07.11.1983
Neðri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

11. mál, launamál

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég hef áður skýrt afstöðu mína til þeirra brbl. sem hér eru til umr. í svo ítarlegu máli að ég þarf þar engu við að bæta. (Gripið fram í: Það er nú gott.) Ég þakka hv. skrifara fyrir það að hann hefur meðtekið boðskapinn og ekkert farið þar milli mála.

En örfá orð í tilefni af ræðu hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar. Það er oft rætt um hlutverk stjórnarandstöðu og stjórnarandstaðan atyrt fyrir það að hún sé neikvæð í sinni afstöðu. Hún fáist ekki til að unna ríkisstj. sannmælis og taki ævinlega neikvæða afstöðu til allra hluta sem frá ríkisstj. koma. Nú er það svo að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson skoraði á stjórnarandstöðuna að taka upp jákvæða afstöðu einmitt vegna þess að nú eru þau tíðindi uppi í þjóðfélaginu að nú þurfi allir góðir menn og þjóðhollir að snúa bökum saman, og á þá við hinar svartsýnu spár fiskifræðinga um ástand fiskistofna, einkum þorskstofnsins.

Það er ástæða til að taka þessa áskorun hv. þm. alvarlega. Um leið kallar það á að rifja upp eftirfarandi. Hæstv. ríkisstj. mótaði sínar efnahagsaðgerðir með brbl. Hún kaus þá leið að koma í veg fyrir að stjórnarandstaðan fengi um þetta að fjalla mánuðum saman. Það var ekki fyrr en Alþingi var sett rúmum fimm mánuðum eftir kosningar sem stjórnarandstöðunni gafst kostur á umr. um mátið. Spurning: Hefur afstaða stjórnarandstöðunnar í heild verið mjög neikvæð til þessara aðgerða? Ég segi nei. Burtséð frá því hver heildarmynd er af fréttaflutningi fjölmiðla, sem er venjulega undir hælinn lagt, þá er það staðreynd að minn flokkur t.d. hefur lýst því yfir að hann er samþykkur því grundvallaratriði í aðgerðum ríkisstj. sem felst í lögbundnu afnámi vísitölukerfisins. Það er ekkert smávægilegt atriði. Við höfum ekki lýst andstöðu við það. Við lýstum því yfir fyrir kosningar að við teldum vísitölukerfið hafa gengið sér til húðar, við tókum þá afstöðu í stjórnarmyndunarviðræðum við aðra flokka að við vildum að það kerfi yrði lagt niður. Og það er meginatriðið í aðgerðum ríkisstj. Það er fyrst og fremst það sem máli skiptir að því er varðar von ríkisstj. um einhvern tímabundinn árangur í viðureigninni við verðbólgu, þó að það eitt dugi hvergi nærri til. En stjórnarandstaðan, a.m.k. minn flokkur, við höfum ekki tekið neikvæða afstöðu til þessa grundvallaratriðis. Þvert á móti, við höfum lýst yfir stuðningi við það.

En við höfum gert annað. Við höfum sagt: Sú aðferð ríkisstj. einmitt við þessi skilyrði að svipta aðila vinnumarkaðarins samningsrétti, það höfum við sagt að væri ekki aðeins óskynsamleg aðferð, hún væri beinlínis heimskuleg og trúlega mjög skaðleg. Þess vegna er okkur það mikið gleðiefni að hv. þm. og fleiri hv. þm., ég minnist þess t.d. að hv. 2. þm. Reykn., Gunnar G. Schram, lýsti því hér yfir í þessum ræðustól að hann væri þessum málflutningi stjórnarandstöðunnar fylgjandi. Og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson hefur lýst því yfir að hann sé þessum málflutningi stjórnarandstöðunnar fylgjandi. Hv. þm. Friðrik Sophusson, ef fjölmiðlar skýra rétt frá, lýsti því yfir sem einu meginatriði í ræðu sinni til formannskjörs á landsfundi Sjálfstfl., að hann teldi meira en tímabært að aðilum vinnumarkaðarins væri aftur skilað samningsréttinum. M.ö.o. hér hefur myndast samstaða. Stjórnarandstaðan hefur frá upphafi vega sagt: Þessi aðgerð ríkisstj., stjórnarflokkanna, var óskynsamleg. Hún var röng, hún var skaðleg. Hún breytir engu að því leyti, hún færir ekki stjórnarflokkana að neinu marki nær markmiðum sínum að því er varðar hjöðnun verðbólgu, en hún veldur hins vegar úlfúð, tortryggni, illindum, kyndir undir stéttastríði, er óþörf.

