03.05.1984
Efri deild: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5178 í B-deild Alþingistíðinda. (4560)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Frsm. meiri hl. (Valdimar Indriðason):

Herra forseti. (Gripið fram í: Nú er að standa sig.) Ekki veitir af brýningu frá hv. 11. landsk. þm. þegar maður kemur í stólinn eftir slíka ræðu sem hér var haldin.

Í fyrsta lagi vil ég segja að við 4. þm. Vesturl. höfum átt mjög góða samvinnu í sjútvn., og ég tók það fram í framsöguræðu minni áðan að það er ekki sök meiri hl. n. að þetta mál hefur dregist þetta lengi. Ég rakti öll rök fyrir því. Þetta er búið að liggja tilbúið hjá okkur í nefndinni ég held í þrjár vikur. Ég tek því ekki með þökkum að ég sé gagnrýndur fyrir að vera að tefja þetta mál vísvitandi, að því er mér skildist á ræðumanni, í n. til að koma því í seinna lagi inn í þingið. Þetta kann ég ekki að meta.

Í öðru lagi ætla ég ekki að svara neitt sérstaklega þeirri gagnrýni sem kemur fram þarna á ýmsa liði. Karl Steinar kallaði okkur sjálfstæðismennina þátttakendur í sirkus, heyrði ég áðan. Ég tek enga ábyrgð á orðum sjálfstæðismanna á þingi í fyrra. Ég hef mínar skoðanir hér. Þeir geta svarað fyrir sig sem þar voru. En ég sé ekki ástæðu til að afgreiða þetta mál núna öðruvísi en á þennan hátt. Það liggur ekkert fyrir, eins og ég sagði, hvað fæst fyrir skreið. Það liggur ekkert fyrir um rýrnun á henni eða annað slíkt enn þá. Það er of snemmt að fara að gefa út þann gengismun sem ekki er neins staðar í hendi á næstu mánuðum. (Gripið fram í: Þetta liggur fyrir.) Liggur fyrir? Það er ekki enn þá eftir mínum upplýsingum.

Svo var það að hv. 4. þm. Vesturl., Skúli Alexandersson, hneykslast mjög á gengisbreytingunni s. l. vor. Er það nú að furða? Ég er ekki að mæla bót gengisbreytingu nema síður sé, en hver var aðkoman að því ágæta búi sem ríkisstj. tók við s. l. vor? Skúli á ekki sérstaklega sök á því. Ég vil að menn tali af sanngirni um þessi mál. Hvaða leiðir voru aðrar færar til að reyna að halda þjóðarskútunni á floti en sú sem farin var þá? Svo er því kennt um núna að þetta sé að koma öllu á hausinn. Og svo notar hann aðstöðuna í hv. þingdeild til að segja frá fundi sem við vorum á, þingmenn Vesturlands, vestur í Grundarfirði í vetur og hefur farið alveg sérstaklega fyrir brjóstið á honum. Við vorum þar spurðir ýmissa spurninga um atvinnumál og þ. á m. hvers vænta mætti varðandi útgerð þeirra skipa sem þar væru og einkum nýs skips sem heitir Sigurfari II. Mikið vandamál er hjá þeim í rekstri og einnig hjá Fiskveiðasjóði. Ég sagði það, Skúli Alexandersson, hvað sem stendur í Mogganum, það geta aðrir þm. vitnað um sem voru á þessum fundi og hér eru staddir í deildinni, að unnið væri að því að leita ráða til að leysa vandamál þessara skipa og væri það vel á veg komið. Þetta sagði ég og stend við. Það var þá þegar hafin sú athugun í Fiskveiðasjóði á hvaða máta væri hægt að leysa vandamál þessara skipa. Hvort Sigurfari er til athugunar í augnablikinu skal ég ekki segja um. Sennilega er það ekki vegna þess að það eru átta skip viðskila við hópinn. En á fundinum sagði ég að það væri unnið að þessum málum og við það stend ég.

Ég skil ekki hvað það hefur farið fyrir brjóstið á hv. þm. að ég skyldi upplýsa að unnið væri að þessum málum. Það var eins og það væri honum ókært að verið væri að vinna að þessum málum. Svona málflutningur vil ég ekki að sé hafður í frammi á milli félaga úr einu kjördæmi þegar þeir ræða sérstök innanbyggðarvandamál. Þetta er ekkert feimnismál fyrir mig.

Ég ætla ekki að tefja þennan fund frekar, en vildi koma að þessum athugasemdum.