03.05.1984
Efri deild: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5173 í B-deild Alþingistíðinda. (4557)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Frsm. minni hl. (Karl Steinar Guðnason):

Eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni náðist ekki samkomulag í n. um afgreiðslu þessa máls. Ágreiningur var allverulegur og skilar minni hl. séráliti, þ. e. ég, Kolbrún Jónsdóttir og Skúli Alexandersson.

Þetta frv. er 8. mál þessa þings og hefur því tekið alllangan tíma að afgreiða það. Ekki vil ég kenna því um að það hafi verið legið á málinu í n., heldur kannske frekar því að umr. um það voru geysilega miklar. Við kölluðum marga á fund til okkar og málið var rætt mjög ítarlega, enda snertir það marga, ekki aðeins útgerðina heldur líka sjómenn og marga aðra.

Við höfum gagnrýnt sérstaklega þær greinar er fjalla um kostnaðarhlut útgerðar þar sem greinilega er verið að færa mikla fjármuni til útgerðarinnar frá sjómönnum sem hafa búið við það að valdhafar hafa talið sér þóknanlegt að skerða kjörin ár eftir ár. Er svo komið að sjómannastéttin er sennilega sú stétt sem verst er sett miðað við aðrar stéttir hvað kjaraskerðingu snertir. Við teljum þetta forkastanleg vinnubrögð og ekki rök fyrir slíku. Við teljum að stjórnvöld hafi almennt komið sér hjá því að marka útgerðinni þann rekstrargrundvöll sem henni hefur hæft hverju sinni. Útgerðin hefur þess vegna átt við vandamál að stríða sem er þáttur af hinum almenna efnahagsvanda, en vandinn er ekki sá að sjómenn hafi verið of vel haldnir.

Við áteljum mjög harðlega þessa gjörð og teljum að hún sé fyrir neðan virðingu Alþingis. Við höfum einnig fært rök fyrir þessu og teljum kostnaðarhlut útgerðar of háan. Við teljum það þó til bóta að olíusjóður og olíugjald fellur niður, en þó að þetta sé að vísu einfaldari gjörð frá því sem áður var er kostnaðarhluturinn mun hærri en þessir sjóðir tóku til sín á sínum tíma.

Það má benda á að olía hefur og farið lækkandi og á vafalaust eftir að lækka áfram ef að líkum lætur. Sjómannasamtökin hafa mjög kröftuglega mótmælt þessum lögum og fært gild rök fyrir þeim mótmælum og höfum við prentað þau í nál. okkar.

Við höfum einnig gagnrýnt upptöku gengismunar, eins og hægt er að orða það, en það kom fram hér áðan, sem er að vísu rétt, að stjórnvöld hafa ár eftir ár notað þessa aðferð til að ná í peninga. Við teljum þetta ranga aðferð og að finna þurfi aðrar leiðir til að rétta af útgerðina þegar hún er illa stödd en að færa fjármuni frá einni grein til annarrar, ég tala nú ekki um þegar svo er komið, eins og kemur fram í þessu frv., að það eru teknir stórfelldir fjármunir af verkun, sem er mjög illa stödd, sannanlega mjög illa stödd og rekin með mjög miklu tapi. Það eru teknir af skreiðarverkun stórfelldir fjármunir þrátt fyrir tap á henni til að færa í aðrar greinar og til annarra aðila.

Við nm. í minni hl. teljum þessar aðferðir gjörsamlega úreltar og rangar, þær eigi ekki að nota þó að aðrir hafi notað þær áður, og leggjumst því gegn þessu. Ef svo yrði farið með aðra sem hagnast á gengisbreytingu mætti hugsa sér að tekinn yrði upp gengismunur t. d. hjá álverinu og fluttur yfir í járnblendið eða eitthvað annað, það yrði tekinn gengismunur af varnarliðinu, sem hefur grætt ómælda fjármuni á kauplækkunum sem eru samfara gengisbreytingum, og fluttur í annan atvinnurekstur. Einhvern veginn hefur það farið svo að mönnum hefur ekki dottið í hug að beita slíkum aðferðum nema gegn útgerðinni. Þetta þýðir um leið að sjómenn og verkafólk, sem hefur unnið til þessara peninga, missa af þessum fjármunum. Þeir eru teknir frá þessum aðilum og fluttir eitthvað annað, oft í alls konar óráðsíu og taprekstur fyrirtækja sem oft og tíðum eiga ekki tilverurétt. Þetta er gert með þá hugsun að leiðarljósi að enginn megi fara á hausinn. Það er í raun girt fyrir að menn séu ábyrgir gerða sinna. Það er hægt að hirða peninga með svona tilfærslum frá öðrum sem hafa þá staðið sig betur í rekstri.

