03.05.1984
Sameinað þing: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5165 í B-deild Alþingistíðinda. (4539)

52. mál, vistunarvandi öryrkja

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég virði vissulega hreinskilni og raunsæi hæstv. ráðh. og ég virði líka þau mannlegu sjónarmið sem komu fram í máli hans og hef aldrei efast um að hann vildi taka vel á þessu máli. Það sem ég harmaði fyrst og fremst hér var að þessu máli skyldi vísað frá á þann neikvæða hátt sem ég tel með rökstuddri dagskrá. Alveg sérstaklega segi ég þetta eftir að hæstv. ráðh. er búinn að lýsa því yfir að það sem þessi rökstudda dagskrá er byggð á sé rangt, meginatriðin í því séu ekki í sjónmáli, því miður. Og enn síður gat ég skilið á máli hæstv. ráðh. að það væri ætlunin — og ég fagna því — að Kópavogshælið tæki við þessu verkefni svo sem skilja mátti af þessari samþykkt því að engin yfirlýsing kom fram frá hæstv. ráðh. um það — eðlilega ekki því að ég efast ekki um að að betur athuguðu máli dettur hæstv. ráðh. ekki í hug að leysa þetta mál á þann máta.

Þar af leiðandi er sá tónn sem í þessari rökstuddu dagskrá er tvímælalaust neikvæður, því miður. Það er hins vegar rétt að till. sjálf felur ekki í sér nema varanlega lausn og það var gerð grein fyrir því af hálfu okkar flm. strax í upphafi og annarra þeirra sem hér tóku til máls að það væri svo sannarlega ekki auðhlaupið að leysa þetta. Megináhersla okkar beindist að því fólki sem bæði er fatlað andlega og líkamlega. Þar er megináherslan þó að ég viti að sannarlega kemur inn í þennan hóp fleira fólk, sem á aðeins við aðra fötlunina að stríða, er megináhersla okkar á það fólk sem bæði hefur orðið fyrir líkamlegri og andlegri fötlun.

Ég endurtek að í framsögu minni um þetta mál dró ég ekkert úr því hvernig ákveðnar sjúkrastofnanir hafa tekið á málum þessa fólks. Það er svolítið viðkvæmt, af því þetta er einstaklingsbundið, að ræða um hvernig jafnvel starfslið heilu stofnananna hefur neitað og skrifað undir álit um að neita að taka við þessu fólki, að láta það dveljast hjá sér. En ég benti einnig á það þá, að vandkvæði þessara stofnana væru vissulega ærin því það væri ekki bara starfsfólkið sem yrði þarna fyrir óeðlilegu álagi, heldur einnig sjúklingarnir sem á þessum stofnunum eru og hafa svo sannarlega kvartað vegna þess að hér er um mjög órólega einstaklinga að ræða sem valda truflunum ekki bara hjá starfsfólkinu, heldur ekki síður hjá þeim sjúklingum sem eru þar að ná bata. Þetta tók ég atveg skýrt fram og vil ég að komi hér fram aftur vegna orða hæstv. ráðh. að við vorum ekkert að draga úr þeim erfiðleikum sem við vissum af að höfðu átt sér stað milli rn. og ákveðinna sjúkrastofnana í þessum efnum.

En sé það svo að þessu máli eigi nú að vísa frá með rökstuddri dagskrá í trausti þess, eins og hér segir með leyfi forseta, „að heilbr.- og trmrn. og félmrn. taki á þessu máli í samræmi við þá samþykkt stjórnarnefndar að stofna beri sérstaka sjúkradeild til vistunar og þjálfunar þeirra sem vegna slysa hafa fatlast svo andlega að jafna megi til meðfæddrar þroskaskerðingar“ — og þetta er Kópavogshælið, ekki rétt, er það ekki alveg skýrt, með samþykkt stjórnarnefndar, að svo er, ég hef tekið það þannig, að þar ætti að leysa það, — þá spyr ég: Ef það er ekki Kópavogshælið, hvað þá? Á hvaða sérstakri deild á þá að leysa málið? Ég vildi gjarnan vita það þá. Ég fagna því ef það er ekki á Kópavogshæli. Ég fagna því líka ef menn vildu rýma eitthvað af plássi t. d. á Vífilsstöðum, afvötnunardeild þar, og gætu séð sér fært að senda þetta fólk þangað. — Nú sé ég að hv. þm.

Pétur Sigurðsson kinkar kolli. Mér hefur meira en dottið í hug sú lausn sem betri og varanlegri í þessum efnum. En það er bara alls ekkert átt við hana í þessu efni, því miður.

Að staðið verði við fyrirheit um fjárframlag úr Framkvæmdasjóði fatlaðra, það hefur hv. 10. landsk. þm. rakið svo rækilega að það er útilokað að byggja rökstudda dagskrá á því. Þeir peningar eru ekki til og hafi ég skilið hæstv. ráðh. rétt undanfarna daga hafa þeir ekki fengið aukna fjármuni milli handa nema þá í erlendum lánum. Kannske er meiningin að taka erlend lán til slíkra athafna. Það væri a. m. k. miklu nær að taka erlend lán til að standa að svona framkvæmdum en að taka erlend lán til greiðslu barnsmeðlaga.