02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5116 í B-deild Alþingistíðinda. (4496)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Jón Baldvin Hannibalsson:

Virðulegi forseti. Hæstv. fyrrv. félmrh. komst svo að orði áðan að ekki væri hægt að skilja svo við þessa umr. nú að ekki fengjust ótvíræð svör frá hæstv. núverandi félmrh. um hið svokallaða Búsetamál. Þó áliðið sé orðið verð ég að segja aðþrátt fyrir allt voru svör hæstv. ráðh. að mínu mati ekki nægilega skýr til þess að þeir sem hér eru og þeir fjölmörgu sem bíða eftir svörum um framhald þess máls geti slegið einhverju föstu um hver þróunin verður.

Hæstv. ráðh. heldur sig enn við þann leistann að hann telur að samkvæmt 33. gr. c-lið sé um að ræða viðurkenningu fyrir Búseta á lánshæfni skv. frv. óbreyttu. Og hann undirstrikaði að þetta væri allt með ráðum gert, þetta byggðist á stefnu Framsfl., sú stefna hefði verið mörkuð á seinasta flokksþingi. Hann vakti athygli á því að aldrei hefur tekist aðstanda í reynd við það markmið laganna að stefna að því að 1/3 hluti árlegrar íbúðarþarfar skuli byggður í formi félagslegra íbúða og þessi liður hefi verið settur inn í frv. beinlínis til að stíga nú skref fram á við til þess að nálgast þetta markmið. Þetta væri þess vegna yfirlýst flokksstefna. Þetta væri allt með ráðum gert og skilningur hans væri sá að hér þyrfti engu að breyta.

Þetta er allt út af fyrir sig gott og blessað. Það sem 3000 félagsmenn í Búseta vilja hins vegar fá svör við er þetta: Hvort á að ríkja skilningur hæstv. félmrh. eða skilningur meiri hl. félmn. eins og hann birtist í framsöguræðu hv. 5. þm. Norðurl. e., Halldórs Blöndals, þar með talið þeirra framsóknarmanna í félmn.? Ber að skilja það svo að hæstv. félmrh. sé sá eini í þingsölum sem haldi fram yfirlýstri stefnu Framsfl.? Hvað er að frétta af hinum framsóknarmönnunum í n.? Hver er skilningur þeirra? Taka þeir undir með félmrh. um stefnu Framsfl. — eða fer hv. þm. Halldór Blöndal með rétt mál þegar hann segir: Nei, skilningur meiri hl. n., þar með talinn þeirra framsóknarmanna sem þar eiga sæti, er alveg ótvírætt sá að þetta form húsnæðissamvinnufélasskapar eigi ekki þennan rétt skv. óbreyttum lögum, heldur beri að vísa þeim á 11. gr. 1. tölul., eins og hv. þm. Halldór Blöndal sagði, og þar með gætu þeir gert sér vonir um lán að upphæð 29% að byggingarkostnaði sem væri nóg til að kippa fótunum undan þessum félagsskap? Við þessu verða einfaldlega að fást svör.

Hæstv. ráðh. sagði: Það er sagt að ég hafi gefið loforð í þessum efnum. Það er alveg ótvírætt rétt. Hæstv. ráðh. hefur lofað . Nú er spurningin: Á að standa við loforðin? Ég leyfir mér að vitna til blaðagreinar eftir formann Búseta, Jón Rúnar Sveinsson, sem birtist í Morgunblaðinu 21. mars s. l. Þetta kemur fram í ritdeilu hans við dr. Pétur Blöndal sem hafði fyrr í Morgunblaðsgreinum gagnrýnt Búseta og m. a. vefengt að þetta félagsform gæti gert sér vonir um lánveitingar úr hinu félagslega lánakerfi. Hvernig svarar nú formaðurinn því? Hann vitnar auðvitað í yfirlýst loforð hæstv. ráðh. og segir, með leyfi forseta:

„Ég sagði í fyrstu grein minni hér í þessu blaði að Búseti ætti skv. frv. félmrh. rétt á 80% láni til 31 árs og ég segi það enn. Fyrir þessu liggja algerlega ótvíræðar yfirlýsingar ráðh. bæði á Alþingi og víðar. Þessi voru óbreytt orð ráðh. á Alþingi 12. des. s. l. skv. Alþingistíðindum.“

