03.05.1984
Efri deild: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5168 í B-deild Alþingistíðinda. (4550)

25. mál, lántaka Áburðarverksmiðju ríkisins

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Hv. fjh.- og viðskn. hefur athugað þetta mál mjög rækilega, m. a. fengið á fund sinn stjórnarformann og forstjóra Áburðarverksmiðjunnar, og fengið í hendur þar að auki skriflegar upplýsingar, m. a. bráðabirgðareikning fyrirtækisins. Það er alveg ljóst að þetta fyrirtæki á í gífurlegum erfiðleikum. Stafa þeir mestmegnis af því að framleiðsluvaran er lánuð langtímum saman á lágum vöxtum en reksturinn síðan kostaður með dollaralánum með mjög erfiðum kjörum.

Við vildum í nefndinni reyna að komast sem allra lengst til botns í þessu máli, en urðum að lokum sammála um það að mæla með samþykkt frv. Eins og stendur í nál. er ljóst að Áburðarverksmiðjan hefur fyrir löngu notað peninga þá sem hér um ræðir og er því vart um annað að ræða en staðfesta brbl. En nefndin leggur áherslu á að viðskiptalán, sem verksmiðjan tekur, séu ekki endurlánuð til langs tíma með lakari kjörum fyrir fyrirtækið. Þetta er sem sagt ábending um það að þessir viðskiptahættir verði að breytast.

Eins og ég sagði mælir nefndin öll með samþykkt frv.