02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5148 í B-deild Alþingistíðinda. (4508)

327. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. út af því sem fram kom hjá hv. 5. þm. Austurl., sem spurði um afstöðu mína til sölu á þeim hlutabréfum sem hér eru til umr.

Við höfum að sjálfsögðu fjallað um það og tekið afstöðu til þess í þingflokki framsóknarmanna eins og til annarra mála sem lögð eru fram af hálfu ríkisstj. og við höfum samþykkt að við teljum eðlilegt að standa að sölu á þessum hlutabréfum.

Fyrir mína parta vil ég bæta því við að ég tel að það eigi að vera sá háttur á með fjármagn sem ríkissjóður leggur í ýmsum tilvikum til fyrirtækja og atvinnurekstrar að það fjármagn sé hreyfanlegt, það sé ekki endilega bundið til lengri tíma í þeim atvinnufyrirtækjum sem eitt sinn er lagt til, heldur sé það nokkurs konar áhættufjármagn, og ef hægt er að selja hlutabréf á viðunandi verði aftur, t. d. hluthöfum eins og menn vonast til að geti orðið í þessu tilviki, og verðið sé líka þannig að það sé talið a. m. k. markaðsverð, eigi það fjármagn að nýtast aftur og á annan hátt til atvinnurekstrar eða uppbyggingar í atvinnulífinu og vera þannig hvetjandi til nýsköpunar.