02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5128 í B-deild Alþingistíðinda. (4499)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. 1. minni hl. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hefði ekki þurft að koma hér aftur í ræðustól nú þegar svo er liðið á nóttu ef hæstv. félmrh. hefði gert svo lítið að svara þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann. Stjórnarandstaðan hefur lagt mikla vinnu í þetta frv., nál. og brtt. og hún hlýtur að eiga þá kröfu að hæstv. ráðh. svari þeim spurningum sem hér eru lagðar fyrir hann.

Í stað þess að svara þeim spurningum, sem ég lagði fyrir hæstv. ráðh., var það eina sem ég fékk að heyra að ég væri með neikvæðan málflutning, nöldur, talaði um hrun húsnæðiskerfisins og þar fram eftir götunum. Ef hæstv. ráðh. kýs að kalla það neikvæðan málflutning og nöldur þá hann um það en ég hef ekki skap til þess að vera með eitthvert fagurhjal um þetta frv. Ég tel mig hafa skoðað mjög ítarlega fjármögnunarþætti þess og tel að réttara sé að reyna að líta raunsætt á málin og reyna að sjá aðeins lengra fram í tímann varðandi húsnæðislánakerfið en mér finnst hæstv. ráðh. gera. Ef við gerum það ekki erum við ekki bara að blekkja sjálf okkur heldur líka húsbyggjendur og íbúðakaupendur sem greinilega vænta sér mikils af þessari löggjöf sem verið er að afgreiða hér á hv. Alþingi.

Ég sé fulla ástæðu til þess, hæstv. félmrh., að vera með neikvæðan málflutning yfir því að nú strax á fyrsta ári þegar verið er að samþykkja þessa löggjöf er meiningin að þverbrjóta t. d. það grundvallarákvæði sem er í 9. gr. frv. varðandi Byggingarsjóð ríkisins. Það liggur ljóst fyrir og hæstv. ráðh. hefur ekki mótmælt því að það á einungis að setja 17% inn í Byggingarsjóð ríkisins sem framlag ríkissjóðs þegar frv. gerir ráð fyrir 40%. Ég sé ástæðu til þess, hæstv. ráðh., að gagnrýna það og vera með neikvæðan málflutning um það þegar samdráttur verður svo gífurlegur í lánveitingum frá Byggingarsjóði ríkisins.

Ég sé ástæðu til þess líka að vera með neikvæðan málflutning þegar við blasir að ekki verður byggð nein íbúð eða veitt neitt nýtt lán í félagslegar íbúðabyggingar á þessu ári og fresta verður 1/4 af þeim lánveitingum sem samþykktar voru á síðasta ári a. m. k. Ég sé fulla ástæðu til þess að hafa áhyggjur af því og láta það uppi hér í sölum Alþingis hvert stefnir og hver greiðslubyrðin er hjá húsbyggjendum í landinu. Ég sé ekki hvernig fólk sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið á að geta staðið undir svo gífurlegri greiðslubyrði þegar lánahlutfallið er svo lítið. Ef það er rétt sem kemur fram hjá Þjóðhagsstofnun að þetta séu um 20 þús. kr. á mánuði og ef lánahlutfallinu verði ekki breytt verði það 20 þús. kr. á mánuði næstu fimm árin þá sé ég fulla ástæðu til þess að hafa áhyggjur af því og láta það í ljós í sölum Alþingis.

Og ég sé líka ástæðu til þess að gagnrýna það hér hvert stefnir í lántökunum. Ég byggi á útreikningum Þjóðhagsstofnunar og ég vænti þess að þeir séu réttir þegar það kemur fram að miðað við að byggðar verði 600 íbúðir í félagslega kerfinu á ári og lánahlutfall hækki í 80% næstu átta árin verði lántökur hér eftir átta ár 3–31/2 milljarður og eftir 16 ár um 5 milljarðar.

Ég vil reyna, herra forseti, að ítreka aftur þær spurningar sem ég lagði fyrir hæstv. ráðh. í þeirri von að ég fái einhver svör. Ég vil t. d. spyrja hann um þann samdrátt sem við blasir hjá Byggingarsjóði ríkisins og þar byggi ég á áætlun Húsnæðisstofnunar.

