03.05.1984
Efri deild: 88. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5188 í B-deild Alþingistíðinda. (4578)

311. mál, fjölbrautaskólar

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Mig langar til þess að segja fáein orð vegna svars hæstv. ráðh. hér áðan. Þessi tvö mál sem hér eru til umr. eru nákvæmlega hliðstæð og athugasemdir sem ég gerði við fyrra málið eiga við það síðara. Ráðh. taldi að það væri erfiðara að gera áætlanir varðandi kvöldskólana, fullorðinsfræðslu, ef greiðsluhlutfall nemenda væri öðruvísi en nú er. Ég sé ekki hvernig það getur verið því að það er auðvitað spurning um að taka ákvörðun á einhverjum tíma-punkti og miða síðan við hana í áætlanagerð. Í svari ráðh. var yfirleitt gengið út frá því að einhver ákveðin upphæð væri til ráðstöfunar í þessi mál. Okkur er auðvitað öllum kunnugt um ástand ríkisfjármála þessa dagana, en mér finnst samt sem áður ekki gott að heyra að ráðh. sjái ekki fram á bjartari tíð og hafi ekki áhuga á að hlúa betur að þessum mikilvægu málum sem fullorðinsfræðslan er og sjá til þess að lagt sé fram nægilegt fé til að standa vel að verki. Ráðh. taldi einnig að fullorðið fólk gæti vel greitt eitthvað því það hafi oftast atvinnutekjur sem yngra fólk hafi yfirleitt ekki.

Það er svo sannarlega rétt. En ráðh. talaði einnig um það í leiðinni hversu mikilvægt réttindamál þetta væri fyrir konur og þá vil ég benda hæstv. ráðh. á það í leiðinni hversu bág launakjör kvenna í rauninni eru hér á landi, svo bág að þau veita ekki svigrúm til munaðar eins og fræðslu.