07.11.1983
Efri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

55. mál, tollheimta og tolleftirlit

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég þarf ekki að setja á langa tölu út af þessu máli, enda kemur málið til nefndar sem ég á sæti í og málið er líka mér skylt að því leyti að ég flutti frv. þessa efnis af hálfu ríkisstj. fyrir einu ári. Gildir raunar sama um þetta mál og mál sem hafa verið hér fyrr til umr. í dag og flutt eru af ríkisstj. að það eru mál sem fyrri ríkisstj. bar ábyrgð á og er því ekki ástæða fyrir mig til að bæta mörgu við.

Ég hefði líklega ekki kvatt mér hljóðs nú nema vegna þess að ég verð erlendis á næstu vikum og það gæti verið að málið yrði tekið fyrir í nefnd að mér fjarstöddum. Þess vegna vildi ég aðeins láta í ljós þá ósk mína, að Tollvarðafélagið fái tækifæri til að fjalla um það mál sem hér er til umr. og þá sérstaklega þær breytingar sem verið er að gera till. um varðandi tollgæslu.

Ég hef litið svo á, að ein meginbreytingin sem fólgin væri í þessu frv. væri fjölgun tollhafna. Það er sanngirnismál, réttlætismál, og mér þótti afar leitt að málið skyldi ekki fá brautargengi hér í þinginu í fyrra. Ástæðan mun fyrst og fremst hafa verið sú, að menn flæktu það saman við afgreiðslu annars og alveg óskylds máls, þar sem var spurningin um tollkrít, og því fékkst það ekki afgreitt.

Ég ætla að vonast til þess að þessi mál verði tekin nú til málefnalegrar meðferðar og afgreidd, en ég hef orðið var við það, rétt eins og seinasti ræðumaður, hv. þm. Eiður Guðnason, að Tollvarðafélagið hefur nú vissar athugasemdir að gera við ákveðin ákvæði í þessu frv., og ég mundi því mjög eindregið mælast til þess að þau atriði frv. yrðu skoðuð sérstaklega og Tollvarðafélagið fengi að senda menn á fund nefndarinnar.