Og hér vitnar formaðurinn orðrétt til þingræðu hæstv. ráðh. frá því 5. des.: „Stofnendur Búseta komu til mín litlu eftir að samtökin voru stofnuð. Ég óskaði þeim til hamingju með framtakið. Ég sagði þeim frá því að í nýja frv. væru opnaðir möguleikar til þess að húsnæðissamvinnufélög gætu fengið þar lánamöguleika og þar væri, eins og fram kemur í frv., reiknað með að slíkar byggingar gætu fengið 80% lán til 31 árs, eins og frv. segir til um. Hins vegar hef ég aldrei gefið nem fyrirheit um fjármagn í þennan húsnæðismálaflokk. Það yrði að sjálfsögðu að skoða vandlega og athuga hvernig við gætum útfært þessar félagslegu byggingar.“

Um fjármagnið er það að segja að ég geri satt að segja ekki þá kröfu til hæstv. ráðh., miðað við þær staðreyndir sem fyrir liggja um fjárvöntun og fjármagnsskort til þess að standa við önnur ákvæði og fyrirheit um útlán, sem engar deilur standa um, að hann galdri fram úr hattinum sínum fjármagn til þessara hluta. Ég er ekki að herma upp á hann loforð í því efni. Ég er einfaldlega að segja: Af þessum ummætum er alveg ótvírætt að ráðh. hefur alveg frá upphafi haft þennan skilning, lýst honum yfir, og hann stendur við hann enn. Af því leiðir hins vegar að menn hafa tekið mark á orðum ráðh. Og það er ekki lítil ábyrgð sem á hans herðum hvílir. Það eru risin upp í landinu samtök sem telja um þrjú þúsund manns, ekki bara hér í Reykjavík eða stór-Reykjavíkursvæðinu, heldur líka víðar um landið, norður á Akureyri, á Selfossi og víðar. Víða eru þessi félög sérstaklega undir gunnfána samvinnumanna og félagshyggjumanna, eins og t. d. á Akureyri, þar sem það vakti athygli að félagið leitar einkum fylgismanna meðal samvinnustarfsmanna, þar sem þekktir og áhrifamiklir framsóknarmenn gerðust guðfeður félagsins á stofnfundi, bæjarfulltrúar Framsfl. eiga þar aðild að stjórn, og svo mætti lengi telja. Þessi félagskapur er til kominn vegna þess að hann hefur lagt trúnað á þennan skilning ráðh.

Ég leyfi mér enn að vitna í fyrrnefnda grein eftir formann þessara samtaka, en hann segir, með leyfi forseta:

„Ég tel að orð skuli standa á Alþingi Íslendinga. Það sem félmrh. hefur sagt opinberlega um túlkun frv. þess til l. er hann hefur lagt fram til breyt. á lögum nr. 51/1980, um Húsnæðisstofnun ríkisins, fer, svo sem ég hef sýnt hér fram á, ekki á milli mála. Ég trúi því ekki að dr. Pétur ætli að brigsla Alexander Stefánssyni félmrh. um það að vera tvísaga í þessu máli.“

Formaðurinn segir enn fremur:

„Ráðh. hefur sagt meira. Í viðtali við málgagn húsnæðissamvinnufélagsins Búseta í lok janúar sagði Alexander Stefánsson eftirfarandi: „Ég hef fram til þessa lagt þann skilning í frv. til breytingar á þessum lögum að Búseti tilheyrði Byggingarsjóði verkamanna, að með c-lið 33. gr. frv. sé m. a. átt við Búseta, þ. e. félagssamtök sem ætla að byggja leiguíbúðir fyrir félagsmenn sína sem ekki hafa möguleika á að byggja eigin íbúðir.“ “

Síðan er vitnað til 54. gr. og grg. um hana, en þar segir:

„Þegar rætt er um félagssamtök og stofnanir sem framkvæmdaaðila við byggingu leiguíbúða eru hafðar í huga sjálfseignarstofnanir svo sem Félagsstofnun stúdenta og aðrar sambærilegar stofnanir, samtök leigjenda, verkalýðsfélög og fleiri hagsmunaaðilar sem myndað gætu samtök til þess að byggja leiguíbúðir til afnota fyrir félagsmenn sína eða til leigu á almennum markaði.“

Síðan segir í greininni í beinu framhaldi:

„Þarna er sem sé í grg. með frv. félmrh. Alexanders Stefánssonar talað um það að samtök leigjenda myndi með sér samtök til að byggja íbúðir fyrir félagsmenn sína og fyrir almennan markað.“

