04.05.1984
Efri deild: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5363 í B-deild Alþingistíðinda. (4657)

135. mál, skipamælingar

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Samgn. var sammála um að mæta með því að þetta frv. yrði samþykkt. Þó kom það fram í n. við umræðu um þetta mál að vissir annmarkar eru á samþykkt þess. Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til verður skipaflotinn mældur með tvennum hætti, þ. e. öll ný skip og þau önnur sem hefur verið verulega breytt verða með hina nýju mælingu en hin eldri geta haldið sinni mælingu um ákveðinn árafjölda. í frv. eru frestandi ákvæði um gildistökuna vegna þess að það eru svo margir þættir í sambandi við útgerðina okkar sem bindast mælingu og stærð skipanna.

Við erum nú að fjalla um frv. í samgn. einmitt um réttindi skipstjórnarmanna og vélstjóra miðað við stærð og sömuleiðis erum við bundnir ákveðnum stærðum í sambandi við veiðiréttindi. Ég vildi aðeins vekja athygli á því að það er svolítið skrýtið að búa við það að skipaflotinn geti verið mældur eftir tveimur ákveðnum reglum og þar af leiðandi skipin mismunandi stór eftir því hvaða mælieining eða mæligerð verður notuð.