldu hafa í huga að munurinn verður sá, að þar er um að ræða sparnað af fúsum og frjálsum vilja, af því að einstaklingurinn með heilbrigða skynsemi, sem ég tel að ungt fólk upp til hópa hafi, hefur komist að raun um að hann hafi tekjuafgang sem hann vill leggja til hliðar og sem hann sjálfur álítur að muni koma sér vel að geta tekið út ef hann síðar meir tekur þá ákvörðun að kaupa eða byggja sér þak yfir höfuðið. Bankarnir geta hæglega boðið ungu fólki upp á sparnað þar sem það leggur inn ákveðið hlutftall af tekjum sínum mánaðarlega og það liggur ljóst fyrir í upphafi hve mikið bankarnir treysta sér til að margfalda þá upphæð þegar að því kemur að leysa upphæðina út.

Ef skyldusparnaðarkerfið yrði fellt niður getur þetta kerfi komið í staðinn. Eins og ég gat um í upphafi máls míns þarf að samræma þessi atriði og gera ráð fyrir því við lagasetningu um þessi mál að um heildarútlánastefnu allra útlánastofnana verði að ræða.

Ég ætla ekki að taka til sérstakrar umræðu hér þær brtt. sem fyrir liggja frá öðrum, bæði úr stjórnarflokkunum og stjórnarandstöðu. Það er búið að gera ítarlega grein fyrir þeim í kvöld. Mjög mörgum þeirra erum við í BJ sammála og komum til með að greiða þeim atkvæði okkar þegar þar að kemur. Þá kemur það í ljós hverju við erum sammála og hverju ekki.