02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5149 í B-deild Alþingistíðinda. (4512)

328. mál, sala hlutabréfa ríkissjóðs í Iðnaðarbanka Íslands

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Í þessu sambandi vil ég benda á að það eru til dæmi um það að sjóðir hafa verið í vörslu aðila sem ríkið á ekki beina aðild að, það eru til dæmi um slíkt, þannig að þrátt fyrir þessa breytingu, þar sem Iðnlánasjóður er að 80% má ég segja myndaður af iðnrekendum og iðnaðarmönnum í landinu, þetta er þeirra eign og sömuleiðis er bankinn að yfirgnæfandi hluta til í eigu þessara sömu aðila, þá held ég að engin ástæða sé til að óttast um ávöxtun þessa sjóðs í höndum þeirra. Satt best að segja hafa bankastjórar Iðnaðarbankans verið hinir raunverulegu framkvæmdastjórar Iðnlánasjóðs alla tíð og ég held að ég geti trútt um talað þegar ég segi að hann hafi verið jafnbest rekinn fasteignalánasjóður, atvinnuvegasjóður í landinu. Ávöxtun hans hefur gengið vel og hennar gætt jafnbest og ég get í þessu sambandi úr flokki talað því að ég hafði með höndum athugun á áætlun þess sjóðs og lánamálum í stöðu minni hjá Framkvæmdasjóði Íslands, sem var aðallánasjóður fyrir Iðnlánasjóð. Ég held að sú röksemd að bankanum verði ekki treystandi fyrir ávöxtun sjóðsins þótt minnihlutaeign ríkisins í Iðnaðarbankanum hverfi sé nú veigalítil röksemd.