Loks segir hér:

„Vitanlega tóku Leigjendasamtökin ráðh. á orðinu og stofnuðu slík samtök, sem hlotið hafa nafnið Búseti og orðin eru stærsta félagshreyfing í húsnæðismálum sem sést hefur hérlendis.“

Formaður leggur m. ö. o. ríka áherslu á að með stofnun þessara samtaka hafi stofnendur verið að taka ráðh. sjálfan á orðinu. Samtökin hafi beinlínis fengið þessa miklu fjöldaþátttöku í trausti þess að það fari ekkert milli mála að hæstv. ráðh. hafi ekki verið að fara með neitt fleipur. Það eru þrjú þúsund manns sem bíða eftir því að fá úr því skorið hvor hefur nú rétt fyrir sér, hæstv. ráðh. með yfirlýsta flokksstefnu Framsfl. upp á vasann eða hv. 5. þm. Norðurl. e. með Sjálfstfl. væntanlega á bak við sig og þá framsóknarmenn, sem í félmn. hafa átt sæti, sem lýsa því yfir að hér fari ráðh. með alrangt mál.

Ég verð að segja fyrir mig að mér þykir það óviðurkvæmilegt með öllu að þessari umr. ljúki þannig að ekki fáist niðurstaða í þetta mál. Við erum ekki að ræða um mál sem var að koma upp í dag eða gær. Við erum að ræða um mál sem hefur verið mánuðum saman í umfjöllun Alþingis, í umfjöllun n., sem á sér langa forsögu, sem hefur haft mikil áhrif út í þjóðfélagið. Og það eru þúsundir manna — einmitt þeir hinir sömu sem verst eru settir í húsnæðismálum í dag — sem myndað hafa þessi samtök í trausti þess að það sé ráðh. sem fari með rétt mál í þessu efni.

Enn er ósvarað þessari spurningu: Hvað gerist í framhaldi af þessu? Ekki er einasta spurningin hvor hefur rétt fyrir sér, heldur hvor skilningurinn verður ráðandi. Ég mundi vilja beina því til hv. þm. Stefáns Guðmundssonar, sem hér situr og er fulltrúi Framsfl. í félmn., að hann komi nú hér upp og kveði upp úr um það hvort hann fylgir í þessu máli yfirlýstri flokksstefnu Framsfl. og sínum félmrh. — eða er hann orðinn háseti á skútu þeirra hv. þm. Þorsteins Pálssonar og Halldórs Blöndals? Það skiptir miklu máli. Mennirnir sem voru uppi á pöllum fyrr í kvöld bíða eftir þessum svörum. Þeir bíða eftir því að geta sagt sínum félagsmönnum hvor verður niðurstaðan.

Ég ætlast til þess að hæstv. félmrh. geri grein fyrir því hvort málin standa virkilega þannig að hann sé í minni hluta meðal stjórnarflokkanna. Er um þetta slíkur ágreiningur milli stjórnarflokkanna og innan hans eigin flokks? Er niðurstaðan sú, að skilningur hans náist ekki fram vegna þess að Sjálfstfl. er þarna andvígur og m. a. s. fulltrúar Framsfl., sem um málið fjalla í þingnefnd, sömuleiðis?

Það er sérstök ástæða til að vekja athygli á því að í sérstakri könnun sem fram fór á vegum Búseta um hverjir væru þar félagsmenn kemur á daginn að af þessum hópi er langstærstur hluti leigjendur, þ. e. það fólk sem nú býr við mest öryggisleysi og verstan kost í húsnæðismálum hér á landi. Það er líka ástæða til að nefna að konur eru nærri helmingur félagsmanna og að í þeim hópi er mikill fjöldi einstæðra mæðra. Það er líka ástæða til að nefna að vel yfir helmingur félagsmanna er verkafólk sem að því er varðar tekjur er langt undir þeim tekjumörkum sem skv. reglu gilda um aðild að hinu félagslegu kerfi á vegum verkamannabústaða. Þau tekjumörk eru talin vera skv. mati Þjóðhagsstofnunar 36 þús. kr. fjölskyldutekjur á mánuði. Það fer ekkert á milli mála að yfirgnæfandi meiri hluti ef ekki allir meðlimir þessa félagsskapar eru undir þeim mörkum. Þetta er um leið það fólk sem á þess ekki kost að leysa húsnæðisvandamál sín ef skilningur meiri hl. félmn. á að vera ríkjandi. Og það vita allir menn, og þarf ekki að hafa um það mörg orð, að verði niðurstaðan sú og verði sá skilningur ríkjandi er þessi félagsskapur með öllu útilokaður. Lán sem nema 29% af byggingarkostnaði og eru til mun skemmri tíma með alveg óvissum vöxtum útiloka að þessi félagsskapur verði nokkurn tíma þess umkominn að nýta sér þau lagaákvæði.

