07.11.1983
Neðri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

38. mál, erfðalög

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hefði nú kosið að fleiri væru viðstaddir. Satt að segja er dálítið þreytandi að mæla hér fyrir málum sem varða töluvert fólkið í landinu þegar svo fáir eru viðstaddir. En það eru kannske ekki fleiri í húsinu. Hvað um það, ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á erfðalögum nr. 8 frá 1963, sem lagt hefur verið fram á þskj. 39 og er 38. mál þingsins. Meðflm. mínir eru hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, Kristín S. Kvaran, Guðrún Agnarsdóttir og Jón Baldvin Hannibalsson.

Hinn 1. mars 1956 fól þáv. dómsmrh. Bjarni Benediktsson þeim Ármanni Snævarr prófessor og Þórði Eyjólfssyni hæstaréttardómara að semja frv. til nýrra erfðalaga, en áður hafði nefnd um norræna lagasamvinnu skorað á dómsmálaráðherra Norðurlandanna að beita sér fyrir endurskoðun á norrænum erfðalögum. Samningu hins íslenska frv. var lokið árið 1960 og varð það að lögum árið 1962. Engar breytingar hafa verið gerðar á lögunum síðan, enda var í hvívetna vandað til þessarar lagasetningar.

Tilgangurinn með þeirri norrænu samvinnu sem fram fór við undirbúning erfðalaga á Norðurlöndum var sá að leitast við að samræma sem unnt væri lög þessara landa. Það tókst í verulegum mæli, en eins og eðlilegt hlýtur að teljast er þó margvíslegur munur á eftir afgreiðslu frumvarpanna í hinum ýmsu þjóðþingum. Kemur þar m.a. til að ýmis önnur lög, sem fyrir voru í hverju landi, hljóta að hafa áhrif á stefnumörkun löggjafans. Sem dæmi má taka að í engu landanna nema Íslandi eru lög, þ.e. framfærslulögin nr. 80 frá 1947, sem gera börnum skylt að framfæra foreldra sína ef þau eru til þess fær.

Ef litið er á þróun erfðalaga má sjá að stöðugt hefur verið unnið að því að tryggja rétt maka. Liggja vafalaust til þess þær ástæður að litið er á hjúskap sem sterkasta band sem menn tengjast. Hvoru hjóna er skylt að framfæra hitt og annast, og því er það vilji löggjafans að eftirlifandi maki verði ekki verr settur en efni standa til við andlát hins skammlífari maka. Við gerð núgildandi erfðalaga var enda réttur eftirlifandi maka aukinn þannig, að erfðahlutur hans var færður úr 1/4 eigna í 1/3 hluta ef um eftirlifandi niðja er að ræða. Sé ekki um niðja að ræða, renna 2/3 hlutar eigna til eftirlifandi maka en 1/3 hluti til foreldra séu þeir á lífi. Í dönsku lögunum t.d. erfir hins vegar eftirlifandi maki allar eignir óskiptar, en foreldrar hafa ekki erfðarétt.

Í því frv. sem hér er mælt fyrir er lagt til að réttur eftirlifandi maka sé enn rýmkaður að því er tekur til réttar til setu í óskiptu búi. Ekki er þó lagt til að rétturinn sé rýmkaður eins og dönsku lögin kveða á um, þ.e. að eftirlifandi maki eigi ævinlega rétt til setu í óskiptu búi eins og það er við lát maka með niðjum beggja, hvort sem þeir eru fjárráða eða ófjárráða. Hér er einungis lagt til að heimili eftirlifandi maka sé undanskilið samþykki barna svo og húsmunir þeir sem þar eru, en eins og lögin eru nú er seta í óskiptu búi háð samþykki fjárráða barna og stjúpbarna.

Athygli hv. þm. er vakin á að með þessu frv. er lagt til að í öllum tilvikum, bæði þegar eftirlifandi maki fær ekki leyfi til setu í óskiptu búi vegna þess að fyrirmæli hins látna eru á annan veg eða að samþykki fjárráða niðja er ekki fyrir hendi, og í þeim tilvikum sem greinir í 14. og 16. gr., hafi eftirlifandi maki þrátt fyrir skipti afnotarétt íbúðarhúsnæðis og húsmuna, nema hann óski sérstaklega eftir að öllu búinu verði skipt, enda uppfylli hann skilyrði 8. og 13. gr. laganna, þ.e. að ekki sé um gjaldþrot að ræða eða að maki hafi gengið í hjúskap að nýju. Sérstök athygli er hins vegar vakin á að afnotarétti eftirlifandi maka fylgja þess vegna ekki eignarráð eða ráðstöfunarréttur eins og um óskipt bú væri að ræða.

Í ítarlegri grein um erfðarétt maka og óskipt bú, sem Guðrún Erlendsdóttir dósent skrifaði í tímaritið Úlfljót 4. tbl. 21. árg. 1978, segir svo, með leyfi forseta:

