04.05.1984
Efri deild: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5361 í B-deild Alþingistíðinda. (4654)

212. mál, skógrækt

Frsm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég vísa til þess að við fyrri umr. var þetta mál rækilega skýrt af hendi hæstv. landbrh. Auk þess vitna ég til grg. með frv. sem skýrir tilgang þess og eðli. Með tilvísan til þessa fjalla ég hér einvörðungu um þær brtt. sem n. gerir og umfjöllun hennar að öðru leyti um málið.

Eins og fram kemur í nál. var leitað umsagnar hjá Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélagi Íslands, Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda. Auk þess átti n. viðræður við Jónas Jónsson búnaðarmálastjóra og einnig Tryggva Gunnarsson og Bjarna Guðmundsson sem skýrðu viðhorf landbrn. í þessu tilviki. Til viðbótar hafði n. einnig samband við skógræktarstjóra.

Á þskj. 755 leggur landbn. Ed. fram brtt. við frv. í sjö liðum. Til að skýra þessar brtt. í fáum orðum þykir mér vert að fjalla hér um þær sérstaklega. Fyrsta brtt. er við 2. gr. frv. og er gerð skv. ábendingu sem kom hér fram við fyrri umr. þar sem lögð var áhersla á að ákvæði 2. gr. um að heimila tiltekinn styrk til jarðeigenda yrði ekki bundið við jarðir einar saman, heldur þá aðila sem ættu lönd sem næðu þeirri tilskildu lágmarksstærð. Vona ég að hv. þm. Ragnar Arnalds taki eftir þessu vegna þess að það var hann sem kom með þessa ábendingu við fyrri umr.

Þá er í sambandi við 26. gr. bætt við orðinu „sérfræðilegar“. Sú breyting er rökstudd með því að ástæða þykir til að undirstrika að könnun á skógræktarskilunum verði unnin af sérfróðum aðila sem í þessu tilviki er að sjálfsögðu Skógrækt ríkisins. Þá er líka lagt til að í stað þess að vísa til 16. gr. skógræktarlaga um þær kröfur sem gera skuli til girðinga sé sá kostur valinn að láta ákvæði girðingalaga gilda um girðingar um nytjaskóga. Ákvæði 16. gr. skógræktarlaga og girðingalaga um hvaða kröfur eru gerðar til frágangs girðinga eru ekki á sama veg. Þar sem hugsanlegt er í sumum tilvikum að nýta girðingar sem þegar eru fyrir hendi á bújörðum fyrir nytjaskóga og meiri líkur eru á að slíkar girðingar uppfylli kröfur girðingalaga er þessi brtt. sett fram. Ákvæði 16. gr. skógræktarlaga gera meiri kröfur til efnis og frágangs girðinga en hins vegar er vörslugildi girðinga skv. girðingalögum talið nægjanlegt.

Þá er enn fremur gerð breyting skv. ábendingu Búnaðarþings um að bæta við nýrri mgr. sem felur í sér að umráðamanni lands sé heimilt að framkvæma sérstakar aðgerðir á kostnað Skógræktarinnar ef hún stendur ekki við sinn hlut. Almennt má segja um þetta atriði að í frv. eins og það var lagt hér fram voru kvaðirnar og skyldurnar æði mikið á annan veginn, þ. e. gagnvart bændaþættinum í þessu máli. Hér er gert ráð fyrir því að í grundvallaratriðum verði um samning að ræða á milli Skógræktarinnar og þeirra bænda sem taka til við ræktun nytjaskóga og þar af leiðandi þykir eðlilegt að hér sé viðhöfð fyllsta gagnkvæmni í skyldum og ábyrgð.

Í fimmta lagi er lagt til að í því tilfelli þegar skógræktin hefur mistekist og landeigandi er losaður undan samningi fari það eftir mati á umbótum á landi en nemi þó aldrei meiru en hinum upphaflega styrk ásamt verðbótum. Till. er miðuð við það að hér verður ekki um hærra hlutfall að ræða en 4/5 af matsverði girðingar en aðrar umbætur falli jörðinni til. Þetta er rökstutt með því að hin faglega ábyrgð á ræktuninni hvíli að verulegu leyti á Skógrækt ríkisins og telja má sanngjarnt að þær landbætur, ef einhverjar eru, af misheppnaðri skógrækt falli landinu til.

Í sjötta lagi er bent á það að skv. 28. gr. getur Skógræktin valið þann kost í tilefni af ítrekuðum vanefndum landeiganda eða ábúanda að krefjast innlausnar á skógræktarlandinu að uppfylltum ýmsum skilyrðum. Hér er lagt til að þessari reglu verði breytt á þann veg að heimilt sé að taka landið tímabundið í vörslu Skógræktarinnar af þessu tilefni og væri sá tími lengst 8 ár. Hafi landeigandi eða ábúandi þá ekki bætt úr vanefndum getur Skógræktin krafist innlausnar á landinu. Bæti landeigandi eða ábúandi hins vegar úr vanefndum tekur hann á ný við landinu með þeim kvöðum sem samningur um nytjaskóga ákveður. Rökstuðningur fyrir þessu er sá að líta verður á þessar skógræktarframkvæmdir sem lið í búskap á viðkomandi jörð og tímabundnar ástæður geta hugsanlega valdið vanefndum á samningum. Því er hér lögð til breyting á því á hvern hátt Skógræktin grípur inn í til að viðhalda tilteknum árangri.

Skv. frv. var aðeins við það miðað að forkaupsréttur Skógræktarinnar að skógræktarlandinu yrði ekki virkur þegar viðkomandi jörð væri í heild ráðstafað til nánar tilgreindra skyldmenna skv. 1. tölul. 26. gr. jarðalaga 1976, en þar er skilyrði að viðkomandi taki jörðina til ábúðar og fullra nytja. Rétt þykir að rýmka þetta ákvæði á þann veg að forkaupsréttur Skógræktarinnar yrði almennt ekki virkur þegar jarðeigandi ráðstafaði jörð sinni í heild.

Herra forseti. Með tilliti til þessara skýringa þykir mér ástæða til að benda á að öll n. hefur undirritað nál. og er sammála um afgreiðslu þessa máls. Mér finnst að lokum ástæða til að færa samnefndarmönnum mínum þakkir fyrir gott samstarf í n. Vert þykir mér að geta þess, að hv. 2. þm. Austurl. hefði gjarnan viljað vera hér við þessa umr. til að undirstrika áhuga sinn á þessu máli, en hann hafði ráðstafað tíma sínum á annan veg.