Ég ætla ekki að fara mjög mörgum orðum um þessi mál að öðru leyti. Ég vil einungis árétta það sem hefur þótt fréttnæmt við þessa umr., en það er auðvitað sá ágreiningur sem upp er kominn milli stjórnarflokkanna. Ef taka á orð hæstv. ráðh. trúanleg, og ég hef fyrir fram enga ástæðu til að gera það ekki, sýnist mér alveg augljóst mál að hann eigi aðeins einn kost. Hann verður að tryggja að skilningur hans verði ekki vefengdur. Hann verður að taka af öll tvímæli um það. Það er ekki nóg að hann lýsi þessum skilningi yfir. Ef sá skilningur nýtur ekki stuðnings, hvorki innan hans flokks né samstarfsflokksins, verður að taka þessi tvímæli af. Það verður ekki gert með öðrum hætti en að hnykkja á þessum ákvæðum í lögum.

Nú vill svo til að það liggja hér fyrir frá stjórnarandstöðuflokkunum brtt. sem taka af algjörlega tvímæli um hver þessi skilningur er. Ég spyr þess vegna hæstv. ráðh.: Er hann reiðubúinn að lýsa því hér yfir að hann vilji standa við þennan skilning sinn í verki með því að taka undir þessar brtt. og beita sér fyrir því að þær verði samþykktar hér á þingi, þannig að hann standi jafnréttur og hafi þá öðlast alveg ótvíræða staðfestingu Alþingis á því að hans skilningur sé réttur? Geri hann það ekki er sú staða komin upp að þessi samtök, sem beinlínis hafa orðið til og vaxið í trausti þess að ráðh. fari með rétt mál, hafa alveg tvímælalaust verið blekking, og það er giska alvarlegt mál.

Aðeins örfá orð til viðbótar, virðulegi forseti. Hæstv. ráðh. kvartaði undan því að tónninn í þessum umr. hefði verið neikvæður. Um leið og hann hældi þm., sem hafa undirbúið brtt. og ítarlegar álitsgerðir, og lýsti því jafnvel yfir að hann væri sammála mörgu af því, taldi hann samt sem áður að málflutningurinn hefði verið of neikvæður og harmaði að fólk, sem hefði gott vit á þessum málum og ærna þingreynslu, talaði í svona neikvæðum tón.

Hvað á hæstv. ráðh. við með þessum neikvæða tón? Ég vek aðeins athygli á að rækilegustu gögnin sem lögð hafa verið fram af hálfu stjórnvalda um þetta frv. til húsnæðislaga eru athuganir sem gerðar hafa verið á vegum Þjóðhagsstofnunar á fjármögnun frv. Ég vísa hér til tveggja álitsgerða, annars vegar fjárflæðisathugana Þjóðhagsstofnunar á Byggingarsjóði ríkisins og hins vegar á Byggingarsjóði verkamanna. Og hver er kjarni málsins? Hverjar eru niðurstöðurnar að því er varðar þessar úttektir? Að mínu mati er það mjög einfalt mál. Kjarni málsins að því er t. d. varðar úttektina á Byggingarsjóði ríkisins er sá, að ef fylgt verður í framtíðinni sömu fjármögnunarstefnu og hæstv. ráðh. nú beitir sér fyrir stendur þar alveg skýrum orðum að þá sé borin von að hægt verði á næstu árum að standa við fyrirheit hæstv. ráðh. og almenn markmið frv. um að hækka lánshlutfallið til lántakenda á næstu árum, þannig að tryggt sé að greiðslubyrðin verði að lokum viðunandi. Niðurstaðan er m. ö. o. sú, að ef halda á áfram þeirri stefnu að vísa Byggingarsjóði ríkisins — og sama á auðvitað við um Byggingarsjóð verkamanna — í jafnríkum mæli á óvissa lánamarkaði með þeim mikla vaxtamun inn- og útlána sem þar um ræðir, gengur sú stefna alls ekki upp. Og það er af mörgum ástæðum. Það er ekki bara að vaxtamunurinn muni að lokum eyðileggja getu sjóðanna til að standa við fyrirheit um vaxandi útlán. Í raun og veru er heildarniðurstaðan sú, að ef þessari stefnu verður fylgt óbreytt þyrfti að koma til miklu meira en allt hugsanlegt ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna á næstu árum. Er þó vitað að staða lífeyrissjóðanna á næstu árum er slík að það er algjörlega út í hött. Þetta er kannske meginatriði málsins. Hæstv. ráðh. segir: Ég hef einmitt viljað beita mér fyrir því að markmiðinu um 1/3 af árlegri íbúðaþörf verði náð, þannig að það verði byggt á vegum hins félagslega kerfis. Ef lesin er úttektin um Byggingarsjóð verkamanna, sem fylgir þessu frv., er niðurstaðan sú að miðað við að byggðar verði árlega 600 íbúðir á ári, þurfa að koma til svo stóraukin framlög úr ríkissjóði, ef hægt á að vera að ná þessum markmiðum að það er alveg augljóst mál að sú stefna, sem nú er fylgt, sem er mjög lítil og takmörkuð framlög úr ríkissjóði en allt of hátt hlutfall aðfengins lánsfjár, gengur ekki upp.

