02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5143 í B-deild Alþingistíðinda. (4504)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég hef orðið allgaman af þessum orðaskiptum.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði áðan og vék sér undan því að svara þeirri spurningu, sem ég beindi til hans, hvort hann gæti hugsað sér að láta leiguíbúðirnar ganga á kerfi verkamannabústaða. (SvG: Svarið er nei.) Nú, hann er mótfallinn því. Við erum þá kannske sammála um það. Það má vera að við verðum meira sammála ef við tölum betur saman.

Hins vegar heyrðist mér á hv. 5. þm. Reykv. að hann væri á öðru máli og kom með skemmtilegt dæmi til að lýsa nú ágæti Búseta og vanköntum verkamannabústaða. Hann tók dæmi af því að íbúð gengi kaupum og söfum á tveggja ára fresti, yrði seld á 2 millj. í hvert skipti og þá mundi það þýða hvorki meira né minna en 10 millj. kr. lán úr ríkissjóði á tíu árum, þannig að eftir þessi fimm ár hvíldu 10 millj. á íbúðinni. Ég held að þetta hafi verið svolítið undarlegur reikningur. Auðvitað greiðist afskaplega lítið á fyrstu tveim árunum af þessum lánum, einkanlega þó þeim hluta þeirra sem er afborgunarlaus tvö fyrstu árin, svo að ég held að lánin geti þá staðið óbreytt og ekki komi til þess að um neina nýja lánsþörf sé að ræða. Þetta var því heldur betur útúrsnúningur og misskilningur, eins og kannske var við að búast, en ég skal ekki um það tala.

Út af því sem hv. þm. sagði um verðtryggingu Byggingarsjóðs vil ég aðeins minna á að í viðreisnarstjórninni var komið á verðtryggingu Byggingarsjóðs ríkisins að hluta, en vinstri flokkarnir börðust fyrir því, og þ. á m. Alþfl. í kosningunum 1971, að þessi verðtrygging húsnæðistána yrði afnumin, sem síðan var tekin upp að hluta á nýjan leik á árinu 1974, þegar sjálfstæðismenn og framsóknarmenn mynduðu þá ríkisstj. sem þá sat. Síðan var þessi verðtrygging aukin smátt og smátt og var komin upp í 6/10 hluta árið 1978. (Gripið fram í.) Ég veit vel að hann var utan stjórnar, en ég er að minna á hans málflutning fyrir þær kosningar. Ég er að minna á þann málflutning og stefnu Alþfl. á þeim tíma. Það má kannske vera að hann hafi tapað kosningunum vegna þess. Ég skal ekki um það segja. En þannig var nú hljóðið þá og Alþfl. átt engan þátt í því að taka upp verðtryggingu á húsnæðislánum í Byggingarsjóði ríkisins. Það gerðu Sjálfstfl. og Framsfl. Fróðlegt væri nú kannske að fletta því upp hvernig Alþfl. tók því á sínum tíma. (JBH: Þetta er alrangt.) Er þetta alrangt? (JBH: Full verðtrygging var ekki tekin upp í ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl.) Ég sagði að hún hefði verið 6/10 hlutar 1978. (Gripið fram í.) Það veit ég vel, en hins vegar brá svo við á þeim árum að eigið fé Byggingarsjóðs rýrnaði mjög. Í skýrslu sem Þjóðhagsstofnun hefur gefið út um ástand og fjárreiður Byggingarsjóðs ríkisins kemur fram að árin 1980–1983 hafa orðið sjóðnum þung í skauti og munu verða það um alllangan tíma og líklegt að þess muni gæta um alllangan tíma af þeim sökum að sjóðurinn var meira en áður fjármagnaður með lántökum og þau lán sem tekin voru voru á hærri vöxtum en þau lán sem veitt voru. Það var því ekki nóg að verðtryggja sjóðinn. Á hinn bóginn batnaði hagur þessa sjóðs á árunum 1974–1978. Ég skal svo ekki þrátta um þetta. Þetta liggur fyrir og er ástæðulaust að vera að gefa hið gagnstæða í skyn.

En ég vil aðeins ítreka hitt, sem fram kom hjá hv. þm., að svo virðist sem Alþfl. sé að missa trúna á verkamannabústaðakerfinu og muni nú hafa öðrum hnöppum að hneppa í sínum húsnæðismálum á næstunni, eins og hv. þm. talaði áðan.