03.05.1984
Efri deild: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5187 í B-deild Alþingistíðinda. (4575)

310. mál, menntaskólar

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. vakti hér athygli á máli sem þörf var á að fjalla um og lagði fsp. fyrir hæstv. menntmrh. um það hvort skólakostnaðarlög mundu ekki bráðlega sjá dagsins ljós. Svarið við þeirri spurningu var á þá leið, sem við höfum sjálfsagt öll búist við, að þau mundu ekki verða lögð fram á þessu þingi. Mér fannst einnig mega ráða það af svari hæstv. ráðh. að það væri nokkuð langt í land að þau yrðu lögð fram eða að lausn þessa máls lægi fyrir.

Hæstv. ráðh. lýsti því sem sinni skoðun að ríkið ætti að sinna framhaldsskólanáminu og sveitarstjórnir stærri hluta í grunnskólanámi. Sjálfsagt eru margir á þessari skoðun. En það leysir ekki þann vanda sem við blasir í sambandi við það mál sem hv. 3. þm. Vesturl. benti á, að ákveðin byggðarlög bera sérstakan þunga af framhaldsskólanáminu en önnur ekki. Þetta hefur gengið svo langt að sum sveitarfélög sem kannske þurfa að standa straum af kostnaði við fleiri en einn skóla og telja sig hart leikin hafa tekið það til bragðs að krefjast námsvistargjalda af þeim nemendum sem í þá skóla hafa komið, öfugt við það sem gert er á Akranesi, þar sem ein slík menntastofnun er og Akurnesingar hafa ekki, eins og hv. þm. benti á, krafist námsvistargjalda.

Ég held að þetta mál geti raunverulega ekki beðið eftir því að það margþætta mál sem skólakostnaðarlögin eru verði að öllu leyti leyst. Ég legg því áherslu á að þetta mál verði tekið út úr og leyst sérstaklega og á þann máta, sem ég tel sjálfsagðan, að ríkið beri að fullu kostnað við fjölbrautaskóla eins og við menntaskóla.