Það er m. ö. o. alveg augljóst mál að gagnrýni hæstv. ráðh. um hinn neikvæða málflutning hittir fyrst og fremst fyrir ráðh. sjálfan og ríkisstj. sjálfa því að stjórnarandstæðingar hafa hér ekki gert annað en að draga niðurstöðurnar af þessum opinberu gögnum.

Ég ætla ekki að setja á langar tölur um hversu gersamlega fjármögnun á árinu 1984 er á brauðfótum. Það hefur verið rökstutt og verður ekki vefengt. Það er fljótgert að telja upp að það er ekki einu sinni staðið við ákvæði laga um framlag úr ríkissjóði, þ. e. þetta 40% framlag, fjarri því. Ráðh. viðurkennir sjálfur að það þýðir ekkert að gera ráð fyrir framlögum úr Atvinnuleysistryggingasjóði eða skyldusparnaði. Það liggur þegar fyrir og lá reyndar fyrir fyrir löngu. Í því efni erum við að sjálfsögðu — ekkert neikvætt við það — að benda á staðreyndir. Það er hins vegar ákaflega neikvætt af hálfu ríkisstj. að leggja fram frv. og leggja fram till. þar sem fólki er lofað hækkandi hlutfalli lánsfjár, en sýnilegt af opinberum gögnum að við þessi fyrirheit verður ekki hægt að standa ef þessari stefnu er fram haldið.

Það er alveg sama hvort litið er heldur á Byggingarsjóð ríkisins eða Byggingarsjóð verkamanna. Það er alveg augljóst mál að fjármögnunin er öll í molum. Hæstv. forsrh. lýsir því yfir í viðtali við dagblaðið Tímann — Nútímann — að það þurfi um 500 millj. kr. erlent lánsfé til húsnæðismála. Hann segir hér: „Líklega mun þörf fyrir erlent fé til húsnæðismála reynast hátt í 500 millj. Samtals geta því erlendar lántökur orðið u. þ. b. 1000 millj. kr. hærri en ráðgert var, auk halla ríkissjóðs,“ þ. e. fyrir utan þetta fræga tveggja milljarða gat. — Í vinnuplöggum sem stjórnarandstöðunni hafa verið sýnd er hins vegar sagt að erlent lánsfé vegna innlends lánsfjárbrests nemi 302 millj. kr. og nýjustu tíðindi herma að hér sé verið að tala um 190 millj. kr. erlent lán sem eigi að koma í staðinn fyrir framlög Atvinnuleysistryggingasjóðs og skyldusparnaðar til Byggingarsjóðs ríkisins.

Ég skal ekki leggja neinn dóm á hvaða tölur eru réttar, hvort forsrh. fer með rétt mál eða hvort vinnuplaggið er nær lagi eða hvort þetta er hvort tveggja úr lausu lofti gripið. Kannske vita þeir það ekki sjálfir. En auðvitað er þetta staðfesting á því að hvert einasta orð sem sagt var strax við 1. umr. hér fyrir jól um að fjármögnunin væri öll í molum hefur reynst rétt.

