02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5108 í B-deild Alþingistíðinda. (4494)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Kristín Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Stefna Kvennalistans í húsnæðismálum er að fólk eigi kost á öruggu húsnæði og hafi raunverulegt val um það hvernig það hagar sínum húsnæðismálum. Hvort það leigir, kaupir notað húsnæði eða byggir sjálft. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að stuðla að stóraukinni uppbyggingu leiguhúsnæðis á vegum hins opinbera eða félagasamtaka. Á því sviði er þörfin tvímælalaust mest. Það er að okkar mati fullkomlega óraunhæft að gera ráð fyrir óbreyttri meginstefnu í húsnæðismálum, þ. e. þeirri stefnu að sem flestir eigi húsnæðið sem þeir búa í. Það er óraunhæft fyrst og fremst vegna breytts ástands í efnahagsmálum þjóðarinnar, vegna versnandi launakjara, minnkandi möguleika til að afla aukatekna og minni verðbólgu sem áður fleytti skuldugum húsbyggjendum yfir erfiðustu hjallana.

Afstaða fólks til húsnæðis er að breytast. Það sækist nú fremur eftir öryggi en eign. Eftirspurn eftir leiguíbúðum, einkum á höfuðborgarsvæðinu, fer vaxandi á sama tíma og framboð minnkar og er brýnt að snúa þeirri þróun við. Benda má á nýlegar upplýsingar Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar þess efnis, að um 1100 einstaklingar á ellilífeyrisaldri séu nú á biðlista eftir leiguhúsnæði í borginni. Eins má minna á að 850 umsóknir bárust um 250 íbúðir í verkamannabústöðum sem auglýstar voru til umsóknar í janúar s. l. Þessi dæmi sýna m. a. þróunina og í hvaða farveg ber að beina fjármagninu í ríkara mæli en verið hefur.

Fyrir síðustu kosningar voru gefin mörg loforð og stór um úrbætur í húsnæðismálum sem erfitt ætlar að reynast að efna. Þegar frv. það til laga um Húsnæðisstofnun ríkisins sem hér er fjallað um var lagt fram á haustþingi, var það einkum tvennt sem okkur fannst athugavert við það. Hið fyrra að staða húsnæðissamvinnufélaga innan félagslega íbúðakerfisins var ekki mörkuð þannig að ótvírætt gæti talist, en við teljum húsnæðissamvinnufélög einmitt fýsilegan valkost fyrir þá mörgu sem vilja njóta öryggis í húsnæðismálum án þess að þurfa endilega að eiga húsnæðið. Ljóst var af orðum frsm. meiri hl. félmn. hér fyrr í dag að áhyggjur okkar í þessum efnum voru ekki ástæðulausar, og því miður virðist enginn áhugi fyrir hendi innan meiri hlutans til að leiðrétta þetta. Það er engu líkara en að öll sú umræða, sem átt hefur sér stað nánast allt s. l. ár, og sá víðtæki áhugi fólks á þessu nýja formi í húsnæðismálum hafi farið fram hjá þeim sem skipa meiri hl. félmn. Ég tel að það væri mikið slys ef þetta frv. yrði samþykkt sem lög frá Alþingi án þess að ganga svo frá málum að þessi nýi valkostur í húsnæðismálum fengi sitt tækifæri.

Hæstv. félmrh. hefur látið að því liggja að hann hafi aðra afstöðu til þessa máls en meiri hl. félmn. ef marka má sjónvarpsfréttir nú í kvöld, og er kannske ekki örvænt um að því verði bjargað fyrir horn.

Í umsögn húsnæðissamvinnufélagsins Búseta um þetta frv. segir m. a., með leyfi forseta: „Stofnfundur húsnæðissamvinnufélags var haldinn þann 15. október. Á stofnfundinum flutti aðstoðarmaður félmrh., sem jafnframt var formaður fyrrnefndrar húsnæðismálanefndar, kveðjur ráðh. og lýsti því jafnframt yfir að við endurskoðun laga um Húsnæðisstofnun ríkisins væri stefnt að því, eins og hann orðaði það, að opna á hið nýja form húsnæðissamvinnufélaganna.“ Þessi ummæli eru aðeins eitt dæmi af fjölmörgum sem sýna að félmrh. hefur gefið vonir sem hann verður að standa við. Fétagsmenn í Búseta skipta nú orðið þúsundum og það væri stórslys ef þetta fólk væri svipt þeim möguleika sem það nú hefur eygt til lausnar í húsnæðismálum, lausnar sem hefur sannað ágæti sitt víða erlendis.

Síðara megináhyggjuefni okkar var að fjármögnun húsnæðiskerfisins virtist í algerum molum. Miklar umræður urðu um þetta frv. á fyrsta stigi málsins og umfjöllun í nefnd hefur verið rækileg, skyldi maður ætla. Samt kemur það nú aftur til deildarinnar frá nefndinni, án þess að meiri hluti nefndarinnar, fulltrúar stjórnarflokkanna, sýnist vilja viðurkenna vandann og taka á honum. Vandséð er í raun og veru hver ætlun stjórnarflokkanna er með afgreiðslu þessa frv. eins og það liggur fyrir hér með brtt. meiri hl. nefndarinnar. Hvaða tilgangi þjónar að vekja vonir sem ekki sýnist eiga að standa við? Ef ná á þeim markmiðum sem sett hafa verið í húsnæðismálum um hækkað lánshlutfall hlýtur að vera algerlega óhjákvæmilegt að auka framlög ríkisins til húsnæðislánakerfisins. Fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna er stefnt í algeran voða með því að ætla þeim að fjármagna lánveitingar með lántökum sem þar að auki kosta þá hærri vexti en þeir fá inn vegna endurgreiðslu lánanna. Ég furða mig á þeim vinnubrögðum meiri hlutans að taka ekki á þessum vanda af raunsæi.

Hugmyndir Kvennalistans falla í meginatriðum saman við hugmyndir Alþfl. í húsnæðismálum, og þær brtt. sem fulltrúi þess flokks flytur við þetta frv. eru að flestu leyti þær sömu og við höfðum í huga. Við höfum því ákveðið að styðja brtt. 1. minni hl. félmn. á þskj. 689, sem — eins og segir í nál. á þskj. 688, með leyfi forseta: „miða að því að draga úr þeirri óvissu sem nú ríkir í húsnæðismálum landsmanna, treysta fjárhagsstöðu byggingarsjóðanna, auka valkosti í húsnæðismálum og gera íbúðakaupendum og húsbyggjendum kleift hvort heldur er að leigja eða eignast húsnæði á viðunandi kjörum án þess að greiðslubyrði húsnæðislána ofbjóði greiðslugetu þeirra og stefni þar með fjárhagsstöðu heimilanna í mikla hættu.“ Þetta er samhljóða markmiðum Kvennalistans og við erum sammála þeim lausnum sem lagðar eru til á þskj. 689.

Á bls. 12 í nál. á þskj. 688 er bent á nokkra liði sem mætti sækja eitthvert fé til að fjármagna húsnæðismálin. Ég get ekki stillt mig um að minna hér á vegamálin í þessu sambandi. Húsnæðismál ættu að mínum dómi ekki að njóta síður velvildar en vegamál hér á landi.