03.05.1984
Sameinað þing: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5156 í B-deild Alþingistíðinda. (4535)

52. mál, vistunarvandi öryrkja

Frsm. meiri hl. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft þessa till. til athugunar og rætt hana á nokkrum fundum og fengið nokkra aðila til að mæta hjá sér á fundum og skýra málið og segja frá skoðunum sínum. Einnig bárust umsagnir frá Öryrkjabandalagi Íslands, endurhæfingardeild Borgarspítalans, dr. med. Ásgeiri B. Ellertssyni og einnig lá fyrir hjá nefndinni mjög ítarleg umsögn frá heilbr.- og trmrn. undirrituð af hæstv. heilbrmrh. Matthíasi Bjarnasyni.

Í bréfi ráðherra kemur m. a. fram að fulltrúi rn. í stjórnarnefnd um málefni þroskaheftra og öryrkja hefur flutt um þetta mál ályktun í nefndinni sem samþykkt var í lok október s. 1.

Stjórnarnefndin um málefni þroskaheftra og öryrkja hefur lýst yfir að úthlutað verði úr Framkvæmdasjóði fatlaðra á árinu 1984 til þess að markmiði ályktunarinnar verði náð.

Meiri hl. n., sem reyndar var sá hluti n. sem til fundar kom því tveir nm. voru erlendis, en einn mætti ekki, lýsir stuðningi sínum við framkvæmd þeirrar till. sem samþykkt var að tilhlutan framangreindrar stjórnarnefndar um málefni þroskaheftra og öryrkja. Meiri hl. allshn. er því sammála um að þáltill. verði afgreidd með eftirfarandi rökstuddri dagskrá:

Í trausti þess að heilbr.- og trmrn. og félmrn. taki á þessu máli í samræmi við þá samþykkt stjórnarnefndar að stofna beri sérstaka sjúkradeild til vistunar og þjálfunar þeirra sem vegna slysa hafa fatlast svo andlega að jafna megi til meðfæddrar þroskaskerðingar, að staðið verði við fyrirheit um fjárframlag úr Framkvæmdasjóði fattaðra svo að markmiði ályktunarinnar verði náð á þessu ári telur Alþingi að ekki sé þörf á samþykkt þessarar till. og samþykkir að taka fyrir næsta mál á dagskrá.