Í því efni er kannske ástæða til að nefna sérstaklega eitt. Það er mikill galli þegar verið er að setja lög og lykilhugtak í þeim lögum á að vera samþykkt eða staðfest útlánaáætlun, eins og það er orðað í 9. gr.: samþykkt útlánaáætlun sjóðsins viðkomandi ár, sú útlánaáætlun er öll í lausu lofti. Þessi mál hafa tekið slíkum breytingum frá því að þau fyrst komu til umr. á s. l. hausti, vegna þess að þessi útlánaáætlun er einmitt það teygjanleg, henni er breytt eftir þörfum.

Fyrir jól var miðað, t. d. að því er varðar Byggingarsjóð ríkisins, við útlánaáætlun sem fól í sér lán til nýbygginga til a. m. k. 1095 íbúða. Síðan gaf Húsnæðisstofnun út áætlun þar sem sagði að þótt allar fjáröflunaráætlanir stæðust, öll lántökuáform stæðust, þá væri samt sem áður, miðað við þá útlánaáætlun, um að ræða fjárvöntun upp á 269 millj. Þetta gerist í febrúar eða byrjun mars. Svo er þessari útlánaáætlun breytt nokkrum vikum síðar. Og hvað kemur þá á daginn? Jú, þá kemur á daginn að það er búið að fækka fyrirhuguðum lánum til íbúða niður í 760. Samt sem áður er sú áætlun miðuð við að allar lánsfjáröflunaráætlanir standist.

Sama er að segja um Byggingarsjóð verkamanna. Fyrsta áætlun sem kemur frá Húsnæðisstofnun ríkisins um Byggingarsjóð verkamanna er miðuð við að það verði staðið við að veita lán til 158 nýrra íbúða í verkamannabústöðum, sem áður lágu fyrir samþykktir um á árinu 1983. Skv. þeirri áætlun var því yfirlýst að fjárvöntun þar, miðað við það að öll önnur fjáröflun stæðist, væri 149 millj. kr. Þegar ekki þykir nógu gott að sýna þetta út á við er hinni samþykktu útlánaáætlun breytt, þá er gerð ný áætlun sem miðar við þá grunnforsendu að ekki verði byrjað á einni einustu nýrri íbúð í verkamannabústaðakerfi. Og þá er niðurstaðan sú að fjárvöntunin sé 16 millj. kr.

Ég nefni þessi dæmi einfaldlega vegna þess að sú gagnrýni hæstv. ráðh. að stjórnarandstaðan sé neikvæð í umræðum sínum um þetta mál er ekki á rökum reist. Það er ekkert neikvætt við að ræða þær staðreyndir sem lagðar eru fram af hálfu opinberra aðila. Það væri ákaflega bágborin stjórnarandstaða sem léti sig ekki varða staðreyndir eins og þessar. Það má hins vegar snúa dæminu við og segja: Það er ákaflega neikvætt þegar verið er að vekja af hálfu stjórnvalda upp vonir fólks, falskar vonir, vonir sem eru byggðar á því að það er verið að leggja hér fram frv. sem lofar fólki gulli og grænum skógum, þar sem eru gefin alveg ótvíræð fyrirheit um að það sé verið að gera meiri háttar átak til að bæta ástandið í húsnæðismálunum, en þegar farið er að skyggnast aðeins undir yfirborðið kemur á daginn að þetta eru fyrst og fremst loforð á blaði. Það er enn í dag allt í óvissu um hvernig við þetta verður staðið. Og enn á ný eru ráðh. innbyrðis ósammála um það þótt hæstv. félmrh. endurtaki að bak við þær tölur, sem standa á blaði og hafa verið samþykktar hér sem lánsfjárlög frá Alþingi, eigi það að standa að ríkisstj. sé ábyrg fyrir þessum framlögum, þá kennir okkur reynslan það frá fyrri árum, sem og ummæli annarra ráðh., sem og staðreyndir mála um fjárhagsástand ríkissjóðs, að það er ákaflega óvarlegt að treysta þeim loforðum, alveg eins og það kann að reynast ákaflega óvarlegt hjá því fólki sem myndað hefur Búsetasamtökin að treysta því að hæstv. félmrh. geti staðið við að hans skilningur í því deilumáli reynist verða hinn rétti.

