03.05.1984
Sameinað þing: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5166 í B-deild Alþingistíðinda. (4540)

52. mál, vistunarvandi öryrkja

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég á sæti í þeirri n. sem um þetta mál fjallaði og stóð að nokkru leyti að þeirri afgreiðslu sem meiri hl. n. hefur skrifað undir. Mér fellur illa sá afgreiðslumáti, sem nokkuð mikið er hér iðkaður, að vísa málum til ríkisstj., því að ég sé ekki hvaða pláss er fyrir slíkt í vinnubrögðum Alþingis. En í þessu málefni bar svo við að fyrir lá bréf undirritað af ráðh. þeirra málefna sem hér um ræðir. Þar gaf hann alveg skýra yfirlýsingu um að verið væri að vinna að þessum málum — reyndar, eins og fram kemur í bréfinu, í anda þeirrar samþykktar sem minni hl. n. hefur gagnrýnt, þ. e. hugmyndir sem komu fram hjá stjórnarnefndinni en minni hl. telur að dugi ekki til að sinna því verkefni sem hér um ræðir.

Stjórnskipunarlega eða vinnubragðalega fyrir Alþingi tel ég þetta ekki neikvæða aðferð, en aftur á móti tek ég undir það, sem komið hefur fram hér, bæði hjá hv. 10. landsk. þm. og 2. þm. Austurl., að ráðh. getur ekki skotið sér undan því að svara því beint til hverrar stofnunar hann ætlar að leita til þess að ráða fram úr málum þessa fólks. Mér finnst erfitt að taka þátt í atkvgr. um þetta mál öðruvísi en að þar liggi mjög skýr svör fyrir. Ef búið er að vinna að þessum málum núna skv. dagsetningu í rúmt hálft ár hljóta menn að vera búnir að orða það hvernig á að leysa þetta og geta skýrt það fyrir mönnum hér á þingi, þannig að þeir geti tekið afstöðu til lausnarinnar um leið og þeir taka afstöðu til málsins sem slíks.