Við höfum alltaf verið að fá nýjar áætlanir og síðast þegar við ræddum þessi mál í sölum Alþingis var talað um að veitt yrðu lán til 925 íbúða úr Byggingarsjóði ríkisins á þessu ári. Ég hef hér áætlun frá 14. mars 1984 varðandi Byggingarsjóð ríkisins og þar kemur fram í athugasemdum með þeirri áætlun að „á árinu 1983“, segir orðrétt, með leyfi forseta, „voru veitt frumlán vegna um 1090 íbúða.“ Í þessari áætlun er gert ráð fyrir frumlánum vegna um 760 íbúða enda verði um frestun að ræða. Fram kemur að það er byggt á því að allir tekjustofnar, sem gert er ráð fyrir í fjárlögum og lánsfjárlögum, skili sér nema skyldusparnaðurinn. Þar er líka talað um samdrátt varðandi eldri íbúðir og að ekki sé gert ráð fyrir lánum vegna nýrra framkvæmda við leiguíbúðir og heimili fyrir aldraða.

Hæstv. ráðh. upplýsir að endanleg útlánaáætlun liggi ekki fyrir og hann sjái kannske ekki ástæðu til þess að reka á eftir því fyrr en fjármálin séu tryggð. Ég skrifaði það orðrétt hér eftir ráðh. „ekki fyrr en fjármálin eru tryggð.“ Hæstv. ráðh. hefur þá ekki meiri trú á því en þetta að það standi sem er í fjárlögum og lánsfjárlögum. Ég vil spyrja hann varðandi þessa áætlun: Má treysta því að það sé þó a. m. k. hægt að veita lán til 760 nýbygginga á ári vegna þess að það liggur fyrir að standist ekki það sem á að veita í Byggingarsjóð ríkisins á lánsfjárlögum og fjárlögum verði um enn meiri samdrátt að ræða en fram kemur í þessari áætlun?

Varðandi Byggingarsjóð verkamanna eru þær forsendur sem nú er byggt á að fjöldi endursöluíbúða verði sá sami og á árinu 1983, að engar nýframkvæmdir verði á árinu og að skuld sjóðsins um áramót við Seðlabanka Íslands verði endurgreidd á árinu. Það hefur komið fram að þar verði að fresta 1/4 fram á næsta ár. Treystir ráðh. sér til þess að staðfesta það að þannig verði staðið að málum? Við þessu hef ég ekki fengið enn svör í þessum umr.

Ég vil ítreka spurningu mína til ráðh. varðandi lántökur sem stefnt er í og hvert stefnir með að byggja þessa sjóði upp, hvort hæstv. ráðh. hafi ekki neinar áhyggjur af þessari þróun. Hvort hann hafi ekki neinar áhyggjur af því að sjóðirnir þurfi að byggja á svona gífurlega miklum lántökum. Varðandi árið í ár er áætlað að til Byggingarsjóðs ríkisins fari 1167 millj. Ég fæ ekki betur séð en að þar sé um að ræða lántökur upp á 885 millj. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. ráðh. hafi áhyggjur af þessari þróun.

Og ég vil enn fremur spyrja hæstv. ráðh. að því hvort hann mótmæli því að það stefni í það að fjárvöntun í Byggingarsjóð ríkisins verði um 420 millj. á þessu ári. Er kannske meiningin að brúa það með þessum erlendu lántökum sem nú er talað um?

Hv. 3. þm. Reykv. kom inn á það að hæstv. ráðh. hefði sagt að stjórnarandstaðan gerði engar brtt. við 33. gr. frv. og hann benti réttilega á að það væri alrangt. 1. minni hl. flytur brtt. við 33. gr. um að aftan við c-lið bætist nýr málsliður svohljóðandi:

„Einnig búseturéttaríbúðir sem byggðar eru eða keyptar af húsnæðissamvinnufélögum til ótímabundinna afnota félagsmanna“.

