03.05.1984
Efri deild: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5175 í B-deild Alþingistíðinda. (4559)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu var eitt af fyrstu málum deildarinnar strax á haustdögum og hefur verið til skoðunar í sjútvn. og er allvel yfirfarið og hefur verið sent mörgum til umsagnar. Strax í upphafi kom í ljós hvernig nm. skiptust upp í afstöðu til málsins. En af einhverjum ástæðum hefur ekki verið talin ástæða til að koma málinu til fullnaðarafgreiðslu hér í deildinni fyrr en nú. Öðruvísi mér áður brá í sambandi við meðferð brbl.

Á síðasta ári voru gerðar svipaðar ráðstafanir, þó ekki neitt í líkingu við þessar. Það var verið að gera ákveðnar efnahagsráðstafanir á haustdögum 1982 af ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens. Þingið hafði varla komið saman þegar hv. þáverandi stjórnarandstæðingar tóku sér tíma hvað eftir annað á hv. Alþingi, bæði í sameinuðu þingi og í deildum, til að ræða um hvernig í ósköpunum stæði á því að frv. kæmi ekki til afgreiðslu og lýstu því með mörgum orðum og löngum ræðum hvað það væri nú ólýðræðislegt að afgreiða ekki brbl. um leið og þing kæmi saman. Það virðist sem þm. Sjálfstfl. séu fljótir að skipta um skoðun og gætu, eins og hv. þm. Karl Steinar sagði, skipt um skoðanir á nokkrum mánuðum. Það er greinilegt að í sambandi við afgreiðslu brbl. hefur þeim tekist að skipta um skoðun og breyta vinnuháttum frá því sem þeir áður töldu að æskilegt væri engu síður en í sambandi við það hvernig afgreiða skyldi gengismun. Þeir eru jafnskoðanaliprir í sambandi við það hvernig skuli afgreiða brbl. og þeir eru skoðanaliprir í sambandi við það hvernig ráðstafa skuli gengismun.

Það var boðað fyrir tæpu ári eða 27. maí að þær aðgerðir sem þetta frv. fjallar um skyldu mæta rekstrarvanda í sjávarútvegi og þó einkum í útgerð fiskiskipa. Sumir hafa sjálfsagt trúað því líka að þarna væri Sjálfstfl. að koma með betri stefnu og hv. ríkisstj. og í þessum aðgerðum mundi það felast að rekstrarvandi íslenskrar útgerðar leystist. En því miður hefur raunin orðið önnur engu síður en hvað það varðar að halda fram fyrri skoðunum sínum.

Íslenski fiskiskipaflotinn stendur nú frammi fyrir ósköp svipuðum og jafnvel stærri vandamálum en hann stóð frammi fyrir á sama tíma fyrir ári. Einmitt um það leyti sem við í sjútvn. vorum að afgreiða þetta mál — á næsta fundi á eftir — fáum við á okkar borð og tökum til umræðu frv. þar sem einn smáhluti af vanda sjávarútvegsins var til umfjöllunar, þ. e. skuldaskil á stofnlánum fiskiskipa. Þeir aðilar sem komu til viðræðu við okkur um það mál voru ekkert feimnir við að segja að það væri ekki nema hluti þess vandamáls sem við blasti. Það vandamál sem við blasir núna í sambandi við sjávarútveginn og útgerð fiskiskipa er að mörgu leyti til orðið vegna þeirra aðgerða sem gerðar og framkvæmdar voru með þeim lögum sem við erum að fjalla um hér. Gengisbreytingin frá s. l. vori, sem varð samhliða þeim lögum sem við erum nú um að fjalla, olli því m. a. að meginhluti fiskiskipaflotans stendur nú í vanskilum gagnvart Fiskveiðasjóði, og nokkur hluti af flotanum í það miklum vanskilum að ríkisstj. hefur ekki enn þá fundið leiðir til þess hvernig eigi að leysa þeirra vandamál.

Ég held að það væri rétt við þessa umr. að spyrja hv. 3. þm. Vesturl. hvernig málin standi í sambandi við þau skip sem eru í mestum erfiðleikum vegna stofnfjárskulda. Þessi sami hv. þm. lýsti því yfir fyrir jól vestur í Grundarfirði að vandamál þessara skipa væru þegar að miklu leyti leyst og það væri að mörgu leyti gengið frá því. (Gripið fram í: Þetta er ekki satt.) Þetta er mjög nálægt því að mestu leyti. Ætli það væri ekki hægt að fletta upp á þessu í Mogganum. Hann tíundaði þetta allrækilega. Og ég veit að Grundfirðingar, sem einmitt eiga í ansi miklum vanda vegna þessa, muna vel eftir því hvað hv. þm. sagði um þetta mál.

Ég vænti þess að þm. telji sig jafnábyrga hvort sem þeir eru að gefa yfirlýsingar hér á hv. Alþingi eða vestur í Grundarfirði, ég treysti því nú, og það sé jafn sjálfsagt að standa við orðin hvort sem þau eru töluð í Grundarfirði eða hér á hv. Alþingi. (Gripið fram í: Og Stykkishólmi.) Og ekki síður í Stykkishólmi.

