03.05.1984
Sameinað þing: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5153 í B-deild Alþingistíðinda. (4530)

172. mál, hagnýting Íslandsmiða utan efnahagslögsögunnar

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Hv. utanrmn. hefur rætt till. þessa og leggur einróma til að hún verði samþykkt.

Efni till. er, eins og hv. þm. vita, um hagnýtingu Íslandsmiða utan efnahagslögsögunnar og hljóðar hún svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því að rannsóknir og veiðar á Íslandsmiðum utan efnahagslögsögunnar verði stundaðar í vaxandi mæli“.

Ég held að það sé nú orðið alveg ljóst að við Íslendingar getum helgað okkur gífurlega þýðingarmikil hafsbotnssvæði á Reykjaneshrygg út í 350 mílur og mundi það vera alla leið frá efnahagslögsögu Grænlands og yfir á Hatton-banka og þar með yfir á Rockallhásléttu og að öllum líkindum nálægt 500 mílna hafsbotnsréttindi á Hatton-sléttu og 60 sjómílur frá brekkufæti, eins og þar er kallað, suður af brekkufætinum. Þetta svæði getum við kannske ekki helgað okkur einir, en það fer ekki á milli mála að við eigum þarna mest réttindi, enda höfum við nú um fimm ára skeið eða svo leitað eftir samstarfi við Færeyinga um að helga þessum þjóðum þessi réttindi, þá þeim einum, eða með því að Írar og Bretar hefðu þar einhver minni réttindi en við.

Reynslan varð sú, að þegar Bandaríkjamenn tóku sér 200 mílna hafsbotnsréttindi, 1948 hygg ég að það hafi verið, þá var sú skoðun látin í ljós m. a. í stórblaðinu New York Times að hafið yfir botninum hlyti að fylgja með, sú hlyti að verða þróunin. Og hún var líka sú. 200 mílurnar urðu að alþjóðlegri reglu og efni hafréttarsáttmálans er með þeim hætti að alveg er ljóst að það er gert ráð fyrir annars konar hagnýtingu á hafinu yfir þessum botni utan 200 mílnanna, sem þjóðirnar geta helgað sér, heldur en á opnu úthafi. Það eru því ekki eingöngu þessi réttindi sem varða námugröft og annað slíkt, eða til að hindra námugröft, hindra boranir, sem eru mikilvæg, heldur fylgja fiskveiðiréttindin líka með í miklum mæli svo og öll botnlæg dýr sem tilheyra botninum og aðrar lífverur koma án efa á eftir.

Það er ekki seinna vænna að við förum að gæta þessara réttinda, meðfram til þess að styrkja stöðu okkar í þeim samningum sem fram undan eru og þegar eru raunar hafnir við nágranna okkar, bæði Breta og Færeyinga, og viðræður við Íra, en að þessu er nú mjög unnið og verður fjallað um það í utanrmn. á næstunni, eins og gert hefur verið reyndar að undanförnu, og ekki tímabært að segja mikið meira um það.

Þegar við erum alltaf af eðlilegum ástæðum að tala um vanda útgerðarinnar þá rennur manni til rifja þegar maður heyrir það að t. d. rússnesk skip nú síðast hafi mokað upp karfanum hér rétt sunnan við 200 mílurnar án þess að við gerðum tilraun til að taka þátt í þeim veiðum eða láta varðskip okkar fylgjast með þeim. Og þegar maður heyrir af því að norskur línuveiðari hafi komið af Rockall-hásléttu í októbermánuði s. l. með 70 tonn af boltasaltfiski, 50 tonn af þorskflökum og annað eins af ferskum fiski án þess að nokkurt íslenskt skip fari á þessi Íslandsmið — og ég nefni þau vísvitandi Ístandsmið. Þess vegna held ég að allir hv. þm. geti verið sammála um það að þessi till. eigi erindi og henni beri að framfylgja. Ég vonast til þess að ekki standi á samþykkt hennar.