Við tilgreinum einnig í nál. ýmis ummæli frá því á síðasta þingi þegar sams konar mál lá fyrir, að ráðstafa gengismun. Þá var það að sjálfstæðismenn ásamt Alþfl.-mönnum beittu sér fyrir því að það yrði horfið frá því. Matthías Bjarnason, þáv. alþm. og núv. heilbrmrh., flutti einmitt brtt. við það frv. sem þáv. sjútvrh. flutti og fékk Matthías þá till. samþykkta, þannig að skreiðarverkun, sem hafði staðið mjög illa, þurfti ekki að greiða þennan skatt.

Það eru í nál. tilgreind þau ummæli sem eru skjalfest í þingtíðindum og þau ummæli eru mjög hörð og ágæt grg. fyrir því hvers konar vitleysa það er að standa svona að málum. Það fór svo, eins og ég sagði áðan, að alþm. voru að meiri hluta sammála þeirri túlkun að ekki næði nokkurri átt að beita þessu gagnvart þeim greinum sem byggju við stórfellt tap. En það er undarlegt að nú, aðeins nokkrum mánuðum seinna, skuli þm. sjálfstæðismanna hafa uppi allt aðrar skoðanir. Það bendir til þess að þessir menn álíti stjórnmál miklu frekar þátttöku í sirkus en þjóðmálabaráttu. Skipt er um skoðun eftir veðri eða einhverju yfirnáttúrlegu, a. m. k. skv. rökum.

Hv. síðasti ræðumaður greindi frá því hvernig skreiðarverkendur hefðu lagt til að leysa þeirra dæmi. Það hefur ekki verið farið að þeim till. enn. Þetta eru till. til þrautavara, ef svo mætti segja. Þeir hafa mjög lagst gegn því að 3. gr. frv. yrði samþ., hafa óskað eftir því að ákvæði hennar næðu ekki yfir þeirra framleiðslugrein vegna þess að ljóst væri að hún væri rekin með miklu tapi.

Þeir hafa bent á að þeir þyrftu að fá fé úr Verðjöfnunarsjóði, sem þeir reyndar eiga sjálfir, og þeir hafa bent á að þeir þyrftu 10% aukningu á lánafyrirgreiðslu í bönkum. Hvorugt hefur átt sér stað. Ég fæ ekki séð hverju meiri hl. sjútvn. getur breytt um það og að bankarnir fari að lána meira til þessarar greinar.

Auðvitað eru nm. því allir sammála að reynt verði að sinna þessu, en það hefur ekkert verið gert. Eftir sitja skreiðarverkendur mjög illa settir. Þetta eru aðilar sem gjalda þess vitlausa kerfis sem enn er notað.

Það kom fram áðan að hugsanlega væri nokkur von til þess að selja skreiðina á næstunni. Því miður er ekkert ljóst í þeim efnum, og þó hún seldist á því verði sem ætlað er að selja hana á nú standa menn alls ekki neitt betur því verðið, sem talað er um að selja skreiðina á, er mun lægra en það sem áður hefur fengist og enn er talað um stórfelldan greiðslufrest.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Við höfum rætt þessi mál mjög mikið í n. og höfum fallist á að málið verði afgreitt þó við séum mjög andvíg málinu og leggjum til að það verði fellt. En við höfum leyft okkur að bera fram brtt. á þskj. 588 og er hún svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Aftan við 1. mgr. 3. gr. bætist: Þó skal ekki taka gengismun af skreið sem greiðist eftir 1. janúar 1984.“ Við teljum að þetta sé eina leiðin til þess að koma til móts við skreiðarverkendur og reyndar ekkert annað rétt en að samþykkja þessa tillögu.