Þetta frv. fjallar um breytingu á kostnaðarhluta útgerðar, þ. e. skerðingu á hluta sjómanna til skipta. Þetta frv. gerði hlutaskipti marklaus á stórum hluta flotans. Meginhluti bátaflotans hefur, eftir það að þessi breyting átti sér stað, litla von um að afla það mikið að sjómenn hafi möguleika á að hlutur myndist. Þar af leiðandi veit ég að það er um það talað, eins og fram kemur í áliti Sjómannasambands Íslands sem prentað er í nál. minni hl., að sjómannafélög hafa eftir þessar aðgerðir mjög fjallað um hvort ekki sé eðlilegt að breyta launakerfi sjómanna. (Gripið fram í: Það er allt öðruvísi.) Ég hef trú á að það hafi ekki verið meiningin með þessum lögum að stefna að því og ég vænti þess að frá þessari stefnu verði horfið, þannig að leitað verði heldur ráða til þess að sjómenn hafi möguleika á að njóta hlutar af sem stærstum hluta síns afla. Æskilegast væri að þróuninni væri frekar snúið í þá átt að sjómaðurinn hefði von um að fá aflahlut þegar úr fyrsta fiski en halda þeirri stefnu sem hér hefur verið tekin upp og haldið undanfarin ár.

Um þessar og aðrar aðgerðir gagnvart sjómönnum hafa, eins og ég sagði hér fyrr, sjómannasamtökin fjallað. Á fundi 1. maí á Akranesi sagði Óskar Vigfússon formaður Sjómannasambands Íslands, eftir því sem Tíminn segir í dag, með leyfi hæstv. forseta. Hann talaði á ekki ómerkari stað en Akranesi og sagði m. a.:

„að sjómannastéttin hefði dregist svo aftur úr í launum, bæði vegna minnkandi afla og þeirrar stefnu að taka sífellt stærri hluta fisksins fram hjá hlutaskiptum, að ekki yrði lengur við það unað. Sjómenn hefðu lengi sýnt mikla þolinmæði í þessum málum, en nú væri svo komið að óumflýjanlegt væri að láta sverfa til stáls á þessu ári til þess að fá leiðréttingu í launamálum sjómannastéttarinnar.“

Þessi lög sem við erum að fjalla um hafa að miklu leyti valdið þeirri stefnu sem sjómannasamtökin reka nú og við megum búast við að komi fram í kaupdeilum og erfiðleikum við samningagerð þegar að haustmánuðum kemur.

Annar þáttur þessa frv., sem hv. frsm. meiri hl. notaði meginhluta ræðu sinnar til að réttlæta, er taka gengismunar. Hann fullyrti það að allar ríkisstjórnir allra flokka hefðu tekið gengismun. Sjálfsagt er það að einhverju leyti satt að engar ríkisstjórnir eru saklausar þar af. En undanfarin ár hefur gengismunur ekki verið tekinn vegna þess að það hefur verið gengissig og því hefur gengismunur runnið beint til seljanda vörunnar.

Það var merkileg árátta við þær aðstæður sem voru á síðasta sumri að framkvæma gengisfellingu og skipuleggja millifærslu með þeim hætti sem gert var með þessum lögum, þ. e. að taka gengismun af vörum sem vitað var að skiluðu ekki hagnaði og af yrði halli hjá framleiðendum. Þarna var bæði um að ræða saltfiskinn og einnig skreiðina. Við getum að vísu viðurkennt að frá því að þessi brbl. voru sett hafi staða saltfiskverkunar lagast, þannig að réttlætanlegt sé að halda áfram, sem gert var með lögunum, að taka gengismun af þeirri framleiðsluvöru, enda er sá gengismunur allur þegar tekinn, en að rembast eins og rjúpan við staurinn enn við að taka gengismun af þeirri skreið sem enn er óseld í landinu og enn er ógreidd úti í Nígeríu, það fellst ég ekki á og tel alveg rangt.

Hv. þm. Karl Steinar lýsti því áðan í ræðu sinni hvað þm. Sjálfstfl. hefðu talið sjálfsagt að slíkt yrði ekki framkvæmt í fyrra. Ég tel að nú sé enn nauðsynlegra að undirstrika þá skoðun sjálfstæðismanna, sem þeir höfðu uppi í þessum málum, en þá. Það voru þó miklar líkur fyrir því á þeim tíma að skreiðin seldist og hún var að seljast á þeim tíma, en eins og stendur í dag eru litlar líkur fyrir því að þessi vara seljist og vitað er að jafnvel þó að hún seljist verður það gert með miklum halla. Það lá alls ekki fyrir þegar sjálfstæðismenn voru að boða sína kenningu um töku gengismunar á síðasta ári að þannig færi í sambandi við framleiðslu skreiðar að beinlínis yrði halli á henni. (Gripið fram í.) Ég man ýmislegt, já.

Við þessa umr. er rétt að benda á að sá tími sem við erum að upplifa núna og sú umræða sem er í þjóðfélaginu sýnir okkur hvað mikið stefnuleysi fólst í þeim aðgerðum sem gerðar voru með brbl. og þeim aðgerðum sem sú ríkisstjórn sem nú situr gerði í upphafi síns ferils. Það er hver fréttin á fætur annarri í blöðunum, sem komu út í dag, sem undirstrikar þetta. Í Dagblaðinu er það boðað, m. a. með því að hlera þm. Sjálfstfl., að vaxtahækkun sé líkleg og í leiðara þess sama blaðs segir um afgreiðslu mála sem ríkisstj. er nú að leggja fyrir Alþingi og hvernig stoppað hefur verið í fjárlagagatið eftir allar yfirlýsingar ríkisstj. um að ekki skuli bæta við erlendum lánum:

„Þótt ríkisstjórnin reyni nú að hagræða spátölum til að svo líti út sem þessi 60% múr hafi verið rofinn með lélegri niðurstöðu f sparnaðaráformum hennar má öllum öðrum vera ljós ósigur hennar. Eftir góða byrjun í fyrra er farið að síga á ógæfuhliðina. Ríkisstjórninni er þrotinn kraftur“.

Ég tek reyndar ekki undir að það hafi verið góð byrjun hjá ríkisstj. að gefa út þau brbl. sem hér eru til umr., en ég tek undir að ríkisstj. sé nú þrotinn kraftur.