Ég vil spyrja hæstv. ráðh. í tilefni af þeim umr. sem hér hafa orðið í kvöld: Er ráðh. reiðubúinn til þess að styðja þessa brtt. og taka þar með af allan þann vafa sem er uppi um réttarstöðu Búseta í félagslega kerfinu? Ég vil taka undir það með hv. 5. þm. Reykv. að mér fannst svör ráðh. nokkuð óljós í því efni. Hann talaði um að búseturéttaríbúar hefðu möguleika á því að komast undir þetta félagslega kerfi. Ég vil líka taka undir það með hv. 3. þm. Reykv. að það verður að liggja ljóst fyrir og það helst fyrir atkvgr. á morgun hver skilningur stjórnarflokkanna er í þessu máli.

Ég vil líka taka undir það með hv. 3. þm. Reykv. að það er nauðsynlegt áður en þetta mál fer héðan úr deildinni að fyrir liggi samþykkt útlánaáætlun. Það er ekki verjandi að við séum að fjalla um þetta mál í marga mánuði í n. og síðan hér við 2. umr. og ekki liggi enn fyrir þessi útlánaáætlun. Ég vil taka undir það með hv. þm. Svavari Gestssyni að þessi útlánaáætlun verði sýnd hér á hv. Alþingi.

Ég ítreka það við hæstv. ráðh. hvort hann sé tilbúinn að styðja þá brtt. frá 1. minni hl. að tryggja ótvíræðan rétt búseturéttaríbúa eins og fram kemur þarna í 13. tölul.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. Stefán Guðmundsson, sem hefur átt sæti í félmn., hefur setið undir þessari umr. og hlýtt á. Hann hefur ekki séð ástæðu til þess að taka hér til máls. Það verður því að líta svo á þar sem hann skrifar undir meirihlutaálit n. að hann sé sammála skilningi þeim sem hv. framsögumaður meiri hlutans lagði hér í 33. gr. frv. um að búseturéttaríbúar heyrðu ekki undir það ákvæði. Ég vil hvetja hv. þm. Stefán Guðmundsson að stíga nú hér í ræðustól og lofa okkur að heyra hans álit á þessu, hvoru megin hryggjar hann er í þessu efni. Hvort hann styðji hæstv. félmrh. og þá túlkun sem fram kom hjá hæstv. félmrh., t. d. í málgagni Búseta, eða hvort hann styðji það sem fram kom hjá hv. þm. Halldóri Blöndal þegar hann mælti fyrir meirihlutaálitinu. Mjög æskilegt væri, herra forseti, að við fengjum það fram í þessari umr. áður en henni lýkur. (Gripið fram í.) Í 33. gr.? (StG: Já, bls. 32 og 33.) Það er alveg sjálfsagt að lesa það hér upp. (StG: Ég held að ég muni það rétt að það sé þar.) Er það um 33. gr.? (StG: Já.)

„Skv. gildandi lögum lánar Byggingarsjóður verkamanna sveitarfélögum til bygginga leiguíbúða. Hér verður einnig gert ráð fyrir að lánað verði til félagasamtaka, stofnana og fyrirtækja sem byggja leiguíbúðir handa félagsmönnum sínum eða öðrum sem þurfa á leiguhúsnæði að halda. Er þá m. a. höfð í huga mikil þörf námsfólks á leiguhúsnæði. Lítið hefur verið byggt af leiguíbúðum hér á landi um margra ára skeið. Á öllum þéttbýlisstöðum er þó ætíð brýn þörf á fleiri eða færri leiguíbúðum og er því hér opnuð leið til þess að lána til slíkra bygginga.“

Ég hef hér lesið fyrir hv. þm. um 33. gr. en það breytir ekki því að fram kom í áliti framsögumanns meiri hlutans að hann vísar búseturéttaríbúum á 11. gr. 1. tölul. Ef hv. þm. Stefán Guðmundsson er ósammála honum í því efni og hefur sama skilning á þessu og hæstv. félmrh. er rétt að hann komi hér upp og taki af allan vafa í því efni.