Það er ekkert lítið mál ef málflutningur stjórnarandstöðunnar leiðir til þess að hinir skynsamari og hófsamari menn í stjórnarliðinu taka nú undir þennan málflutning. Og ef það kynni þrátt fyrir allt að sannast í meðförum þingsins á þessu mikla máli að þar næðist samstaða um þetta, þá hressist maður nú aðeins í óneitanlega veikri trú á getu Alþingis og stjórnarandstöðu til þess að hafa einhver áhrif á gang mála. Ég vil m.ö.o. eindregið taka undir þann málflutning sem hér hefur komið fram og láta í ljós þá ósk mína að í meðförum þingsins verði þessi breyting framkvæmd. Og um leið vil ég árétta það að gagnrýni á stjórnarandstöðuna af þessu tilefni er ekki á rökum reist. A. m. k. á þar stjórnarandstaðan ekki öll óskiptan hlut.

Að því er varðar áminningu hv. þm. um það, þau válegu tíðindi, sem er spá fiskifræðinga um 200 þús. tonna hámarksafla þorsks á næsta ári, hvað það feli í sér fyrir afkomu þjóðarinnar, stefnu ríkisstj., þróun kaupmáttar, þróun lífskjara á næsta ári, þá er það allt saman hverju orði sannara. En ég vil vekja athygli hv. þm. á einum hlut. Og hann er þessi: Það er áreiðanlega þó nokkuð langt síðan fiskifræðingar komust að sínum niðurstöðum. Þær voru ekki settar fram á einum degi, þær áttu sinn aðdraganda. Það eru áreiðanlega nokkrar vikur sem líða meðan fiskifræðingar eru að vinna úr sínum heimildum, sínum rannsóknum og komast að þessum niðurstöðum. Vitneskjan um niðurstöður þeirra kemur mönnum misjafnlega á óvart, en það er alveg áreiðanlegt að það eru þó nokkuð margir menn í þessu þjóðfélagi sem höfðu vitneskju um hverjar niðurstöður þeirra yrðu.

Þá er á það að líta að eftir að skýrsla þeirra var birt í einu af dagblöðum þjóðarinnar hefur hún verið birt og hún verið tekin til umræðu víðs vegar í þjóðfélaginu. Þessi kolsvarta skýrsla fiskifræðinga hefur t.d. verið til umræðu á landsfundi íslenskra útgerðarmanna, aðalfundi í LÍÚ, og hún hefur verið til umræðu hjá landsfundarmönnum á þingi farmanna og fiskimanna. En það er einn staður, það er ein stofnun í þessu þjóðfélagi sem hefur ekki fengið neitt tækifæri til að fjalla um eða ræða þessi válegu tíðindi. Hún heitir Alþingi Íslendinga. Plaggið hefur ekki verið birt hér. Það hefur ekki verið lagt hér fram. Hæstv. forsrh. hefur t.d. ekki séð ástæðu til að kynna þessi tíðindi, leggja þau fyrir, þó ekki væri nema fyrir formenn þingflokkanna, þannig að þetta yrði rætt í þingflokkunum, kannske á undan eða samtímis því að hinir og þessir hagsmunaaðilar úti í bæ eru að taka málið til umræðu. Hæstv. sjútvrh. hefur ekki séð ástæðu til að birta Alþingi Íslendinga sérstaka skýrslu um þetta mál. M. ö. o., það eru fjölmargir aðilar í þjóðfélaginu sem fá þessi gögn upp í hendurnar, ræða þau, hagsmunaaðilar, já, já. En Alþingi Íslendinga hefur ekki verið virt svo mikils að þessi skýrsla yrði birt hér. Þess vegna spyr ég: Hvernig á Alþingi Íslendinga að ræða málið, komast að sameiginlegum niðurstöðum, ef það er ekki einu sinni virt þess að upplýsingarnar séu lagðar hér fram. Ég held að áminning hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar snúist ekki hvað síst um það. Það er ókannað mál hvaða áhrif þetta kann að hafa á málflutning stjórnarandstöðu, vilja manna til þess að snúa bökum saman, hugsanlega til þess að skapa sterkari pólitískan bakhjarl nauðsynlegum aðgerðum. En frumskilyrði þess að það geti orðið er að hæstv. ráðh. og ríkisstj. virði Alþingi þess að leggja upplýsingarnar fram.