„Samkvæmt dönskum rétti á eftirlifandi maki jafnan rétt til setu í óskiptu búi með sameiginlegum niðjum beggja, jafnt fjárráða sem ófjárráða. Hér á landi hefur aftur á móti um langan tíma gilt sú regla að seta í óskiptu búi með fjárráða börnum er háð samþykki barnanna. Það getur oft á tíðum bitnað illa á eftirlifandi maka þegar fjárráða börn neita að samþykkja setu í óskiptu búi og jafnvel verið ósanngjarnt þegar tillit er tekið til þess að uppeldi barns er að mestu lokið um tvítugsaldur. Það er e.t.v. hægt að segja að fjárráða börn eigi ekki réttmæta kröfu til þess að sundra búi foreldranna við andlát annars þeirra. Foreldrarnir eru búnir að fullnægja skyldum sínum við þau og hin félagslega aðstaða barna í dag er öll önnur en hér var áður fyrr. Það eru dæmi til þess að fjárráða börn neiti um samþykki til setu í óskiptu búi af ýmiss konar annarlegum hvötum og hefur það bitnað harkalega á eftirlifandi maka sem þarf að selja eignir búsins og verður að gerbreyta lifnaðarháttum sínum. Sýnist þetta varla vera í samræmi við þann hugsunarhátt að styrkja stöðu eftirlifandi maka sem haldið hefur verið svo mjög á lofti hin síðari ár.“

Undir þessi orð er auðvelt að taka og ég vil hvetja þá hv. þm. sem áhuga kunna að hafa á að gera hér á breytingu að kynna sér umrædda grein Guðrúnar Erlendsdóttur sem er afar skýr og ítarleg. Einkum vil ég leyfa mér að benda þeirri n. sem fær málið til umfjöllunar á að lesa greinina vandlega. Hana má fá hér í bókasafni Alþingis.

Það er ekki að ófyrirsynju að óvenjulega margir hafa sýnt þessu þingmáli áhuga utan hins háa Alþingis og ófáar frásagnir hef ég heyrt um hörmuleg málalok við búskipti sem krafist hefur verið og svo hart verið gengið að eftirlifandi maka að hann hefur staðið uppi heimilislaus. Við persónulegan missi hefur bæst fjárhagslegt öryggisleysi sem ekki síst verður þungbært þeim sem eru nokkuð við aldur.

Með tilliti til þess að lífaldur manna lengist sífellt samfara betra heilbrigðisástandi í landinu verður að telja það þjóðfélaginu fyrir bestu að fólk geti sem lengst búið á eigin heimilum í stað þess að verða að flytjast á heimili eða stofnanir fyrir aldraða þegar maki fellur frá. En sú er stundum raunin vegna eindreginnar kröfu um búskipti.

Íslendingar hafa þá sérstöðu í heimi atvinnuleysis og kreppu að aldrað fólk fær mun lengur tækifæri til að taka þátt í atvinnulífi þjóðarinnar, og löggjafinn hefur unnið markvisst að því að sú sérstaða haldist. Öllum þeim sem að málefnum aldraðra vinna kemur saman um að því lengur sem menn séu virkir þátttakendur í samfélaginu þeim mun lengur endist þeim líf og heilsa. Og búseta á eigin heimili ætti að vera frumréttur hins aldraða svo lengi sem hann er fær um að annast það með þeirri þjónustu sem völ er á. Þarf vart að benda á þann sparnað sem fólginn er í því að aldrað fólk sé virkir þátttakendur í atvinnulífinu og búi á eigin heimilum í stað þess að gista opinberar stofnanir. Enginn vafi er á að konur eiga frekar undir högg að sækja þegar búskipta er krafist við lát maka. Enn þá er það svo að mun stærri hópur þeirra hefur verið fyrir utan atvinnulífið, og því eiga þær erfiðara með að breyta lífsháttum sínum og byggja upp nýtt heimili. Enda er það svo að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem á biðlistum eru á stofnunum fyrir aldraða eru einmitt konur. Meðallífaldur karla á Íslandi er auk þess nokkru styttri en kvenna.

Að lokum skal þess getið að nefnd sú sem hæstv. fyrrv. heilbr.- og trmrh. skipaði árið 1981 til þess að gera tillögur um samræmingu í skipulagi heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða og annast undirbúning ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg sumarið 1982, en formaður þeirrar nefndar var Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri, nefndi breytingu á erfðalögum, í þá veru sem hér er ráð fyrir gert, sem tillögu til úrbóta í málefnum aldraðra. Í síbreytilegu þjóðfélagi hlýtur að verða að hyggja að breytingu á lögum, ekki síst þeim er varða frumþarfir þegnanna eins og réttinn til eigin heimilis. Með sívaxandi eignarhaldi á húsnæði er um sífellt meiri fjármuni að ræða sem látnir láta eftir sig til skipta. Og þá er tæpast að undra þó að áhugi erfingja aukist á skiptunum.

Frá árinu 1962 hefur aukist mjög fjöldi þeirra eftirlifandi maka sem búa í eigin húsnæði, svo að um verulega fjármuni getur verið að ræða fyrir erfingja. Samkv. upplýsingum sem aflað hefur verið vegna könnunar á vegum Húsnæðismálastofnunar ríkisins bjuggu árið 1979 85,5% Reykvíkinga í eigin húsnæði, en aðeins um 63% í kringum 1960. Er hér því um að ræða 22% aukningu á eigin húsnæði í Reykjavík á umræddu tímabili, eða frá því að lögin voru sett. Og enginn vafi er á því að hlutfall eigin húsnæðis fer vaxandi.

Við flm. teljum flest mæla með því að sú breyting sem frv., sem mælt er hér fyrir, gerir ráð fyrir verði talin sanngirnismál. Hér er tæplega um að ræða mál sem valdið getur pólitískum ágreiningi, enda eru flm. fulltrúar fimm stjórnmálaflokka. Ég bið því hv. þm. að veita þessu máli brautargengi hér á hinu háa Alþingi og vísa því að öðru leyti, herra forseti, til hv. allshn.