03.05.1984
Efri deild: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5180 í B-deild Alþingistíðinda. (4562)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Frsm. minni hl. (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. síðasti ræðumaður, 4. þm. Vesturl., sagði hér áðan, að það er röng skipulagning á þingstörfum að nú í þinglok skuli þingmenn vera að afgreiða 8. mál þingsins. Það er ekki bara hvað þetta mál varðar sem rangt er staðið að skipulagningu þingstarfa, svo er á flestum ef ekki öllum sviðum og þarf að stefna að því að ganga skipulegar til verks á næstu þingum.

En það féllu hér ansi merkileg orð. Hv. 3. þm. Vesturl. upplýsti áðan að hann svaraði ekki fyrir það sem sjálfstæðismenn hefðu gert í fyrra, og mátti finna það á hreimnum í röddinni að hann var ekki hrifinn af því hvað þeir hefðu aðhafst þá og að hann hefði nokkra skömm á því hvernig að málum hefði verið staðið. En sleppum því. Hér er staddur hæstv. núv. fjmrh., Albert Guðmundsson, sem var einnig á þingi í fyrra og lét til sín taka í umræðu um sams konar mál og við erum að tala um núna, þ. e. upptöku gengismunar. Við þá umræðu sagði sá ágæti þm. og núv. ráðh. með leyfi forseta:

„Hann [fyrrv. sjútvrh., Steingrímur Hermannsson] talaði um að það væru fleiri krónur sem fengjust væntanlega einhvern tíma þegar skreiðin seldist. Fleiri krónur, mikið rétt, en það eru verðlausar krónur. Halda menn virkilega, heldur hæstv. sjútvrh. að fyrir þær krónur fáist sama magn af skreið til að selja aftur seinna? Þetta gengur á verðmæti eigenda sjávarútflutningsafurða að sjálfsögðu. Það þýðir ekki að tala hér eins og verið sé að tala við nýútskrifaða viðskiptafræðinga.“ Og áfram hélt hann:

„Þá er búið að draga frá gengismun og það er búinn að hlaðast á vöruna aukakostnaður í geymslu, það er búinn að hlaðast á hana fjármögnunarkostnaður, þannig að jafnvel þótt dollarinn hafi hækkað um 100% á árinu, þá dugar það bara ekki til til að standa undir öllum kostnaði.“

Og áfram hélt hæstv. núv. fjmrh.:

„Það er hrein sjálfsblekking ef menn halda að einstaklingar fáist til að leggja nýtt fé í slíkan rekstur sem sjávarútvegurinn er orðinn...

Að leggja skatt á styrkþegann og styrkþeginn er undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar, þetta er alveg furðulegt fyrirtæki. Ég get ekki með nokkru móti skilið að blankur einstaklingur geti tekið lán hjá sjálfum sér til að halda áfram að fjármagna sínar þarfir.“

Svo mörg voru þau orð. En nú stendur þessi sami hv. þm. að því að gera það sem honum fannst svo fjandi vitlaust í fyrra. (Gripið fram í: Það eru allt aðrar aðstæður í þjóðfélaginu.) Fyrst hv. þm. Egill Jónsson leggur hér orð í belg vil ég benda á að þetta er sama gjörðin og hæstv. ráðh. var að ræða um á síðasta þingi. Sama gjörðin. Aðstæður í þjóðfélaginu breyta engu þar um.

Nú langar mig til að spyrja hæstv. fjmrh.:

Eru svona vinnubrögð til fyrirmyndar? Er hann í hjarta sínu sammála því að fara svona að? Brýtur það ekki í bága við samvisku hans og hugsjónir að halda svona á málum?