Virðulegi forseti. það sem fyrst og fremst er neikvætt við þessa umr. er það, að hér hefur verið lagt fram frv. um húsnæðismál sem lýsir því í reynd að sú nefnd sem á s. l. sumri undirbjó þessa löggjöf hefur því miður, að mínu mati, fúskað heimadæminu sínu. Þótt sett séu á blað loforð og fyrirheit um að lánstími skuli lengdur, um að lánahlutfall skuli hækkað og að greiðslubyrði skuli lækkuð, þá virðist vera augljóst mál að þessi nefnd reiknaði aldrei dæmið sitt til enda. Hún lagði það aldrei niður fyrir sér hvað það væri sem hún þyrfti að gera í húsnæðisfjármálum, í fjármögnun kerfisins í heild til þess að hægt væri að treysta því að hún gæti staðið við þessi loforð, ekki aðeins á árinu 1984, sem hún getur ekki, heldur líka á næstu árum. Þess vegna er það gífurlega stórt óvissuatriði, sem hefur hlotið ákaflega litla umr. hér, stendur eftir, m. ö. o. vaxtaákvörðunin. Það er meiri háttar stefnubreyting skv. þessu frv. að nú á ekki lengur að kveða á um vextina, heldur á það að fara eftir tillögum Seðlabanka og endanlega ákvörðun ráðh. Ef menn draga saman niðurstöðurnar af könnun Þjóðhagsstofnunar á þeirri fjármögnunarleið sem hér hefur verið farin hlýtur um leið að vakna sú spurning: Ætlar hæstv. ráðh. að reyna að rétta hlut byggingarsjóðanna úr því sem komið er með því að taka ákvörðun um verulega hækkun vaxta? Það er vitað að lánsfjárþörf sjóðanna er núna mikil. Það er vitað að þær lántökur verða dýrar. Það er vitað að vaxtamunurinn er hrikalegur. Það er vitað hvaða áhrif þetta hefur á næstu árum. Eina leiðin til að rétta eigin fjárhag sjóðanna úr því sem komið er, ef menn ætla að hafna þeirri leið að auka verulega framlög ríkisins, verður í því fólgin að hækka vexti. Þess vegna væri mjög æskilegt að hæstv. ráðh. svaraði því í þessum umr.: Hver eru áform hans í því efni? Er það virkilega allt í gersamlega lausu lofti? Telur hann sig vera nær því að geta tekið þá ákvörðun þegar fyrir liggur hvað hin erlenda lántaka verður mikil? Það er gífurlega mikil breyting ofan á allt annað fyrir lántakendur að renna algerlega blint í sjóinn um það á hvaða kjörum þessi lán verða tekin.

Ég ætla ekki að ræða fleiri atriði þessa viðamikla máls, en það er fyrst og fremst tvennt sem er gagnrýnisvert: ef þessari umr. lýkur án þess að almenningur í landinu, sem fylgist vel með þessum málum, þetta snertir mjög margar fjölskyldur og einstaklinga í þessu landi, fær hvorki að vita um niðurstöðuna í deilumálum um Búseta né heldur neina vísbendingu um hver verður hin endanlega vaxtaákvörðun ráðh. Þetta eru ákaflega veigamiklir þættir í þessu máli. Hvorugt er upplýst svo að viðhlítandi sé.

Ég ítreka að ef hæstv. ráðh. vill ekki bæta við það sem hann hefur þegar sagt um skilning sinn skora ég sérstaklega á hv. þm. Stefán Guðmundsson, sem er fulltrúi hans í nefndinni, að upplýsa hver er afstaða hans í málinu. Fylgir hann ráðh. sínum eða fylgir hann meiri hl.? Hvort er það ráðh. sem er talsmaður hans og Framsfl. eða hv. þm. Halldór Blöndal? Það er þýðingarmikið að þau svör fáist nú þegar. Ef það er ótvírætt að Framsfl. stendur að baki ráðh. sínum í þessu máli liggur fyrir af brtt. og álitsgerðum stjórnarandstöðunnar hver hennar afstaða er og þess vegna getur skipt sköpum um hver niðurstaða málsins verður hér á þingi hver eru svör hv. þm. við þessari spurningu. Í annan stað væri mjög æskilegt að ráðh. lyki ekki svo þessum umr. að engar upplýsingar fengjust um hvers er að vænta um vaxtaákvörðunina þegar að henni kemur af hálfu ráðh.