03.05.1984
Efri deild: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5185 í B-deild Alþingistíðinda. (4571)

310. mál, menntaskólar

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Hv. menntmn. þessarar deildar hefur fjallað um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 12/1970, um menntaskóla. Eins og hv. þdm. rekur minni til þá gerði hæstv. menntmrh. ítarlega grein fyrir þessu máli í framsögu fyrir skömmu síðan. Þess vegna tel ég ekki ástæðu til að fara um þetta frv. mörgum orðum. Sannleikurinn er sá að hér er aðeins verið að treysta þann lagagrunn sem starfið innan öldungadeildanna, eins og þær hafa verið nefndar, hvílir á.

Eins og fram kemur í nál. rita sumir nm. undir með fyrirvara. Munu þeir sem viðlátnir eru að sjálfsögðu gera grein fyrir sínum fyrirvörum. Ég vil þó taka það fram að ágreiningur var síður en svo um þetta mál í n., enda leggur n. til að frv. verði samþ.